Einn mola takk!

Ég fór í heimsókn til móðursystur minnar sem dvelur á öldrunardeild FSN. Það er auðvitað ekki í frásögur færandi nema hvað "sykurmolana" snertir. Nei ekki hljómsveitina, heldur þessa hvítu sem maður fær með kaffinu. Það gerðist nefnilega á þessari deild að farið var að skammta vistmönnunum einn sykurmola með kaffinu. Þeir máttu ekki fá tvo því það átti að spara.

Þetta gekk um nokkra hríð og enginn kannaðist við að hafa sett þessa reglu. Starfsfólkið í eldhúsinu þvertekur fyrir að þetta sé frá þeim komið, en hefur heyrt söguna. Hvað um það í stað þess að færa frænku minni blóm eða konfekt, færi ég henni næst einn pakka af molasykri, hún notar nefnilega alltaf tvo mola með kaffinu.

Nota bene. Það er búið að afnema þessa reglu, sem enginn kannast við að hafa sett. Nú bryðja allir á deildinni molasykur eins og þeir geta!


Misheppnaður pólitíkus stjórnar miðborginni

Jakob Frímann Magnússon hefur gert ítrekaðar tilraunir til fram í stjórnmálum. Hann hefur

tvisvar farið í prófkjör fyrir Samfylkinguna án þess að komast í þá stöðu að ná kjöri sem fulltrúi. Kjósendur einfaldlega höfnuðu honum. Þá var næsta skref hans að fara í framboð fyrir Íslandshreyfinguna og stefnan sett á Alþingi. Sem kunnugt er fékk hreyfingin ekki það brautargengi að hún kæmi manni á þing.

Sjálfsagt er Jakob Frímann hinn mætasti maður en ætti að halda sig við það sem hann kann, að berja bumbur. Þó hann hafi ekki staðið á sviði, ekki svo ég viti, og gert það sjálfur þá stóð hann fyrir uppákomum sem menningarfulltrúi Íslands í London, í skjóli Jóns Baldvins. Sú staða var ekki til áður en Jakob Frímann fékk hana og staðan var ekki langlíf. Hún hefur ekki verið álitin sérstaklega nauðsynleg því enginn hefur gegnt stöðunni síðan títtnefndur Jakob Frímann gegndi henni.

Þetta leiðir hugann að því hvort sá borgarstjóri sem nú situr sé ekki bara þrátt fyrir allt krati þó svo að hann hafi lengst af lafað í íhaldinu.

 

Megas, Jakob Frímann og biskupinn

Stundum dett ég í að hlusta á ákveðna tónlist. Núna er Hagavagninn með Megasi spilaður mörgum sinnum á dag. Var að dunda mér við það í morgun að hala niður nokkrum góðum lögum af tonlist.is. Meira að segja ég, sem hef ekki verið aðdáandi Bubba er með tvö lög með honum á þessum nýja diski mínum. Bráðum verður hægt að ná í tónlistarmyndbönd þarna á tonlist.is og þá ætla ég að sækja myndbandið með Bubba þar sem hann syngur Það er svo gott að elska. Það myndband ætla ég að senda konunni sem ég bjó hjá í Færeyjum, í fyrra. Hún er mikill aðdáandi Bubba og að þessu lagi sérstaklega.

 

Enn er allt vitlaust í borgarstjórn Reykjavíkur. Núna er það ráðning Jakobs Frímanns, sem er náttúrulega ekkert annað en bara skömm. Staðan var auglýst og um hana bárust fjölmargar umsóknir. Þeim var bara hent í ruslið og Jakob ráðinn. Enn eitt dæmið um einkavinavæðinguna. Og meira að segja Guðsmennirnir eru ekki saklausir af þeim kvilla. Nú er kirkjan krafin um litlar 42 milljónir vegna þess að sjálfur biskupinn réði son sinn sem prest í London. En auðvitað eru prestar bara breyskir menn. En við ætlumst til annars af þeim.

 

Ég get ekki stillt mig um að minnast á hvað það er leiðinlegt að lesa allar þær stafsetningar- og innsláttarvillur sem flæða á bloggi fólks og heimasíðum fyrirtækja og stofnana, og ég get svarið þar að þar er mín heimabyggð einna verst.


Var mál að skíta

DV segir frá því að Ferðafélag Íslands undirbúi kæru á hendur ökumanni, sem jafnframt er forsvarsmaður ferðaskrifstofu, sem grunaður er um að hafa ölvaður velt jeppabifreið sinni og valdið skemmdum á salernisskúrum félagsins. Maðurinn þurfti þó ekki á salernið heldur þurfti hann að komast í símsamband. Hann hefur sjálfsagt haft reynslu af því að símasamband væri gott á kömrum.

Þetta leiðir hugann að sögu, að ég held sannri, þegar lögreglan hér í bæ stöðvaði fullorðinn mann sem ók á rúmlega 55 km. hraða þar sem hámarkshraði er 50 km. á klst. Ábúðarfullur sagði löggan: Þú ókst of hratt. Maðurinn sem var skelfingin uppmáluð rétt gat stunið upp úr sér: Ég var að flýta mér því mér var svo mál aðskíta.


