Það er verið að huga

    að fermingarmóti míns árgangs. Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er liðin hálf öld frá því að ég fermdist. Mig minnir að við höfum fermst 12. maí 1957 en það getur verið misminni. Það hefur borist bréf frá “brottfluttum” fermingarsystkinum sem vilja að mótið verði haldið á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að fyrst hafi verið talað um Hvaðfjörðinn en núna sé mótið komið austur að Klaustri. Það stækkar höfuðborgarsvæðið. Í stuttu máli þá er ég alfarið á móti því að þetta mót sé haldið annars staðar en hér í Neskaupstað. Hérna ólumst við upp, gengum í skóla, fermdumst og áttum okkar ár langt framundir tvítugt. Hvar annars staðar ætti það að vera?  

    Hefði þetta verið skóla- eða ættarmót finnst mér annað horfa við. En fermingarmót eiga að vera þar sem við fermingin fór fram. Við sem “heima sitjum” ætlum að hittast annað kvöld á kaffihúsinu Nesbæ og fara yfir málið. Við erum tólf sem hér búum, fjórtán ef við tökum bara árganginn ´43. Það er sami fjöldi og býr utan svæðisins. Sex eru látnir, fjórir karlmenn og tvær konur.  

   Hérna eru ræturnar. Hellisfjarðarmúlinn, Lollinn, Drangaskarðið og Bagallinn standa enn vörð um byggðarlagið. Kirkjan okkar er á sínum stað þó hún hafi aðeins stækkað. Það hefur barnaskólinn líka gert, en skólastofurnar okkar eru enn þær sömu. Meira að segja gagnfræðaskólinn stendur á sínum stað og þjónar nú sem geymsla fyrir sportbúðina. Vatnshóllinn og Kúahjallinn, Kirkjubólsteigurinn já og gamli skíðaskálinn í Oddsdal allt hlýtur þetta að vekja upp minningar. Skautaferðirnar á Leiruna, hornsílaveiðarnar á Uxavogstanga, berjaferðirnar á bátum í Hellisfjörð og áfram gæti ég talið.  

   En hvað um það, það verður sjálfsagt meirihlutinn sem ræður og okkur er öllum í sjálfsvald sett hvort við mætum eða ekki. Við höfum bara einu sinni haldið fermingarmót áður. Þá var ágæt mæting en það vantaði nokkra. Sennilega verður það eins núna því það verður að segjast eins og er að þetta var aldrei mjög samhentur árgangur!


Mikið var ég hissa

   í bókasafninu í gær þegar ég rak augun í bók sem heitir Listin að kyssa eftir Willam Cane. Bókin var með hörðum spjöldum og bara svolítið þykk. Ég man nefnilega vel eftir bók með sama nafni og nánast sama innihaldi, en hún var eins og þunn kilja en hún var gefin út 1946 og var eftir Hugh Morris. Ég stóðst ekki mátið að fletta þessari nýju bók og viti menn þarna hefur útgefandinn eða höfundurinn gert langa sögu stutta með óþarfa málaflækjum. Í kynningu útgefanda segir m.a.: "Í þessari bók er listbrögðum ástargyðjunnar sjálfrar safnað saman til unaðar, skemmtunar og uppfræðingar öllum þeim sem vilja kunna að túlka tilfinningar sínar með kössum; ljúfum kossum, ástríðukossum, stríðniskossum, sáttakossum - hér er lýst öllum þessum yndislegu stundum sem tengir elskendur saman, færir þá nær hvora öðrum og auka unaðinn og ástina, örvunina og ástríðuna."

   Það var nú það. Ég man þegar “við” stálumst til að fá eldri bókina að láni frá eldri unglingi þá æfðum við bara einn koss, sogkossinn, og það var gert í gamalli hlöðu. Sogkossinn flokkast líklega í dag undir ástríðukoss. En kossar eru um margt merkilegt fyrirbæri. Þeir eru ein auðveldasta smitleið sem til er, en eru samt mikið stundaðir, þeir eru stundum ljúfir og stundum afskaplega óþægilegir eins og þegar maður þarf að kyssa skeggjaða ömmu til dæmis. Hvaða kossa fílar þú?


Sé hægt að tala um

   þjóðbúning íslenskra kvenna er það hvorki skautbúningur eða peysuföt, það er Hagkaups-sloppurinn sem hér klæddi allar konur sem komnar voru um og yfir miðjan aldur. Mikið rosalega held ég að þessi flík hafi  verið útbreidd. Konur áttu oftast fleiri en einn slopp og skiptu þeim á milli morgna og kvölda. Mamma átti að minnst kosti einn slíkan en hún hafði alltaf fataskipti síðdegis og ekki úr slopp í slopp, nei nei, alltaf í betri föt, og það áður en Hagkaups-sloppurinn kom til sögunnar.  

   Bubbi vinur minn Þróttarformaður sendi mér smá leiðréttingu í gær. Hann sagði að Eiríkur Hauksson hefði ekki verið í Austmönnum hann var liðsmaður í Amon Ra. Ég leiðrétti þetta í blogginu hér á undan. En ég held að það hafi verið klæðnaðurinn á umræddum söngvara sem leiddi hug minn að Hagkaups-sloppnum. Eiríkur Hauksson hefur það mikið hár að það væri aldrei hægt að kalla hann gamlan skallapoppara. En það finnst mér hann einmitt vera.   

   Misjafnt höfumst við að eru gömul munnmæli úr sögunni um átján barna faðir í álfheimum. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fagnar nýútkominni vegaáætlun en bæjarráð Fljótsdalshéraðs lýsir vanþóknun sinni á henni. Við erum útundan segir í ályktun þeirra. Við erum stærst og mest en fáum minnst. Nokkurn veginn svona er innihaldið, þau eru súr...


Við þurftum að sækja okkur

   söngvara til Noregs til að sigra í söngvakeppninni hérna heima. Íslending að vísu, en drottinn minn. Ekki það að hann var svo sem ekkert verri en margir hinna sem kepptu um að komast til Helsinki. Síðhærður gamall poppari sem ég man eftir hér í bæ fyrir margt löngu með Amon Ra. En Eiríkur gangi þér vel.

Ég hef mest gaman að því að fylgjast með stigagjöfinni í Júróvíson og verð alltaf meira og meira hissa að þessu keppnisfyrirkomulagi sé ekki breytt. Við höfum orðið vitni að því að heilu þjóðarbrotin sem hafa flúið sitt heimaland greiði nú atkvæði með sínu heimalandi. Munið þið þegar Tyrkland vann, talið er að þrjár milljónir tyrkja í Þýskalandi hafi kosið. Land sem ekki er nema að hluta til í Evrópu. Eða Ísrael sem er alls ekki í Evrópu. Þetta væri eins og að setja Grímsey í Suðurkjördæmi svo íbúarnir geti kosið Árna Johnsen!

   Úrslitakeppnin í Júróvíson verður svo sama dag og kosið verður til Alþingis Íslendinga. Og athugið við erum bara að taka þátt í undankeppninni. Verum minnug hvernig fór í fyrra. Þið sem eruð upptekin af þessum fáránleika ekki missa ykkur yfir þessu. Það má á margan hátt líkja þessu við undankeppni Alþingiskosninganna, það er forvalinu. Það fer því vel á því að úrslit verði ljós í báðum keppnunum 12. maí.


Ég velti því fyrir mér

   hvernig hægt er að tapa því sem maður á ekki. Tilefnið er ítrekaðar fullyrðingar forstjóra Baugs að fyrirtækið hafi tapað 280 milljörðum, takið eftir ekki milljónum, heldur milljörðum, vegna húsleitar lögreglunnar í ágúst 2002. En fyrirhugað var að skrifa undir yfirtökusamning Baugs á verslunarkeðjunni Arcadia. Þrátt fyrir að undir þennan samning hefði verið skrifað, átti Baugur ekki fyrirtækið. Þetta eins og nánast allar þær fjárfestingar sem íslenskir auðmenn hafa skrifað undir á síðustu árum, oftast pappírslaus viðskipti sem á stundum hljóta að vera vafasöm. Og það þarf engan sérfræðing til að sjá hvernig þeir auðgast. Þann reikning lærðum við í barnaskóla. Um margt minna réttarhöldin í Baugsmálinu á ameríska skopstælingu á málaferlunum gegn Al Capone. Hann sem hafði mörg mannslíf á samviskunni, hafði stolið milljörðum og grætt aðra, var að lokum dæmdur fyrir smávægileg skattsvik.     

   Loksins var fjallað um nýja vegaáætlun á heimasíðu Fjarðabyggðar í gær eða réttara sagt bent á hana og vísað í vef vegagerðarinnar. Umræðan um hana fór hins vegar fram á fundi bæjarstjórnar í gær og kepptust fulltrúar framsóknar og íhaldsins um að lýsa yfir að “þeirra” menn hefðu haft hönd í bagga að koma Oddsskarðs-göngunum á koppinn. Og þar heyrði ég, ég horfði sem sagt á beina útsendingu frá fundinum, nýtt fagn. Fulltrúi íhaldsins sagði að ástæða væri til að “fagna með annarri hendinni”.      

   En ég má ekki hella mér út í pólitíkina þá verðég svo gróf í skrifum og orðum. Hefði viljað skrifa mikið um margt það sem fulltrúi íhaldsins sagði en það myndi særa einhverja. Best að geyma þetta. Annars á ég ágætis bloggvef sem heitir “Nobbari bloggar” og ég held að ég fari að nota hann undir annað en venjulegar vangaveltur.


Þegar ég var að alast

    upp hérna í miðbænum, fædd í Kastalanum, alin upp í Grænuborg og Bár og í Enni hjá ömmu minni, var kirkjan jafn sjálfsagður hlutur af tilveru okkar barnanna og skólinn og barnastúkan Vorperla, sem nánast öll börn bæjarins voru í. Ég var ákaflega stolt af kirkjunni okkar og gerði mér far um að sitja uppi þar sem langafi minn hafði alltaf setið en hann hét Gísli Þorláksson og var yfir kirkjusmíðinni. Í þá daga var ekki eins mikið um að vera í kirkjunni og nú. Það var ekkert safnaðarheimili og þó kirkjan hafi í raun og veru verið lítil þá var hún mikið mannvirki í augum okkar barnanna. Það var jún einhverskonar sunnudagaskóli og þar fengum við ægifagrar bíblíumyndir.

   Kirkjutröppurnar og tröppurnar upp í listigarðinn voru nokkurs konar samkomustaðir. Þar hittumst við öll börnin úr miðbænum og ræddum um  það sem okkur lá á hjarta. En aðalleiksvæðin voru fjaran, bryggjurnar og melurinn fyrir ofan Adamsborg en það svæði varð seinna framhald að skrúðgarðinum. En melurinn eins og hann var bara kallaður var mikið æfintýraland í augum okkar barnanna og þar voru lagðir hálendisvegir og byggðar brýr og þarna óku tíuhjóla heimasmíðaðir vörubílar. Við vorum líka með gamlárskvöldsbrennu upp á hæðinni neðan við Svalbarð en svo kom að því að það var bannað og við þurftum að flytja okkur næstum alla leið upp að Vatnshól.

   Það hefur oft verið sögð sagan af fyrstu kikjusókn minni, sem ég man þó ekkert eftir en rengi ekki, svo margir ættingjar hafa sagt hana. En það var þannig að við fermingar var ekki tekið til altaris um leið og fermt var eins og nú, heldur einhverjum dögum seinna. Systir mín hafði verið að fermast og nú átti að taka hana til altaris. Þetta var eitt af þessum yndislegu vorkvöldum, sem kemur blóðinu á hreyfingu í öllum krökkum og ég og bróðir minn vildum ekki fara í kirkju, heldur ætluðum við að leika okkur niðri í fjöru. Ég hafði víst lofað hátíðlega að passa hann. Ég var sjö ára og hann að verða sex ára. Sagan segir að mér hafi verið farið að leiðast pössunina og hafi ákveðið að skila honum til foreldra okkar sem sátu prúðbúin á fremsta bekk í kirkjunni. Dreif ég mig því með hann í kirkjuna og þrammaði með hann mér við hönd inn allt kirkjugólfið. Mér er sagt að mömmu hafði brugðið all nokkuð þegar við birtumst þarna í stígvélum, kannski ekki skítug en með talsverðan sand á höndum og fótum og angandi af fjörulykt.

   Seinna þegar ég var unglingur var aðal skemmtun okkar hér í miðbænum að fara í kirkju þegar Hjálpræðisherinn eða Hvítasunnufólk kom hingað með sinn boðskap. Þá var sko fjör í kirkjunni.

 

Gullkorn kvenna um ást:

Hvernig getur einstaklingur borðað 10.000 morgunverði með sama manninum? Ann Bayer

 

Ég er orðin svolítið

   leið á að blogga. Á erfitt með að sætta mig við það þar sem mér þykir gaman að skrifa. En þetta átti aldrei að vera nein kvöð svo það er sennilega best að hætta þá hæst stendur. Ég ætla þó að þrauka svolítið lengur.   Hugsið ykkur, það hefur snjóað meira og minna í allan dag. Þung og stór snjókorn eins og barnshafandi kona á skautum. Já og það er Valentínusardagurinn. Merkileg hann er alltaf 14. febrúar, tengist því engum himintunglum þó hann hafi í eina tíð tengst frjósemisguðinum Lupercus. Í þá daga var slátrað geit til að halda upp á daginn og menn hlupu út um borg og bí útataðir í blóði. Ekkert konfekt og engar rósir.

   Mér finnst út í hött að tileika daginn elskendum og þá í merkingunni par. Ég er ekki par og ég elska börnin mín og þeirra niðja afar heitt. Mér þykir líka afskaplega vænt um vini mína og ef  kærleikurinn er ást, þá elska ég þá líka. Og talandi um kærleika þá eru orð Páls postula um kærleikann eitt það fallegasta sem ég les;

Þótt ég talaði tungum manna og engla,
en hefði ekki kærleika,
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking,
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað,
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum,
og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur,
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður.
Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Fjallað hefur verið um

   ómerkilegri mál en nýju vegaáætlunina á heimasíðu sveitarfélagsins sem ég bý í. Mér finnst stórmerkilegt að loksins þegar vegaáætlun er gerð opinber, áætlun sem skiptir Fjarðabyggð meira máli en nokkurt annað mál um árabil, þá er ekki minnst á það á heimsíðu sveitarfélagsins. Ég veit svo sem ekki hvort það kemur eitthvað það fram sem skiptir okkur sem hér búum verulega miklu máli, annað en það að það eiga koma ný göng á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Og það skipti okkur máli. Getur verið að þeir sem hingað eru tiltölulega ný fluttir skynji þetta á annan veg en við sem höfum búið hérna í lengri tíma? Spyr sá sem ekki veit. En hitt veit ég að mér finnst heimasíða Fjarðabyggðar frekar léleg, vægt til orða tekið.

Stelpurnar hefðu orðið óléttar

   hvort sem er. Þetta má lesa úr svari sjálfs forsætisráðherrans sem sagði í Silfri Egils á sunnudaginn meðal annars “að erfitt væri að fullyrða að stúlkurnar í Byrginu hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð var”. Byrgismálið var svo á dagskrá Alþingis í gær og þar sagði hann að “upplýsingar hefðu komið fram um að þær konur sem eignuðust börn eftir dvöl í Byrginu hefðu ekki endilega orðið barnshafandi þar”. Er þetta málið, hverjum á að kenna króann? Ekki getur hann verið Framsóknarson eða –dóttir, er það?

 

    “There’s a special place in hell for women who don’t help each other.“ sagði Madeleine

Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hvaða stað hún hafði í huga hef ég ekki hugmynd um. Þetta gæti sem best átt við Byrgið eða aðra álíka staði. Sennilega ekki Breiðavík þar sem eingöngu voru strákar. Þetta er nú titill bókar sem sænsku femínistarnir Liza Marklund og Lotte Snickare skrifuðu saman og gáfu út árið 2006. Mikið rosalega hlakka ég til að lesa hana.

 

   Mikið óskaplega held ég að Gunnar í Krossinum sé þakklátur sjónvarpi allra landsmanna fyrir viðtalið sem Helgi Seljan vinur minn tók við bandaríkjamann sem vill leiðbeina fólki frá villu síns vegar, kynvillunni. Mér finnst að svona steypa eins og maðurinn komst upp með að prédika eigi ekki heima í sjónvarpi. Hann læknaðist af sinni synd, sagði hann, því samkynhneigð er synd sagði hann. Hvað er þessi maður að gera uppi á Íslandi er ekki nóg að gera í Bandaríkjunum að snúa samkynhneigðum frá synd sinni?

 

Samkynhneigð eða ekki. Er málið bara ekki að leyfa fólki að hafa sína kynhneigð í friði. Þetta snýst jú allt um samvistir og kærleik milli tveggja einstaklinga óháð því hvað öðrum finnst.


Jæja er þá ekki best

   að taka til við bloggið aftur. Fyrirsagnir vekja alltaf athygli mína og ambögurnar sem stundum heyrast hjá fréttamönnum ljósvakamiðlana og stjórnendum dægurmálaþáttanna. Það sem mér finnst þó skondnast þessa dagana er fyrirsögn fréttar á austurlandid.is, Hundaeigendur í eina sæng. Það hlýtur sko að vera fjör undir þeirri sæng. Og einhvern veginn gætu samtölin verið á þessa leið: hæ þú ert að troða á mér, hverslags er þetta eiginlega á bara að éta mann. Heyrðu manni ég er ekki konan þín, aaa hvað þetta er gott. Burt með krumlurnar!        

   Það eru þrír mánuðir í dag til næstu kosninga, Alþingiskosninganna. Öll höfum við séð að kosningarskjálfti er hlaupinn í marga. Skoðanakannanir sýna að ríkisstjórnin hefur ekki lengur meirihluta verði kosið í dag. Mér hefur alltaf fundist þessar skoðanakannanir frekar ómerkilegar. Kannski vegna þess að ég er aldrei spurð. Ég hef einu sinni lent í skoðanakönnun og þá var spurt; hvaða bílar finnst þér bestir?         

   Horfandi til fjalls er ótrúlegt að það sé miður febrúar. Við vorum sammála um þetta ég og einn viðmælandi minn í morgun en hann bætti við: Snjóaveturinn mikla 1951 eða tvö fór ekki að snjóa fyrr en um miðjan febrúar og mörg hús hreinlega týndustu. Það þýðir samt ekkert annað en að vera bjartsýnn, það er jú hækkandi sól.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur

Höfundur

Hulda Elma Guðmundsdóttir
Hulda Elma Guðmundsdóttir
Róttæk vinstri kona. Er fædd og uppalin í Neskaupstað - ekta Nobbari og haldin átthagafjötrum. Er íþrótta- og félagsmálafrík og elska ferðalög.

Tónlistarspilari

Elvis Presley - Blue Christmas

Nýjustu myndir

  • goðanes
  • img471-copy

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 160887

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband