Í fótspor bresku hermannanna 1942

Ferðafélag Fjarðamanna er geysilega öflugt félag sem stofnað var í skíðaskálanum í Oddsskarði fyrir 12 árum. Á dagskrá þess eru árlega margar gönguferðir og eitthvað nýtt á hverju ári. Næsta ganga félagsins heitir: Í fótspor bresku hermannanna 1942. Langar mig til að endursegja hér ágrip af sögu þessarar örlagaríku ferðar, en hana setti ég á upplýsingarskilti fyrir Fjarðabyggð 2006.

Mesti mannskaði sem breska herliðið varð fyrir á Austurlandi í síðari heimsstyrjöldinni varð ekki í stríðsátökum heldur í glímunni við íslenskan vetur. Dagurinn 20. janúar 1942 rann upp á Reyðarfirði með stillu og heiðríkju. Fótgönguliðar nýstofnaðrar fjallaherdeildar höfðu þá í nokkra daga beðið þess að veður skánaði svo að þeir gætu spreytt sig í nágrenninu. Liðsforingjar höfðu hlotið þjálfun í sérstökum vetrarherskóla á Akureyri og þennan bjarta morgun lagði stór hópur hermanna, líklega um 70 manns, undir forystu ungs lautinants frá Búðareyri norður Svínadal og ætlaði að ganga um Hrævarskörð til Eskifjarðar. Ekki gekk sú áætlun upp vegna svella og harðfennis neðan undir skarðinu. Þá var ákveðið að halda inn úr Svínadal og um Tungudal og Eskifjarðarheiði. Lengdi þetta gönguna um nokkra klukkutíma miðað við sæmilegar aðstæður. Er líða tók á dag fór veður versnandi, fyrst lagði yfir ískalda hrímþoku og síðan tók að blása af suðaustri með slyddu. Þegar hópurinn náði upp á Eskifjarðarheiði var dagur að kvöldi kominn og skollið á aftakaveður með mikilli ofankomu. Var nú móti veðri að sækja og fór svo að sögn eins þátttakanda (Fred Norton) að hópurinn tvístraðist á leið sinni austur af heiðinni. Fjallalækir voru orðnir sem stórfljót og krapaelgurinn í hné eða meira. Voru margir er hér var komið sögu nær örmagna af þreytu og vosbúð. Veturhús voru þá næsti bær við heiðina norðan ár, grasbýli um 2 km innan við jörðina Eskifjörð og án símasambands. Þar bjó þá Páll Pálsson með Þorbjörgu móður sinni og systkinum. Voru bræðurnir Páll og Magnús, 15 ára, þennan dag í kolauppskipun úti á Eskifirði en mægður í fjárstússi og eldiviðarkroppi inni á dal. Fólk gekk þreytt til náða um tíuleytið um kvöldið, en áður Páll sofnaði bætti í veðrið svo að hann taldi vissara að huga að útihúsum. Á leið til bæjar rakst hann á torkennilega þúst, sem reyndist vera mannvera skríðandi með bakpoka. Var þar kominn einn bresku hermannanna og áður en nóttin var öll yljuðu sér 48 örþreyttir menn og holdvotir í þröngum bæjarhúsunum og nutu aðhlynningar. Voru bræðurnir á þönum úti við að bjarga hermönnum í bæinn og bera inn vatn en systurnar Bergþóra og Kristín hjúkruðu þeim ásamt móður sinni og nærðu eftir föngum. Nokkur lík fundust þá um nóttina og daginn eftir og urðu átta áður en yfir lauk. Í hópi látinna var fararstjórinn. Þverár tvær runnu saman utan bæjar og voru kolófærar fram undir morgun að ekki sé talað um Eskifjarðará. Er dagaði birtist breskur liðsforingi að svipast um eftir félögum sínum og brátt dreif að fólk til aðstoðar frá Eskifirði og var þar á meðal Einar Ástráðsson læknir. Björgunarafrekið sem unnið var við erfiðar aðstæður þessa óveðursnótt, mun seint gleymast.

Helstu heimildir:

Friðþór Eydal: Fremsta víglína, s. 105-110, Reykjavík 1999.Bergþóra Pálsdóttir: Hrakningasaga brekra hermanna á Eskifjarðarheiði.

Eskja I, s. 191-194.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ansi mögnuð frásögn. Öfunda ykkur af þessu sterka ferðafélagi, vildi gjarna hafa slíkt hér á Ísafirði, er of bissí til að standa í því að stofna svona félag.

kv Rögn

Rögnvaldur Þór Óskarsson (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 21:37

2 identicon

Svakaleg saga, takk fyrir mig (kvitta sjaldan, en les þig alltaf).

Kristín í París (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 23:11

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir söguna. Ég hafði ekki hugmynd um þetta.

Villi Asgeirsson, 12.8.2008 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vangaveltur

Höfundur

Hulda Elma Guðmundsdóttir
Hulda Elma Guðmundsdóttir
Róttæk vinstri kona. Er fædd og uppalin í Neskaupstað - ekta Nobbari og haldin átthagafjötrum. Er íþrótta- og félagsmálafrík og elska ferðalög.

Tónlistarspilari

Elvis Presley - Blue Christmas

Nýjustu myndir

  • goðanes
  • img471-copy

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband