4.3.2007 | 14:29
Fólkið í næsta húsi
er að flytja til Reykjavíkur, auðvitað. Hérna áður fyrr þegar bændasamfélagið var og hét var talað um að fólk flytti á mölina, seinna á malbikið en núna flytur það bara suður! Þar sem ég sit við tölvuna hef ég fylgst með þeim undanfarna daga vera að pakka, flokka og henda. Þó ekki hafi verið mikið samband okkar á milli hafa þetta verið afskaplega þægilegir nágrannar. Og ég á eftir að sakna þeirra en veit að nýir eigendur hússins verða fínir. Konan náskyld mér og allt tal um að frændur séu frændum verstir læt ég sem vind um eyrun þjóta.
En í hvert skipti sem komið hefur kassi eða poki ofan af svölunum hef ég þakkað honum syni mínum fyrir að taka til hérna á loftinu. Fyrst í stað kallaði hann að ofan; mamma á ég að henda þessu, og svo kom útskýring um hvað væri að ræða. Ég kíkti tvisvar eða þrisvar á umbeðið en sagði svo; hentu bara öllu sem þér dettur í hug. Uppi á lofti eru núna ferðatöskur og jólaskraut. Í þrjátíu ár var alltaf sagt með allt sem var fyrir, hætt að nota eða bara eitthvað; settu það upp á loft. Nú vantar mig bara kaupanda.
Það er yndislegt veður og ég er búin að moka stéttina. Gerði það aldrei í gær sem betur fer þá hefði ég þurft að moka helmingi meira. Fékk góða heimsókn í morgun og samúðargjöf með. Ég og gesturinn áttum skemmtilegt spjall. Skrítið, í morgun þá hugsaði ég með mér ég verða að fara að heimsækja Steinunni og Didda og færa þeim innflutningsgjöf. Svona sendir maður strauma og hugsanir. Hún kom í stað þess að ég færi.
Er búin að taka niður allar gardínur í holinu og ætla ekki að setja þær upp aftur. Hengi bara upp eitthvað af myndum til hliðar við gluggann, það verður fínt. Flott hjá strákunum mínum í KFF að vinna Fylki í gær. Það verður skemmtilegra og skemmtilegra að vinna með þeim.
Bloggar | Breytt 6.3.2007 kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2007 | 12:35
Það verður nú að segjast
eins og er að það er afskaplega ljúft að sitja við tölvuna á náttfötunum. Heyra í sjónvarpinu frammi lýsingar frá Evrópu mótinu í frjálsum innanhúss, vitandi það að ég get dinglað mér að vild í dag. OBS! Nei ég þarf að fara út að moka snjó frá aðaldyrunum, ætla mér ekki að hreyfa við farginu við þvottahúsdyrnar:
Ég er með tvær skáldsögur í takinu. Ólíkt mér sem alltaf hef þurft að ljúka við þá bók sem ég er að lesa hverju sinni áður en ég byrja á næstu. Ég er að lesa Þrettándu söguna eftir Diane Setterfield og Nótt úlfanna eftir Tom Egeland. Þrettánda sagan er mögnuð saga af fjölskylduleyndarmálum, óvæntu dauðsfalli, eldsvoða, silfjaspellum, ást og geðveiki. Þetta er frumraun höfundarins og bara allt í lagi. Öðruvísi. Nótt úlfanna er spennusaga eins og þær gerast bestar. Gjörólík fyrri bók hans Við enda hringsins sem var að sögn rótin að Da Vince lyklinum.
Ríkissjónvarpið er ekki til að stytta fólki stundirnar. Þar hefur ekkert bitastætt verið um langt skeið ef undan er skilinn Við kóngsins borð, sem mér fannst alveg frábær sería. Jú fyrri hlutinn af Elísabetu 1. er annað kvöld með Helen Mirren í aðalhlutverki og hlakka ég til að sjá hana. En þá er það upptalið í eina viku! Annars er sjónvarpsgláp ekki uppi á pallborðinu hjá mér. Það er sárasjaldan að ég geymi mér yfir því eða finnst það góð afþreying.