Borðið það sem ykkur langar í, engin megrun í dag!

Megrunarlausi dagurinn er í dag þriðja árið í röð. Hinir tveir hafa farið framhjá mér. Þetta er

Alþjóðlegur baráttudagur gegn megrun, átröskunum og fitufordómum. Í samfélaginu í dag eiga allir að vera grannir og hefur þessi boðskapur dunið yfir okkur lengi, lengi. Þetta þýðir fyrir mig að súkkulaði rúsínurnar mínar í pakka uppi í skáp vera borðaðar í dag.


Bruðl utanríkisráðherra

Sóun ríkisstjórnarinnar á peningunum “okkar” virðist engin takmörk sett. Nýjasta dæmið er sá kostnaður sem hlýst af veru fjögurra franskra herþota hér á landi, ásamt á annað hundrað fylgdarmanna. Þetta kostar eitthvað litlar hundrað millur fyrir sex vikna veru. Þetta er svar NATO sem Ísland hangir enn í, við flugi rússneskra flugvéla inn á flugstjórnarsvæði okkar. Afsakið þetta heitir víst ekki lengur flugstjórnarsvæði, þetta heitir nú loftrýmisgæsla og nú mega fuglar himinsins fara að vara sig.

Haldið ykkur fast. Alls fer um einn milljarður í “herkostnað” okkar í ár. Þar af fara um 800 millur til reksturs Ratsjárstofnunar, en athugið þetta er áætlaður kostnaður.

Allt þetta kaldastríðs-rugl er runnið undan rifjum Bush forseta sem leitar logandi ljósi að nýjum óvinum til að vinir hans stríðsgróðamennirnir verði ríkari, Gyðingarnir í Ameríku!

Það er með ólíkindum að Ingibjörg Sólrún skuli vera í forsvari fyrir þessu rugli, því það er hún. Einhver bloggari skrifaði að það sé kaldhæðnislegt að það skuli vera kona sem nauðgi Fjallkonunni! Og það skrýtna við þetta allt, að á sama tíma sækist Ísland eftir að komast í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Til hvers, til að stuðla að friði? Rúmlega þriðjungur þjóðarinnar er andvígur því að komast í öryggisráðið, við höfum nóg annað að gera við þessa peninga. En á okkur er bara hlustað í fjögurra ára fresti.


Ég er bara hlýr maður

Ef ég vissi ekki betur gæti ég haldið að ég væri stödd í sjónvarpsþættinum Boston Legal, þeim sem sýndur var í gærkveldi. Þá á ég við konuna sem vildi lögsækja sóknarprestinn sinn fyrir að hafa sagt sér upp. Hann hafði áður heitið henni ást sinni, en sveik það. Hann viðurkenndi svo sem að hafa haft holdlegt samræði við konuna. Konan höfðaði málið á þeirri forsendu að hún hafi týnt trúnni, týnt Guði. 

Sóknarpresturinn á Selfossi er ásakaður um kynferðislega áreitni gegn tveimur unglingsstúlkum. Þær segja að þetta hafi byrjað þegar þær voru í fermingarfræðslu og stóð svo í nokkur ár. Haft er eftir réttargæslumanni stúlknanna að þær hafa litið á kirkjuna sem griðastað og nú sé búið að eyðileggja það fyrir þeim. Alveg eins og í Boston Legal. 

Stúlkurnar eru sextán og sautján ára gamlar og voru báðar virkar í starfi innan kirkjunnar. Málið hófst þegar foreldrar annarrar þeirrar ræddu við formann sóknarnefndar í byrjun apríl. Hin stúlkan mun hafa hrökklaðist úr starfi innann kirkjunnar fyrir rúmu ári eftir meint áralangt kynferðislegt áreiti prestsins. Þegar hún heyrði af máli hinnar stúlkunnar brotnaði hún niður og kom líka fram.

Presturinn segir að um misskilning sé að ræða. Hann sé hlýr maður. Það hafi verið hans stíll að faðma fólk að sér og í kirkjulegu starfi gerist það oft að það sé heilsað og kvatt með líkamlegri snertingu. Og enn vitna ég í Boston Legal. En þetta mál er dauðans alvara og ekki í fyrsta skipti sem ákæra þessa eðlis kemur fram á prestlærðan mann. Skyldi sannast enn einu sinni að það er ekki sama Jón og séra Jón?


Góðar bækur og ferðalög

Var að enda við að lesa Heilræði lásasmiðsins eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Mér finnst bókin góð en vinkona mín sagðist hafa lagt hana frá sér hálflesna. Af hverju spurði ég. Jú, ég gat ekki lesið meira, það var svo mikið af ríðingum í henni. Kannski er ég eitthvað skrítin en mér fannst lýsingarnar hennar á ríðinunum flottar og skrifin í bókinni eru tæpitungulaus. En hafi ríðingarnar farið fyrir brjóstið á henni vinkonu minni, hvað þá með aðrar berorðar lýsingar? Flott tæpitungulaus bók.

Ég byrjaði svo á bók Unnar systur hennar, ólíkt lesefni en áhugavert. Unnur sem hefur skrifað skemmtilegar ferðasögur segir í þessari bók frá álfum og huldufólki. Gaman að einhver vel ritfær skuli koma svona sögum á blað. Hvort svo sem fólk trúir á álfa og huldufólk. Ég geri það.

Tóra vinkona mín í Sandavogi hringdi í morgun. Það er svo skrítið að í hvert skipti sem ég ætla að fara að hringja í hana þá hringir hún. Hún hefur verið veik en er að ná sér. Við að tala við hana vaknaði sterk löngun til að skreppa til Færeyja og kannski geri ég það í sumar, hver veit.

Næsta ferðalag mitt verður til Spánar. Nánar tiltekið til Castil de Campos sem er 800 manna fjallaþorp á suður Spáni. Þorpið er rétt hjá bæ sem heitir Priego de Cordoba. Þorpið er í klukkutíma keyrslu frá Granada og í klukkutíma keyrslu frá Cordoba. Það tekur um það bil einn og hálfan til tvo tíma að keyra frá Costa del Sol og í þorpið.

Brauðbílinn stoppar á hverjum morgni fyrir framan húsið og selur nýbakað brauð og það er supermarkaður í þorpinu. Svo kemur ávaxtabíll, sætabrauðsbíll, fiskibílinn og kjötbílinn  um það bil einu sinni til tvisvar í viku og stoppar á aðaltorginu. Þarna er mikill verðmunur frá helstu ferðamannastöðunum og það að fara út að borða kostar að minnsta kosti helmingi minna en á hefðbundnum ferðamannastöðum. Hlakka alvega rosalega til.

Castil de Campos


Fram, þjáðir menn í þúsund löndum ...

Baráttudagur verkalýðsins er í dag. Hann var lögskipaður frídagur hér á landi árið 1972, en fyrst var gangið í kröfugöngu 1923. Í dag er líka uppstigningardagur og hefur kirkjan gert daginn að degi aldraðra, og er helgihald dagsins helgað þeim. Sá klerkur sem kom þeirri hugmynd á framfæri er með góðan húmor, því vissulega eru þeir sem eru aldraðir líklegri en hinir að stíga fyrr upp!

 

Fyrsti 1. er baráttudagur verkalýðsins og þá jafnframt frídagur, en þegar hann ber upp á frídag sem þegar hefur verið settur á er hann enginn sérstakur frídagur verkalýðsins. Ekki frekar en sjálfur þjóðhátíðardagurinn sem var ekki lögskipaður frídagur fyrr en fyrir nokkrum árum. Helgidagar kirkjunnar voru til langs tíma sjálfum þjóðhátíðardeginum æðri.

 

Verkalýðnum finnst óréttmætt að það sé í raun tekinn af þeim baráttudagur þeirra, það er þegar hann ber upp á annan tyllidag. Af hverju má baráttudagur verkamanna ekki vera fyrsta mánudag í maí, eins og frídagur verslunarmanna er fyrsti mánudagurinn í ágúst, þá væri ekki verið að hafa af verkalýðnum frídag. Nú er það svo að uppstigningardagur og dagur aldraðra ber ekki alltaf upp á fyrsta maí, en baráttudag verkalýðsins ber alltaf upp á 1. maí og upp á laugardag eða sunnudag á nokkurra ára fresti.

 

Rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna. Í dag er 1. maí svipur hjá sjón þegar þúsundir gengu saman og sungu “Nallann” og kröfðust réttlátara þjóðfélags. Hafi einhvern tímann verið þörf þá er nú nauðsyn, um það bera launakröfur síðustu daga glöggt vitni.

Fram, þjáðir menn í þúsund löndum, sem þekkið skortsins glímutök!


Blakliðið fær örlítinn bónus

Þetta er fyrirsögn á heimasíðu Austurgluggans og eru orð að sönnu. “Stelpurnar í blakliði Þróttar hafa fengið örlítinn aukabónus því Menningar og íþróttanefnd Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum sl. mánudag að leggja liðinu til styrk að upp 100 þúsund í ljósi þess að þær urðu Íslandsmeistarar á dögunum”.

Þessi örlitli bónus var eitt hundrað þúsund krónur og hefði ekki dugað fyrir flugi fyrir liðið í einn leik! Rausnarlegt eða hvað? Satt að segja finnst mér þetta svo nánasarlegt að það tekur því varla að taka við því.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur

Höfundur

Hulda Elma Guðmundsdóttir
Hulda Elma Guðmundsdóttir
Róttæk vinstri kona. Er fædd og uppalin í Neskaupstað - ekta Nobbari og haldin átthagafjötrum. Er íþrótta- og félagsmálafrík og elska ferðalög.

Tónlistarspilari

Elvis Presley - Blue Christmas

Nýjustu myndir

  • goðanes
  • img471-copy

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband