Aftur kominn vetur!

Þetta var nú meira ferðalagið heim síðdegis. Ekki nóg með að það var líkast því að flugvélin væri í tröllahöndum meirihluta leiðarinnar austur því við tók ferðalag sem ekki var til að hrópa húrra yfir. Það sá varla á milli stika í Fagradalnum, þar voru bílar fastir og útaf og töfðu auðvitað aðra. Það var þokkalegasta veður þegar komið var á Reyðarfjörð og áfram en rútan komst ekki síðasta spölinn upp að göngum vegna hálku. Það er ekki nema vika síðan sumardagurinn fyrsti var. Þarna héngum við í rútunni, okkar allar bjargir bannaðar það til að Alcoa-rútan kom og tók okkur með á Norðfjörð. Svona ferðalag kostar 1600 krónur en ég ætti frekar að rukka Austfjarðaleið.

Það er svo sem gott að vera komin heima og ég held að það sé farið að slakna á átthagafjötrunum sem ég hef talið mig vera í til þessa!


Gleðilegt sumar

Ætli nokkur þjóð syngi eða kveði jafnmikið um sumarið og Íslendingar? Það er sennilega kærkomnara okkur en flestum öðrum nema ef skyldi þeim þjóðum sem búa við minni birtu og við yfir vetrarmánuðina. Sumarið hefur verið skáldum yrkisefni og ég held að allir Íslendingar kunni kvæðið um lóuna. “Lóan er komin að kveða burt snjóinn...” er svo sem ekki bara sungið við sumarkomuna, kvæðið er líka sungið á þorrablótum og sýnir það kannski best hug okkar til sumarsins. Páll Ólafsson hitti í mark með “Lóunni”

“Þegar vetrar þokan grá þig vill fjötra inni” kvað Þorsteinn Erlingsson. Í ljóðinu hvetur Þorsteinn okkur til að hugsa til liðinna gleðistunda og alveg eins og Páll Ólafsson gerir, hvetur okkur til að hrekja depurðina á brott og ljóð þessum lík má finna eftir fjölmarga höfunda.

Mér er hugleikið ljóð Jónasar Hallgrímssonar “Nú andar suðrið...”. Um ljóðið segir að þetta sé sonnetta að forminu til og er sögð vera fyrsta sonnettan sem Íslendingur yrkir, en Jónas orti hana árið 1844 tæpu ári áður en hann lést. Kannski er það sunnanblærinn sem höfðar til mín en auðvitað er lag Inga T Lárussonar tær snilld. Sem “þorpari” alin upp við sjó höfða meira til mín en flest annað ljóð kennd við sjóinn. Bæði venjuleg ljóð og sönglög.

Matthías Johannessen hittir naglann á höfuðið þegar hann segir:

“… hlátur þinn berst með vorgolunni, hlátur þinn öldugjálfur við bundna tjargaða báta,
blóðgaður marhnútur og beita sem fer með hugsun þína á fund óveiddra fiska …”

Og um huga minn fara minningar tengdar fjörunni – sem var, nýveiddir fiskar á íshúsbryggjunni og tjargaðir nótabátar neðan við Kelahæðina.

Gleðilegt sumar


Stjáni blái

“Hann var alinn upp við slark, útilegur skútuhark”  Dýrasta málverk í heimi er nú til sýnis í Ráðhúsi Reykjavíkur. Það heitir Stjáni blái og er eftir Ásgeir Val Sigurðsson. Ásett verð er fjögur hundruð milljón Bandaríkjadalir. Ég hélt í fávisku minni að um væri að ræða þann Stjána bláa sem yrði málaður með spínatdós í hendi. En þá var það Stjáni blái sem Örn Arnarson yrkir um.

Ekki var það verra.Það er náttúrulega algjör snilld að setja á myndina 400 hundruð milljónir USA dollara, það kemur listamanninum örugglega á kortið. Það er Norðfirðingurinn Alda Ármanna Sveinsdóttir  frá Barðsnesi sem leiddi listamanninn sín fyrstu skref á braut listagyðjunnar fyrir um áratug.síðan. Næst dýrasta verk í heimi er eftir Jackson Pollock það seldist fyrir tveimur árum á 140 milljónir dollara. Þess má geta að aðrar myndir eftir Ásgeir eru á verðinu 10 – 65 þús.

Flækingurinn ég!

Stundum dett ég í lukkupottinn eins og í morgun þegar ég fékk póst um tilboð frá Flugfélaginu. Þar kostar flug til Rvk. frá Egilsstöðum og til baka innan við fjögur þúsund kall. Ég ákvað á stundinni að skreppa.Þrátt fyrir allt tal um dýrt flug þá verður að segjast eins og er að ég hef sloppið ótrúlega vel. En þá verð ég að vera vakandi og vera búin að ákveða með talsverðum fyrirvara ferðatilhögunina. Nema í morgun og þá var bara að stökkva á það!

Það er ekkert sem bindur mig hérna heima og ég hef sett mér að vera duglegri að “skreppa”. Ekki svo langt síðan ég var í höfuðborginni og á Akureyri svo þetta er bara helv... vel gert hjá mér. Skrepp jafnvel upp í sveit til Hörpu, hver veit?


Herská Hillary!

Ég hélt að Hillary Clinton, sem sækist eftir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins, myndi verða á mjúku nótunum næði hún kjöri sem forseti. En henni hefur greinilega skilist í kosningabaráttunni að Bandaríkjamenn vilja stunda stríðsrekstur. Hún hótaði í sjónvarpsviðtali í gær að útrýma Íran geri  Íranar kjarnorkuárás á Ísrael.„Ég vil að Íranar viti, að ef ég verð forseti munum við ráðast á Íran," sagði Clinton aðspurð  hvernig hún myndi sem forseti bregðast við kjarnorkuárás Írana á Ísrael.„Ef þeim dettur í hug að gera árás á Ísrael á næsta áratug gætum við útrýmt þeim," sagði Clinton.

Það er greinilegt að Gyðingarnir í Ameríku sem öllu ráða þar í landi, hafa lagt kosningarbaráttu Hillary lið. Hvað annað er hægt að lesa út úr svona yfirlýsingu?


Hvar er flokkurinn sem ég kaus?

Samkvæmt skoðun um fylgi flokkanna í Fréttablaðinu í dag tapar Samfylkingin fylgi yrði gengið til kosninga nú. Hún hefur þegar tapað einum þingmanni. Nú, ég er svo sem ekki hissa miðað við allt sem hún lofaði fyrir síðustu kosningar og allt sem hún hefur ekki staðið við. Svo sem við mátti búast heldur Íhaldið sínu og er það með ólíkindum miðað við allt sem á hefur gengið í borgarstjórn Reykjavíkur. Sennilega á íhaldið dyggustu stuðningsmennina, og þó að flokkurinn stæri sig af því að vera flokkur allra stétta, er langt frá að svo sé.

Því miður er langt til næstu Alþingiskosninga og þá verður Gullfiskaminni kjósenda löngu búið að gleyma öllum sviknu kosningarloforðum allra flokkanna. Þó að ég hafi á sínum tíma fagnað samstarfi Samfylkingarinnar við íhaldið geri ég það ekki lengur. Fyrir stéttvísa kjósendur Samfylkingarinnar er erfitt að horfa á hökt hennar með íhaldinu. Hún er sem sagt orðin hækja!


Yndislegir tónleikar

Mikið rosalega voru tónleikarnir í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði í gær góðir. Þar fór á kostum þau Diddú og Jóhann Valgeir,við frábæran undirleik Kára Þormar. Tónleikagestir kunnu svo sannarlega að meta það sem fram var borið en alls voru það 29 lög sem voru á efnisskránni, eftir jafn marga höfunda, allt frá dægurlögum eins og Delilah til Der Hölle Rache (aríu næturdrottningarinnar). Í einu orði sagt alveg frábærir tónleikar. Tónleikagestir hefðu mátt vera fleiri, en eins og Kári Þormar sagði þá var þvílíkt aftakaveður úti að það spilaði inn í aðsóknina.


Logn og blíða, sumarsól...

Veðrið hefur verið alveg yndislegt undanfarna daga. Koppalogn og sólskin. Hitastigið hefur verið um og yfir tíu gráðurnar. Móar og melar gægjast upp úr snjónum í fjallinu hér fyrir ofan en í Austfirsku ölpunum sést varla á dökkan díl eins og myndin sem ég setti inn hér í gær ber með sér.

Vinakona mín sem kíkti til mín í gær er að passa barnabörnin sín þessa dagana, tvo stráka og fór með þá í “fjöruna” í gær. Hún lýsti fyrir þeim að hérna hefði hún alltaf leikið sér sem barn og fjaran hefði þá verið miklu stærri. Þeir voru eitthvað vantrúaðir á þetta en þegar þau voru að fara úr fjörunni heyrði hún annan sonarsoninn segja við vin sinn: Þetta var einu sinni garðurinn hennar ömmu.

Er furða þótt börn hugsi svona. Hvernig eiga þau að skilja að á okkar æskuárum var leikvöllurinn allt á milli fjalls og fjöru. Fjaran og bryggjurnar, melarnir og planið sem hægt var að vera í slábolta á. Við vinkonurnar töluðum um það í gær að þá hafi ímyndunaraflið verið allsráðandi í leikjum okkar og við tókum okkur nafn aðalleikarana í þeim fáu kúrekabíómyndum sem við sáum. Ef nöfn aðalhetjanna voru þegar komin á þá var bara notast við nöfn eins og Trigger. En enginn vildi vera Kúkki, feiti kallinn!

Manstu eftir Bomba spurði ég í gær? Já Guð minn góður ég var næstum búin að gleyma honum. Mér var ekkert um hann gefið sagði ég, þegar fyrsta myndin með honum kom hingað var ég spurð hvort þetta væri mágur minn!

Stefni á tónleikana “Síðasta lag fyrir svæðisfréttir - óskalagatónleikar” í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði síðdegis í dag. Flutt verða lög sem valin hafa verið af væntanlegum hlustendum og verða þau flutt af Sigrúnu Hjálmtýsdóttir og Jóhanni Friðgeiri Valdimarssyni. Meðleikari verður Kári Þormar.


Barnamatur, Ol. leikarnir og Dísa ljósálfur

Nú er ljóst að óhollustuauglýsingar sem beinast að börnum verða ekki bannaðar með lögum. Þetta þýðir að áfram má auglýsa “barnamat” og “barnahamborgara” svo eitthvað sé nefnt en það er auðvitað ekki óhollusta ef um íslensk börn er að ræða. Það kemur auðvitað hvergi fram úr hvaða börnum umræddar vörur eru og engin lög um að upplýsa hvort um erfðabreyttar matvörur er að ræða. Það þarf hins vegar að gera þegar auglýst er svína- nauta eða alifuglakjöt! Er ekki kominn tími til að taka á þessari vitlausu málvenju?

 

Þorgerður Katrín sem hefur verið ötulust ráðherranna að ferðast, ætlar til Kína. Þegar samflokkskona hennar gagnrýndi á Alþingi að hún skyldi fara sagði ráðherrann að hún teldi mikilvægt að sýna fyrst og fremst okkar íslensku íþróttamönnum samstöðu og það er þess vegna sem hún er að fara. Margir hafa spurt á bloggsíðum sínum af hverju hún sjáist ekki í íslenskum íþróttahúsum en það er einmitt þar sem allt þetta byrjar, nema á Héraði þar sem Vilhjálmur hljóp út um mela og móa og náði í silfur í Melbourn. Kannski Þorgerður Katrín athugi í Kína hvert þær milljónir barna sem hverfa þar lenda. Eru þau kannski orðin að kínverskum barnamat?

 

Alveg er yndislegt að bækurnar um Dísu ljósálf, Dverginn Rauðgrana og Alfinn álfakóng hafa verið endurútgefnar. Ég er til í að lesa þær allar fyrir barna- og barnabarnabörnin mín og upplifa aftur, ef það er hægt, þá tilfinningu sem ég man eftir þegar vængirnir voru klipptir af Dísu ljósálfi.


Draupnir Rúnar bjargar Eurovision

Draupnir Rúnar frændi minn og vinur er alveg æðislegur í Erovision myndbandinu. Flottur strákurinn og þessu hefur hann haldið leyndu fyrir öllum vinum sínum. Já ég held að við eigum eftir að sjá meira til hans eftir þessa uppákomu. Annar Norðfirðingurinn í Eoruvision - eða á myndbandi!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur

Höfundur

Hulda Elma Guðmundsdóttir
Hulda Elma Guðmundsdóttir
Róttæk vinstri kona. Er fædd og uppalin í Neskaupstað - ekta Nobbari og haldin átthagafjötrum. Er íþrótta- og félagsmálafrík og elska ferðalög.

Tónlistarspilari

Elvis Presley - Blue Christmas

Nýjustu myndir

  • goðanes
  • img471-copy

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband