12.12.2007 | 12:03
Hangikjöt og jólabækur
Bongóblíða en hryllileg hálka í efri bænum. Fór yfir á Rayðarfjörð í gær, okkur í Þjónustumiðstöðinni var boðið í hangikjöt og var boðið haldið í Safnaðarheimilinu. Það mættu vel flestir en ekki allir. Einhverjar uppsagnir eru í gangi vegna óánægju með breyttan launalið, sem verður til lækkunar launa og að minnsta kosti einn er hættur. Mér skilst að þetta sé eitthvað sem samþykkt var munnlega heiðursmannasamkomulag er það víst kallað. En er ekki skriflegt og því lenda starfsmennirnir sem eru í útiverkunum í því. Er það ekki alltaf svoleiðis? Ég man þegar við í sveitarfélaginu þurftum að semja við starfsfólk ákveðinnar stofnunar hér í bænum. Þá var byrjað að skera af skúringakellingunum og svo komu eldhúsmellurnar. Topparnir hækkuðu og þeir sem sátu í launanefndinni!
Þið verðið að fyrirgefna þessa bloggleti, mér finnst ég ekki hafa neitt að segja og hef ekkert verið að gera. Er þó búin með jólakortin og gerði nokkur jólabréf að þessu sinni. Hef ekki sett upp neitt jólaskraut, það tekur því ekki þar sem ég verð ekki heima. Er búin að kaupa nokkrar jólagjafir, kemst þó aldeilis vel frá því, að því leiti að nafna mín hefur verið dugleg að kaupa fyrir mig. Svo held ég þeim sið að gefa yngstu barna- og barnabörnunum inn á bók, kannski eitthvað smávegis með, svona til að leyfa þeim að tæta pappírinn utan af pökkunum. Vel á minnst. Í mínu ungdæmi þurftum við að vanda okkur við að taka utan af gjöfunum og brjóta pappírinn vandlega saman til að nota næstu jól. Ég minnist þess þó ekki að við hefðum gert það, en það gerðu þetta margir.
Margar jólabækurnar eru spennandi og ég hlakka til að komast yfir fleiri. Ætla að skila Ekkjunni hans Stephen King ólesinni, las í fyrrinótt 19 mínútur Jodi Picoult algjörlega mögnuð. Ég get ekki verið sammála þeim sem segja að Þúsund bjartar sólir eftir Afganann Khaled Hosseini sé betri en Flugdrekahlauparinn, en hún er ein besta bók sem ég hef lesið lengi. Ætla að reyna að fá Óreiðu á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur í dag eða einhverja aðra nýja. Það er verst að hér í bókasafninu er sú regla að enginn fær nema eina nýja bók, fátækt bókasafn. Man þó eftir samkomulagi sem ég gerði við Ingibjörgu Magnúsdóttur þegar hún var bókavörður. Ég beið fram að lokun síðasta opnunardag fyrir jól og fékk með mér heim margar nýjar bækur!
En hafið þið tekið eftir því að það koma svona ákveðnir straumar í bókaútgáfu. Á hverju ári, í mörg ár, komu út bækur eftir konur sem höfðu lent í hremmingum, ég nota bara það orð. Þær áttu það flestar sammerkt að vera frá Afríku eða hafa gifst mönnum úr arabalöndunum. Þessar bækur voru næstum allar eins.
Um bloggið
Vangaveltur
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.9.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.