17.3.2008 | 09:55
Fermingar
Systir mín á afmæli í dag, hvað aldrinum viðkemur er hún alltaf jafn hress og skemmtileg. Fyrir ári síðan átti hún merkisafmæli þar sem var mikið, mikið gaman. Til hamingju með daginn elskan mín.
Fór í tvær fermingarveislur í gær. Skóflaði í mig svo mörgum hitaeiningum að dagarnir fram að næstu fermingarveislu duga varla til að eyða þeim. Borðaði samt hafragraut í morgun, og tók lýsi.
Það kom í ljós við borðhaldið í gær að margir mundu varla eftir fermingardeginum sínum, þó var þetta fólk á besta aldri. Ég man minn fermingardag mjög vel, bjartan og fallegan, enda komið langt fram í maí. Fermingarundirbúningurinn var hefðbundinn en þó varð ég og bekkjasystir mín að sækja fermingarfræðsluna að hluta til heim til prestsins þar sem við vorum byrjaðar að vinna í frystihúsinu.
Ég á mynd af mér frá þessum degi þar sem ég er að styðja einn “Víkinginn” á hjóli. Ég er í grænni kápu með skinnkanti og með alveg rosalega mikið permanent, örugglega tekið hjá frú Christiansen! Fyrir peningana sem ég fékk að gjöf keypti ég mér hjá Bjössa á Bakka, Telefunken útvarp og plötuspilara. Næstu árin fór mikið af mínum peningum í hljómplötukaup.
Það er fátítt í dag að veislur séu haldnar í heimahúsum og ég veit ekki af hverju gestafjöldinn er orðinn svo miklu meiri en hann var! Kannski vegna þess að áður fyrr voru það bara nánustu ættingjum og vinum sem bjuggu í heimabyggðinni sem var boðið til veislu, en núna samstarfsfólki, ættingjum og vinum í öðrum landshlutum svo dæmi sé tekið.
Auðvitað er fermingardagurinn merkileg athöfn. Það er samt mín skoðun að það sé undantekning að börn/unglingar láti ferma sig trúarinnar vegna. Hver vill staðfesta að 13 eða 14 ára unglingur láti sig kristinndóminn sig svo miklu varða að hann láti ferma sig. Ég lét ferma mig af því að aðrir gerðu það og vegna gjafanna. Ég á samt mína barnatrú, sem ég reyni að rækta í dag, en hún á ekkert skylt við þá trú sem ég játaði á fermingardaginn.
Gott veður, logn en kalt. Sólin farin að fleyta Múlann vel og birtan yndisleg. Hlakka til þess að það fari að hlýna.
Um bloggið
Vangaveltur
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.4.): 3
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 160726
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég fermdist í Dómkirkjunni 12. apríl 1964. Fermingarveislan var heima og það var bara fullorðnum boðið man ég, mér fannst hundleiðinlegt í veislunni og var ekki sérlega ánægð með fermingarkjólinn minn né skóna. En svona er þetta. Allir hafa sínar minningar.
Edda Agnarsdóttir, 17.3.2008 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.