20.4.2008 | 10:15
Logn og blíða, sumarsól...
Veðrið hefur verið alveg yndislegt undanfarna daga. Koppalogn og sólskin. Hitastigið hefur verið um og yfir tíu gráðurnar. Móar og melar gægjast upp úr snjónum í fjallinu hér fyrir ofan en í Austfirsku ölpunum sést varla á dökkan díl eins og myndin sem ég setti inn hér í gær ber með sér.
Vinakona mín sem kíkti til mín í gær er að passa barnabörnin sín þessa dagana, tvo stráka og fór með þá í fjöruna í gær. Hún lýsti fyrir þeim að hérna hefði hún alltaf leikið sér sem barn og fjaran hefði þá verið miklu stærri. Þeir voru eitthvað vantrúaðir á þetta en þegar þau voru að fara úr fjörunni heyrði hún annan sonarsoninn segja við vin sinn: Þetta var einu sinni garðurinn hennar ömmu.
Er furða þótt börn hugsi svona. Hvernig eiga þau að skilja að á okkar æskuárum var leikvöllurinn allt á milli fjalls og fjöru. Fjaran og bryggjurnar, melarnir og planið sem hægt var að vera í slábolta á. Við vinkonurnar töluðum um það í gær að þá hafi ímyndunaraflið verið allsráðandi í leikjum okkar og við tókum okkur nafn aðalleikarana í þeim fáu kúrekabíómyndum sem við sáum. Ef nöfn aðalhetjanna voru þegar komin á þá var bara notast við nöfn eins og Trigger. En enginn vildi vera Kúkki, feiti kallinn!
Manstu eftir Bomba spurði ég í gær? Já Guð minn góður ég var næstum búin að gleyma honum. Mér var ekkert um hann gefið sagði ég, þegar fyrsta myndin með honum kom hingað var ég spurð hvort þetta væri mágur minn!
Stefni á tónleikana Síðasta lag fyrir svæðisfréttir - óskalagatónleikar í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði síðdegis í dag. Flutt verða lög sem valin hafa verið af væntanlegum hlustendum og verða þau flutt af Sigrúnu Hjálmtýsdóttir og Jóhanni Friðgeiri Valdimarssyni. Meðleikari verður Kári Þormar.
Um bloggið
Vangaveltur
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Úff engir smá flottir tónleikar þarna á ferðinni! Ég verð með þér í anda.
Yndislegt að veðrið er svona gott hjá ykkur, ekki laust við öfund hérna megin, annars er veðrið ljómandi hér á Skaga.
Skemmtileg sagan af vinkonu þinni og garðurinn hennar ömmu er dásemd!
Edda Agnarsdóttir, 20.4.2008 kl. 11:47
Það getur víst sjaldnast verið gott á öllu landinu. Ekki öfunda okkur hugsaðu bara hlýlega til okkar. Gott að fá þetta veður eftir erfiðan vetur. Já "garðurinn hennar ömmu" er bara tær snilld. Góðar stundir, er að búa mig á Eskifjörð.
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 20.4.2008 kl. 14:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.