Framsóknarflokkurinn klórar í bakkann með allavega yfirlýsingum.Þar á meðal yfirlýsingu frá heilbrigðisráðherra um að flokkurinn munu slíta stjórnarsamstarfinu ef íhaldið uppfyllir ekki ákvæði í stjórnarsáttmálanum um að fiskurinn í sjónum sé eign allrar þjóðarinnar. Ég hélt satt að segja að svo væri. Annars er þetta ósköp framsóknarlegt útspil núna korteri fyrir kosningar hann hefur ekki haft nema 12 ár til að ná þessu fram. Enn einu sinni er vísað til gullafiskaminni kjósenda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2007 | 12:54
Það snjóar,
já og það ekki lítið. Lausamjöll sem fer samkvæmt veðurspánni að breytast í krapa, vonandi. Þrá mín eftir vorinu, sumrinu og sólinni vex í svona veðri en ég get því ekki breytt. Verð bara að breyta eigin hugarástandi.
Fór á tvo fundi á Reyðarfjörð í gær. Fyrst fund með Samfylkingarfólki og síðan með vöskum fótboltastrákum. Fundurinn með fótbltastrákunum var skemmtilegri! Nei annars ég hafði bara svo lítinn tíma með S fólkinu. En skoðanakannanirnar eru okkur sem kjósum Samfylkinguna ekki hliðhollar. Það sem vekur mest undrun mína hvað í ósköpunum fær fólk til að styðja Vinstri/hægri/græna. Flokk sem vill bara boð og bönn og hefur sett fram þá hugmynd að stofna Netlöggu. Er þetta ekki dæmalaust forpokanlegt á tuttugustu og fyrstu öldinni?
Mér var sagt að þingmaður Vinstri/hægri/grænna hér í kjördæminu hefði verið á fundi með ungu fólki á Egilsstöðum. Þar boðaði þingmaðurinn að allt væri betra en virkjunin sem fer senn að framleiða rafmagn handa álverinu í Reyðarfirði, sem hefur gjörbreytt stöðu Austurlands, en Vinstri/hægri/grænir eru á móti. Marg aðspurður um hvað annað kom svarið að lokum; hvað með bakarí. Það eiga sem sagt að vera brauð og kökur, ekki lengur hreindýramosi og fjallagrös. Hvað ætli Lýðheilsustöð segi við þessu? Ég tek það fram að ég var ekki á þessum fundi og ber því enga ábyrgð á sannleiksgildi sögunnar, en ég trúi henni. get bætt því við að eina bakaríið sem er á Austurlandi er á hálfgerðum brauðfótum svo það væri ekki gustuk að bæta öðru við.
Og meira af skoðanakönnunum. Þær segja að konur fari úr Samfylkingunni í Vinstri/hægri/græna. Ég bar spyr; ætla konur að sanna enn einu sinni að konur séu konum verstar? Ég vona að þau 40% sem neituðu að svara í síðustu könnun sé okkar. XS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2007 | 17:31
Fyrirgefið vitleysuna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2007 | 10:31
Mér finnst Færeyingar
frábært fólk og á þar marga góða vini. Síðast í fyrradag talaði ég við vinkonu mína þar og þá sagði hún mér að það hafi verið óvenjumikill snjór í Færeyjum. Og í dag er þar nánast ófært öllum bílum og fólk beðið að vera ekki á ferðinni vegna óveðurs.
Þegar Jakob eigandi Rúmfatalagersins opnaði verslun í Rússlandi var aðsóknin slík að annað eins hafði ekki sést. Til að létta fólki lund á meðan það beið bauð Jakob og fjölskylda hans viðstöddum karamellur. Nú er þessi sami maður að hefja framkvæmdir í Færeyjum sem eiga engan sinn líka þar í sveit, jafnvel ekki á Norðurlöndunum. Hann ætlar að byggja upp dvalarstað fyrir börn og unglina í líkingu við Ástjörn hér á landi, en Færeyingar hafa í gegnum tíðina átt gott samstarf við Ástjörn. Komið þangað í sjálfboðavinnu og styrkt starfið þar á ýmsan hátt. Segi ykkur meira þegar ég veit meira.
Sagt er að Jakob finni á sér að þess sé ekki langt að bíða að olía finnist við Færeyjar. Það er langt síðan Færeyingar fundu lyktina af olíunni sem þeir ætluðu fyrir löngu að vera byrjaðir að dæla upp. En almennt er álitið að það sé olíu að finna á landgrunninu þar og ég trúi því að Jakob hafi rétt fyrir sér. Þessi dugnaðarmaður sem hætti ungur á sjónum og fór að höndla. Svona eiga bændur að vera.
Og svona í lokin ein stutt frétt úr Solialurin: Freeze segði politisturin Ein góður eginleiki hjá einum og hvørjum løgreglumanni er, at vera fullkomiliga ísakaldur, tá ið á stendur. Sosialurin hevur hitt Føroya kaldasta løgreglumann, sum bíðar eftir løtuni, har hann kann rópa freeze eftir einum búrkroppiBloggar | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2007 | 08:49
Kannski það sé þráin
eftir vorinu sem kom mér til að finnast vorlykt í loftinu í morgun. Mjög skrítið í sjálfu sér þar sem það snjóaði, stórum þungum sjóflyksum. Ég er orðin andskoti þreytt á að klæða mig alltaf í úlpu, setja á mig húfu og vettlinga á morgnana. En ég verð líklega að hugga mig við það að þetta getur ekki varað endalaust, frekar en annað.
Ég get tekið undir með einum ágætum bloggara að ég fæ alltaf velgju þegar framsóknarmenn birtast á skjánum. Nei ekki allir, en þeir sem sitja framan fyrir alþjóð og ljúga upp í opið geðið á mér og öðrum landsmönnum. Framsókn hefur haldið heilbrigðismálunum í landinu í gíslingu í 12 ár. Þessi tími er tími svikinna loforða og enn lofar framsókn. Heilbrigðisráðherra var í Kastljósi í gærkveldi. Hún margtuggði eins og Sigfinnur að þetta hafi verið gert og þetta ætti að gera. Þrátt fyrir að viðmælandi hennar sem starfar á svið heilabilaðra benti henni á að þessu hefði verið lofað og ekki verið staðið við og mörg dæmi voru tekin. Siv greindi frá öllu því sem gera ætti á þessu ári. Hún getur svo sem lofað og lofað eins og Framsóknar er von og vísa, hún verður örugglega ekki heilbrigðisráðherra eftir næstu kosningar. Samkvæmt skoðanakönnunum kemst hún ekki einu sinni á þing. Hún getur þá hafið störf á ný sem sjúkraliði eða var það sjúkraþjálfari og fundið svart á hvítu hvernig búið er að þessari starfsstétt.
Það er ekkert lát á fylgi Sjálfstæðisflokksins og minnkandi fylgi Samfylkingunnar er nér verulegt áhyggjuefni. Vinstri-hægri/grænir geisla af sjálfstrausti og mælast nú jafnir Samfylkingunni, Framsókn máttlítil en treystir á gullfiskaminni kjósenda. Frjálslyndi flokkurinn verður ekkert stærri en hann var en allir eiga flokkarnir það sammerkt að keppast um hylli öryrkja og aldraða og lýsa yfir skoðunum sínum í umhverfismálum. Og svo rammt kveður að öllum þessum yfirlýsingum að maður veit ekki hverju á að trúa?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.2.2007 | 20:53
Vildi ég væri Pamela í Dallas
sungu Dúkkulísunrar frá Egilsstöðum á sínum tíma. Lag og texti sem hitti í mark og að heyra þær flytja það í þættinum hjá Jóni Ólafssyni í kvöld var hreint frábært, ef eitthvað er þá eru stelpurnar betri! Jón Hilmar Kárason kom líka við í þættinum enda einn af bestu ef ekki besti gítarleikari landsins.
Þátturinn hjá Jóni Ólafs í kvöld var helgaður tónlist frá Austur- og Norðurlandi var alveg frábær. Hefði viljað sjá meira af kvartettinum frá Siglufirði sem gerði lagið Kveiktu ljós frægt á sínum tíma og við stelpurnar í öldungablakinu gerðum texta við lagið. Ég uppgvötaði eitt sem vakti mig til umhugsunar. Hin eina og sanna austfirska flámælska teygir sig til Húsavíkur. Jú, Skriðjöklar fluttu lag sitt um Aðalstein Júlíusson og sungu alltaf í viðlaginu; steine!
Ég þekki vel Helge, Árne kaffe og fleira, en hef alltaf talið Þingeyinga tala íslenskuna best allra. En ég hef svo sem haldið því fram í rituðu máli að við austfirðingar hefðum átt að halda okkur við flámælskuna. Við hefðum þá okkar sérkenni. Í stað þess að rífast um hver sé höfuðstaður Austurlands, hvar næstu jarðgöng eigi að koma, hvar fjórðungssjúkrahúsið eigi að vera staðsett og fleira og fleira. Þá gætum við sameinast um að tala flámælsku. Til að auka hróður okkar gætum við bætt við þágufallssýki.
"Ef mig langar rosalega mikið þá langar mér." Sagði meistari Megas sem fékk Íslenskuverðlaunin fyrir nokkrum árum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 20:00
Ég ræð -
og geri bara það sem mér sýnist. Þannig túlkar Blaðið svar menntamálaráðherra við fyrirspurn eins þingmanns um skipan í sérfræðiráð Norræna blaðamannaskólans í Árósum. Og Blaðið lýsir furðu sinni að ráðherra sem er beðinn svara um ákveðin málefni sem varði heila starfsstétt skuli leyfa sér slíkan hroka í svörum. Þessi viðbrögð eru alveg lýsandi fyrir íhaldið sem á tuttugustu og fyrstu öldinni heldur sig við gamla slagorðið stétt með stétt. Eða var það stétt við stétt, eða var það bara gangstétt. Það væri eðlilegast miðað við framkomu forsprakka íhaldsins sem vaða yfir landsins lýð á skítugum skónum. Nei þetta er ekki kosningarskjálfti þetta er föstudagsútrás.
Og Guðni Ágústsson virðist ekki vera með sjálfum sér þessa dagana. Nú fullyrðir hann að Íslendingar hafi verið misnotaðir af kananum. Kannski óviljandi segir Guðni. Þetta var alveg óviljandi segja börnin oft og þá oftast þegar þau vita upp á sig skömmina. Hafa framið skammarstrik. En maður skyldi nú ætla að Guðni Ágústsson væri eldri en tvævetur en hegðan hans að undanförnu hafa vakið upp spurningar um hvort svo sé.
Klámhundarnir fá ekki að koma til landsins. Bændastéttin ákvað að loka Hótel Sögu fyrir þeim. Ekkert var á hendi um að þetta fólk sem hafði boðað komu sína til landsins hefði eitthvað misjafnt í hyggju. Tvískinnungurinn er alger. Hugsið ykkur bara að það kemur gestur á Sögu. Hann biður um herbergi og fær. Hann spyr í sakleysi sínu hvenær klámfólkið komi og fær þá þau svör að það komi ekki og er sagt um leið og hann fær herbergislykilinn þú verður gjaldfærður fyrir rás sex.
Mottóið er sem sagt það má leyfa klám, ef mér hentar en annars ekki. Opinberir starfsmenn á vegum ríkisins mega ekki kaupa klám erlendis en það er ekkert sem bannað þeim að gera það hér heima. Thanks God for fridays.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2007 | 08:40
Það fer ekki framhjá
nokkrum manni sem áhuga hefur á pólitík að það er hlaupinn kosningaskjálfti í menn. Ég segi þetta í fleirtölu því ég er að tala um tvennar kosningar. Annarsvegar til Alþingis og hinsvegar kosningu um stækkun álversins í Straumsvík. Skoðum aðeins málflutninginn.
Í umræðunni um stækkunina í Straumsvík hafa blandað sér þekktir Íslendingar sem til þessa hafa ekki um árabil látið sig land og þjóð varða. Þarna á ég við hjón sem hafa varið drjúgum tíma austanhafs og vestan á vegum ríkisins. Eru nú sest í helgan stein en geta ekki látið hjá líða að sýna sig opinberlega. Frægust er konan auðvitað fyrir það að hafa einu sinni verið fegurðardrottning og núna fyrir það að ætla að kasta sér fyrir vinnuvél í Mosfellsbæ til að mótmæla framkvæmdum þar. Ég veit ekki hvað þau hjón voru búin að búa lengi í bænum. En hitt veit ég að það muna fáir tilgang athæfisins en flestir muna hvernig kápa konunnar leit út.
Landbúnaðarráðherra var í kastljósi í gærkveldi. Þar mætti hann talsmanni Bónus sem sýndi fram á okurverð á íslenskum landbúnaðarvörum og hvert var svar ráðherrans, jú hann benti á að fatnaður væri miklu dýrari á Íslandi en í öðrum löndum. Kannski það verði næsta útspil frammarana að benda fólki á að leggja sér fatnað til munns í stað kjúklinga. Chaplin var ekki eins vitlaus og maður hélt þegar hann át skósólana sína!
Stjórnmálaflokkarnir keppast nú um að sverja af sér alla aðkomu að stóriðju og þeim virkjunum sem eiga að rísa og hafa risið að undanförnu. Þar með talin er Kárahnjúkavirkjun. Ég get svarið það að ég held að þetta fólk sem segir eitt í dag og annað á morgun muni selja skrattanum ömmu sína í von um atkvæði hans.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2007 | 13:42
BRJÁNS-bylur, Kríuhret og Hundadagar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Vangaveltur
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.9.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 160887
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar