Vinarbréf

Það streyma til mín bréfin sem m.a. segja mér að það sé vinarvika. Þess vegna ætla ég að setja þetta vinarbréf hér inn.

Vinarbréf

 Þetta er saga af litlum dreng sem var afar geðvondur. Faðir hans gaf honum

naglapakka og sagði honum að í hvert sinn sem hann missti stjórn á skapi sínu skyldi

hann negla einn nagla í bakhlið grindverksins.

    Fyrsta daginn negldi drengurinn 37 nagla í grindverkið. Næstu vikurnar lærði hann

að hafa stjórn á reiði sinni og fjöldi negldra nagla minnkaði dag frá degi. Hann

uppgötvaði að það var auðveldara að  hafa stjórn á skapi sínu en að negla alla þessa

nagla í girðinguna.

   Loksins rann upp sá dagur að enginn nagli var negldur og drengurinn hafði lært að

hafa stjórn á sér. Hann sagði föður sínum þetta og faðirinn lagði til að nú drægi

drengurinn ú t einn nagla fyrir hvern þann dag sem hann hefði stjórn á skapi sínu.

Dagarnir liðu og loks gat drengurinn sagt föður sínum að allir naglarnir væru horfnir.

    Faðirinn tók soninn við hönd sér og leiddi hann að grindverkinu.

Þú hefur staðið þig með prýði, en sjáðu öll götin á grindverkinu. Það verður aldrei

aftur eins og það var áður. Þegar þú segir eitthvað í reiði, skilur það eftir sig ör alveg

eins og naglarnir.

   Þú getur stungið mann með hnífi og dregið hnífinn aftur úr sárinu, en það er alveg

sama hve oft þú biðst fyrirgefningar, örin eru þarna samt áfram. Ör sem orð skilja eftir

sig geta verið jafnslæm og líkamleg ör.

    Vinir eru sjaldgæfir eins og demantar. Þeir hlusta á þig, skiptast á skoðunum við þig

og opna hjarta sitt fyrir þér. Nú er alþjóðleg vinavika. Sýndu vinum þínum hve mikils

þú metur þá  og sendu þeim þetta bréf. Það getur vel verið að þú fáir bréfið til baka og þá finnur þú að þeir meta vináttu þína. Þú hefur þú safnað um þig vinahring.

    Þú ert vinur minn og það er mér mikill heiður. Sendu nú bréfið til vina eða fjölskyldu.

                                    Og fyrirgefðu mér ef ég hef skilið eftir göt í grindverkinu þínu.

 


1. apríl

Rosalega finnst mér fréttin um að Al Gore muni gista í snekkju fyrrverandi einræðisherra í Írak, Saddam Hussein, á meðan á dvöl hans á Íslandi stendur vera 1. aprílleg! Ekki síst fyrir það að almenningi er boðið að skoða snekkjuna á ákveðnum tíma í dag. Þetta er náttúrulega ekkert verra aprílgabb en hvað annað en leiðir hugann að flottasta aprílgabbi allra tíma þegar Vanadísin sigldi upp Ölfusá. Lýsingar Stefáns Jónssonar við þetta tækifæri voru frábærar.

Hér í bæ man ég auðvitað eftir forsíðugabbinu mínu í Austurlandi og auglýsingu sem blaðnefndin setti í blaðið um útsölu á hjólbörðum. Sú auglýsing tókst vel svo ekki sé meira sagt. En svo að svona gabb geti tekist vel er nauðsynlegt að hafa allmarga með í ráðum. Ég hafði, eins og ég hef áður sagt, þáverandi ferðamálastjóra og bæjarstjóra með í ráðum. Ég veit fyrir víst að það voru margir sem trúðu fréttinni og margir hugsuðu sem svo; eru nú Norðfirðingar loksins orðnir alveg vitlausir.

Mánaðarheitið apríl er komið frá Rómverjum en óvíst er hvað það merkir. Í aprílmánuði eru 30 dagar eins og júní, september og nóvember. Mánuðurinn hefst á þeim skemmtilega degi 1. apríl sem er alþjóðlegur gabbdagur. Hér á landi er orðin venja að fjölmiðlar reyni að gabba þjóðina og börn og fullorðnir gabbi sína nánustu. (úr sögu daganna) Mér finnst þó að það sé orðið minna um að fólk almennt sé með saklausa hrekki á þessum degi, kannski fellur hann bara í gleymsku eins og fleiri góðar og gegnar hefðir og má þar nefna Yngismeyjadaginn sem nú heitir sumardagurinn fyrsti þó langt sé frá að sumarið sé komið. Stelpurnar eiga þennan dag og eiga að renna hýru auga til piltanna og reyna að vekja athygli þeirra á sér. 

Blak var það heillin

Það er langt því frá að blak sé uppáhalds íþrótta margra íslendinga. Raunverulega mjög fárra, en þetta er ein af uppáhalds íþróttunum mínum og milljónum manna annarsstaðar en á Íslandi!

Þróttarliðið var svo sannarlega í sviðsljósinu á uppskeruhátíð Blaksambandsins á laugardaginn. Þannig var kjörið:

Lið ársins var  valið en þar er samblanda af kjöri og stigaskori. Stigaskor er talið í sókn, hávörn og uppgjöf en kjörseðlar eru fyrir besta frelsingjann, móttökumanninn og uppspilarann. Einnig var þjálfari ársins útnefndur í hvorum flokki ásamt dómara ársins.  Lið ársins í 1. deild kvenna
Stigahæst í uppgjöf: Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, Þrótti Nes með 30 stig.
Uppspilari ársins: Kristín Salín Þórhallsdóttir, Þrótti Nes
Stigahæst í hávörn: Erla Rán Eiríksdóttir, Þrótti Nes með 32 stig.
Stigahæsti sóknarmaður: Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, Þrótti Nes með 131 stig.
Best í móttöku: Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, Þrótti Nes
Besti frelsinginn: Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, Þrótti Nes
Þjálfari ársins: Apostol Apostolov, Þrótti Nes.

Stigahæsti leikmaður samtals var Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir Þrótti Nes með 174 stig.


Úti er alltaf að snjóa...

Drottinn minn hvað það er vetrarlegt úti. Þó að það sé ennþá mars þá er þetta fullmikið. Fjallvegir ófærir og nú eru fjölmiðlar búnir að færa Fróðárheiði austur, nóg var nú samt.

Fór á aðalfundi Félags eldri borgara á Norðfirði í gær. Við vorum þarna þrjár bekkjar- og fermingarsysturnar og vorum langyngstar á fundinum, sem var mjög fjölmennur. Það hefur verið mikill kraftur í þessu félagi frá því að það var stofnað og margir unnið þar fórnfúst starf, en það má ýmsu breyta.

Fór svo í gærkveldi að spila Bridge hjá Ínu og Lunda, var makker Vigga og gengur okkur ágætlega að spila saman þó við höfum ekki gert það oft. Þetta var hið skemmtilegasta kvöld, frábærar veitingar í leikhléi, eins og alltaf hjá þeim hjónum. Ætla kannski með Vigga að spila á Reyðarfirði á þriðjudaginn.

Las á vefnum í morgun að útgáfurétturinn að þáttunum af Nonna og Manna sem RÚV keypti á sínum tíma sé týndur. Þetta er auðvitað hreinasta skömm. Ég hef lengi beðið eftir endursýningu á þessum þáttum því það er mín skoðun að þetta sé eitt besta efni sem sjónvarpið hefur framleitt. Ekki veit ég hvað oft spólunum með Nonna og Manna hefur verið stungið í tækið hér, en það er oft. Enda var það svo að þegar fram liðu stundir þá var ekki byrjað á upphafinu heldur þegar ísbirnirnir réðust á bæinn að Skipalóni.

 Færeyska rás 2 hljómar í tölvunni, þar er alltaf leikin Godspel tónlist á sunnudagsmorgnum og svo er Ynskilötan eftir hádegi!


Ef við værum...

Rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich hefur keypt stærsta bor í heimi og hefur það leitt af sér sögusagnir um að hann ætli sér að grafa göng milli Rússlands og Bandaríkjanna. Þetta yrðu eitthvað um 90 km. löng göng en það er vegalengdin á milli Chukotka í Síberíu og Alaska.

Ímyndunarafl mitt á sér lítil takmörk ef svo ber undir og við lesturinn datt mér í hug þegar ég fyrir mörgum árum var með 1. apríl gabb í blaðinu sem ég ritstýrði, um nýtt flugfélag sem myndi þjóna Norðfirðingum, hafa aðstöðu á Norðfjarðarflugvelli, yrði í góðu samstarfi við Færeyinga og yrði styrkt af Aroflot. Þessu til sönnunar hafði ég mynd af þáverandi ferðamálastjóra og bæjarstjóra fyrir framan skrifstofur Aeroflots í Amsterdam.

Þetta var þegar við vorum og hétum Nobbarar og vorum stolt af því að búa í Litlu Moskvu. Og ef við værum ennþá eins sjálfstæðir Nobbarar og við vorum, hittum bæjarstjórann okkar daglega og réðum sjálf yfir Síldarvinnslunni, væri ekki svo vitlaust að leita til Romans eiganda Chelsea og fara fram á að hann liti nú til með okkur “samlöndum” hans. Ef hann léði máls á tillögum okkar um samgöngubætur þá gætum við farið að hugsa til sameiningar við nærliggjandi byggðarlög. Við gætu, svo í leiðinni athugað hvort við gætum ekki fengið nokkra miða á leiki Chelsea og aðgang að sömu stúku og forstjórar íslensku fjármálafyrirtækjanna hafa.

 Í Mogganum í dag er stórkostleg auglýsing. Hún er ekki um kjötborðið í Nóatúni, sólarlandaferðir eða júróprís. Nei hún er frá vinum Hannesar Hólmsteins og farið er fram á að gefa honum “venjulega launamanninum” litlar rúmar þrjár milljónir til að greiða sektina sem hann fékk vegna ritstulds, en það kemur ekki fram í auglýsingunni. Og áfram segir í auglýsingunni; “Við eigum honum öll mikið að þakka fyrir að hafa verið óþreytandi við að mæta þeim öflum sem vilja takmarka einstaklingsfrelsi á Íslandi. Nú er að honum sótt Hann er bara venjulegur launamaður og hefur ekki mikil fjárráð til að mæta árásum þeirra sem vilja takmarka málfrelsi hans, meðal annars með háum fjárkröfum fyrir dómstólum.

Íslenskur auðmaður sækir að honum erlendis og reynir að brjóta hann niður fjárhagslega”.

 

Þetta er sú mesta lágkúra sem sést hefur í auglýsingu og það á prenti. Að mínu mati segir þetta meira um persónuna sem á að styrkja, en allar hans stolnu setningar um Nóbelsskáldið. Að hann skuli samþykkja þatta!


Kleinuhringja kallarnir

Fréttir um upplausn í löggæslu- og tollvarðamálum á Suðurnesjum tröllríður nú öllum fréttatímum. Allt Birni Bjarnasyni að kenna, sem nú spókar sig á suðurhveli jarðar til að koma af stað byggingu nýs varðskips. Sýndar eru myndir frá fundahöldum tollvarða og kemst ekki nokkur maður hjá því að sjá að offita hrjáir flesta þeirra. Og þetta á líka við um fjöldann af þeim lögreglumönnum sem koma fyrir í sjónvarpi. Getur verið að það sé kleinuhringja át sem gerir þá svona í laginu, eða gerir sjónvarpið mitt alla kalla í einkennisbúningum litla og feita?Allavega feita.

Seðlabankastjóri talaði eins og véfrétt eða öllu heldur veðurfréttamaður á aðalfundi Seðlabankans í dag.Það var ýmist þýða eða kólnandi í tali hans og tókuð þið eftir; ekkert af því sem hann talaði um er ríkisstjórninni eða Seðlabankanum að kenna, nei það eru einhverjir óprúttnir náungar sem eru að reyna að kollsteypa íslensku hagkerfi. Getur verið að þeir sé frá Austur-Evrópu?

Það er hundleiðinlegt veður. Var að vona að ég færi til Akureyrar í dag en svo varð ekki. Stefni að því að komast norður sem fyrst, það þarf ekki endilega að vera helgi. Veistu um ferð?


Laumuíbúar og fleiri glæpamenn

Loksins hefur lögreglan haft manndóm í sér til að auglýsa eftir meintum erlendum afbrotamanni. Um er að ræða einn þeirra átta eða tólf sem réðust á landa sína í Breiðholtinu um páskana. Samkvæmt fréttum í morgun er maðurinn enn ófundinn.

Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira um þetta erlenda glæpahyski sem tröllríður nú öllu hér á landi en alltaf vindur þetta uppá sig. Talið er að nokkrir útlendingar hafi skráð sig til heimilis í Garðabæ, án nokkurrar heimildar. Vitað er um að minnsta kosti eitt staðfest tilfelli. Aðeins þetta segir mér að refsing  við því að skrá lögheimili sitt viljandi á rangan stað er nánast engin. Segir þetta okkur ekki eitthvað um íslenska embættismannakerfið?

Og afbrotin vinda upp á sig. Í gær voru tveir menn handteknir á leið úr landi með nokkrar milljónir sem þeir höfðu náð ólöglega út úr íslenskum hraðbönkum og tvær kínverskar konur voru handteknar við komuna til landsins með fölsuð vegabréf. Getur verið að við séum að gefa erlendum glæpamönnum einhver skilaboð um að hérna sé gósenland glæpamanna? Því eitt er víst að þetta eru ekki heiðarlegir einstaklingar sem ég er að skrifa um.

Ég hef áður minnst á að þeir sem eru teknir hérna og dæmdir til refsingar eigi að fara strax úr landi. Sem betur fer held ég að þessari skoðun vaxi fiskur um hrygg og hefur dómsmálaráðherra viðrað þessa skoðun og í Mbl. í dag fjallar einn þingmaður N-Austurkjördæmisins meðal annars um þetta.

Á sama tíma og sú rotnum sem óneitanlega fylgir þessum glæpagengjum grasserar í landinu eyðum við meira fé í að búa til störf sem eiga að auðvelda fólki að setjast að á Íslandi, búa til fjölmenningalegt samfélag heitir það víst á fínu máli.

En er málið ekki ósköp einfalt, þetta fólk hefur fæst áhuga á að aðlagast samfélaginu eða íslenskri menningu og lifir í sinni eigin menningu eða ómenningu, sem það flytur með sér til landsins. Hér á við eins og alltaf að það er misjafn auður í mörgu fé, það sáum við og heyrðum á páskunum þegar atburðirnir í Breiðholti áttu sér stað.

Þar sem við erum nánast eingöngu að fá þessa óvelkomnu "gesti" frá A-Evrópu og lengra að komna, þá er þess sennilega langt að bíða að verlsunareigendur í Kringlunni, við Laugarveginn eða í Smáralind, bjóði viðskiptavinum sínum 15% afslátt ef þeir tala með erlendum hreim, en það gera verslunareigendur í New-York!


Letilíf og sjónvarpsgláp

Hef verið óvenju iðin við sjónvarpið þessa dagana og verið í leti. Horft á Evrópumótið í sundi sem fram fór í Holllandi, hörkuspennandi keppni á alþjóðlegu móti í tennis, listdans á skautum og fleira og fleira, allt á Euro-Sport. Mér finnst svolítið merkilegt hvað ég er spennt fyrir tennisíþróttinni og man alveg hvar sá áhugi kviknaði. Ég var á leið til Englands með Berki og þegar við komum í Norðursjóinn sáum við danska og breska sjónvarpið og á annarri hvorri stöðinni var tenniskeppni, Þetta horfði ég frá frá Pentlinum til Grimsby og hafði reglulega gaman af.

Keppnin í gærkvöldi var alveg rosalega spennandi á milli Ivöna Abramovic frá Króatíu og Svetlönu Kuznetsova frá Rússlandi. Báðar í fremstu röð tennisleikara enda var keppnin ægispennandi. Það er svolítið skrítið að horfa á íþróttir í sjónvarpi og halda með einhverjum tilteknum aðila eða liði, án þess að þekkja á viðkomandi haus eða hala. Ég hélt í gærkvöldi með Ivönu og hún vann. Átti aldeilis frábærar uppgjafir sem Svetlana átti ekkert svar við.Ég fylgdist svo í morgun með athöfninni í Olympiu í Grikklandi þar sem Olympiueldurinn var tendraður. Það fór eins og búist var við mótmælendur mannréttindabrotanna í Kína voru mættir á svæðið og þrátt fyrir öflugan öryggisvörð tókst nokkrum að komast að formanni Kínversku Ol. nefndarinnar áður en þeir voru yfirbugaðir. Öll við vitum við að mannréttindi í Kína eru fótum troðin og það leiddi huga minn að því að einu sinni var ég ákafur aðdáandi Maós formanns. Það hlýtur að hafa verið tíðarandinn sem réði því, í dag skil ég ekkert í þessari aðdáun minni!

Og minnst á Ol. Leikana ég hef alltaf ætlað að fara á þá. Fyrst ´68 þegar þeir voru haldnir í Mexíkó, ætlaði ekki til Munchen ´72 en var harðákveðin að fara til Ástralíu árið 2000. Var búin að vera hætt að reykja í nokkur ár og átti peningana sem hefðu farið í sígarettur í banka og var tilbúin ef einhver vildi fara með mér. Svo reyndist ekki vera, þannig að ég stefni á England eftir 4 ár. Tími til kominn.


Stoppum þennan innflutning

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að blogga um þann óþjóðalýð sem hefur að undanförnu sest að hér á landi. Þá á ég við lögbrjóta, já reyndar bara glæpamenn, sem hingað hafa streymt aðallega frá Litháen. Er ekki hægt að stemma stigu við þessum innflutningi. Þetta verður ekki lengur talið til þjóðflutninga, þetta eru hreinlega landflutningar.

Ekki efast ég um að fleiri en færri hneykslast á þessum skrifum mínum. Það eiga allir að vera jafnir, er það ekki? En hversu jafnir? Er í lagi bara af því að þú ert útlendingur, já frá Litháen eða Póllandi, að berja fólk og limlesta á annan hátt, jafnvel að gerast sekur um manndráp? Af hverju er tekið vægar á þessum erlendum einstaklingum sem ítrekað brjóta lög, en ungum íslendingum sem gerast sekir um miklu smávægilegri brot? Erum við orðin svo áttavillt að við þorum ekki að láta til okkar taka í þessum málum? Erum við svo hrædd um almenningsálitið, um álit þeirra sem prédika í sífellu um jafnan rétt allra manna, að við sitjum bara með hangandi haus og látum þetta yfir okkur ganga?

Ég er orðin hundleið á að bera blak af íslenskum lögreglumönnum, en því miður virðast margir þeirra ekki starfi sínu vaxnir. Dómskerfið er alveg út í hött og þyrftu nokkrir dómarar þar á meðal hæstaréttardómarar, að fá fræðslu um siðgæði. Ég vil að við minnsta brot verði þessir glæpamenn frá fyrrgreindum stöðum sendir til síns heima. Ég vil ekki að mínum skattpeningum sé varið til að halda þeim uppi í íslenskum fangelsum ef þeir þá komast þangað, eða að þeir séu á bótum frá almannatryggingum.

Þetta er nú kannski ekki rétta bloggið á sjálfan páskadag, en fyrir þessum glæpamönnum er enginn dagur heilagur. Mannslífið er þeim líka óttalega lítils virði, það sýna uppákomur síðustu daga. Jafnvel blöðin sem hafa lengst af sagt okkur hvers lenskir þeir eru sem komast í kast við lögin, eru hætt því af ótta við almenningsálitið.

Ég er ekki í Frjálslynda flokknum, en verð að viðurkenna að nú á tímum ofbeldis á Íslandi, af hálfu útlendinga, þá höfðar innflytjenda stefna þeirra til mín! Einhverjum verður efalaust að orði; skammastu þín, það gerð ég stundum, en ekki vegna þessara skrifa!


Ég, Lennon og Mc Cartney

Mér finnst Bakþankarnir í Fréttablaðinu oft stórskemmtileg lesning og gildir þá minnstu hver skrifar þá. Bakþankarnir Karenar D. Kjartansdóttur í gær voru mér sérstaklega að skapi og fann ég sjálfa mig sem píslarvott þegar ég las þá!

Hún skrifar meðal annars um Paul Mc Cartney sem lagahöfund og það var einmitt þar sem ég fann mig. Ekki vegna þess að ég væri lagahöfundar heldur höfðaði lag hans og texti við When I´m Sixty-Four heilmikið til mín. “Í laginu spyr ástfangin ung manneskja maka sinn hvort hann verði enn til staðar þegar þau verða 64 ára og hvort þau muni ekki hafa það ægilega notalegt saman í sumarbústað ásamt barnabörnunum”.

Ég hélt að þetta yrði svona hjá mér en margt fer öðruvísi en ætlað er. “Lagið hans Paul var fagur óður til hversdagsfólks sem helst dreymir um áhyggjulausa daga í faðmi ástvina sinna og eins ólíkt óði Lennons um eilífa jarðarberja-akra sem kom út á sama tíma og ellismellurinn”.“Vesalings Paul verður 66 ára í sumar og má nærri geta að spurningunum sem hann varpaði fram sem unglingur hafi verið svarað á annan veg en hann óskaði".

Karen skrifar að hún viti þó ekki hvor var lánsamari af Bítlunum, McCartney eða Lennon. "Sá fyrrnefndi er loksins sloppinn undan fégráðugri skækju, nokkrum milljörðum fátækari. Mig grunar þó að Lennon hafi ekki enn náð úr sér hrollinum sem hlaust af því að fylgjast með ekkju sinni úti í Viðey með vasaljós og Villa í haust. Öll hjálparmeðul Lúsíu í skýjum með demanta gætu ekki slegið á aulahrollinn sem þessu fylgdi og hefur fylgt vesalings Sjálfstæðisflokknum í borginni allar götur síðan”.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur

Höfundur

Hulda Elma Guðmundsdóttir
Hulda Elma Guðmundsdóttir
Róttæk vinstri kona. Er fædd og uppalin í Neskaupstað - ekta Nobbari og haldin átthagafjötrum. Er íþrótta- og félagsmálafrík og elska ferðalög.

Tónlistarspilari

Elvis Presley - Blue Christmas

Nýjustu myndir

  • goðanes
  • img471-copy

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband