18.3.2008 | 11:20
Enn af fermingum
Gjafir keyptar í Rúmfatalagernum og Ikea eru afþakkaðar. Vinsamlega gefið peninga, helst ekki minna en 5.000.
Konan sem sagði frá þessu var á hárgreiðslustofu, mjög reið og sagði að sér væri skapi næst að mæta ekki. Lái henni það hver sem er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.3.2008 | 09:55
Fermingar
Systir mín á afmæli í dag, hvað aldrinum viðkemur er hún alltaf jafn hress og skemmtileg. Fyrir ári síðan átti hún merkisafmæli þar sem var mikið, mikið gaman. Til hamingju með daginn elskan mín.
Fór í tvær fermingarveislur í gær. Skóflaði í mig svo mörgum hitaeiningum að dagarnir fram að næstu fermingarveislu duga varla til að eyða þeim. Borðaði samt hafragraut í morgun, og tók lýsi.
Það kom í ljós við borðhaldið í gær að margir mundu varla eftir fermingardeginum sínum, þó var þetta fólk á besta aldri. Ég man minn fermingardag mjög vel, bjartan og fallegan, enda komið langt fram í maí. Fermingarundirbúningurinn var hefðbundinn en þó varð ég og bekkjasystir mín að sækja fermingarfræðsluna að hluta til heim til prestsins þar sem við vorum byrjaðar að vinna í frystihúsinu.
Ég á mynd af mér frá þessum degi þar sem ég er að styðja einn Víkinginn á hjóli. Ég er í grænni kápu með skinnkanti og með alveg rosalega mikið permanent, örugglega tekið hjá frú Christiansen! Fyrir peningana sem ég fékk að gjöf keypti ég mér hjá Bjössa á Bakka, Telefunken útvarp og plötuspilara. Næstu árin fór mikið af mínum peningum í hljómplötukaup.
Það er fátítt í dag að veislur séu haldnar í heimahúsum og ég veit ekki af hverju gestafjöldinn er orðinn svo miklu meiri en hann var! Kannski vegna þess að áður fyrr voru það bara nánustu ættingjum og vinum sem bjuggu í heimabyggðinni sem var boðið til veislu, en núna samstarfsfólki, ættingjum og vinum í öðrum landshlutum svo dæmi sé tekið.
Auðvitað er fermingardagurinn merkileg athöfn. Það er samt mín skoðun að það sé undantekning að börn/unglingar láti ferma sig trúarinnar vegna. Hver vill staðfesta að 13 eða 14 ára unglingur láti sig kristinndóminn sig svo miklu varða að hann láti ferma sig. Ég lét ferma mig af því að aðrir gerðu það og vegna gjafanna. Ég á samt mína barnatrú, sem ég reyni að rækta í dag, en hún á ekkert skylt við þá trú sem ég játaði á fermingardaginn.
Gott veður, logn en kalt. Sólin farin að fleyta Múlann vel og birtan yndisleg. Hlakka til þess að það fari að hlýna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2008 | 13:28
Jóla-, páska-, hvítasunnufrí og öll hin fríin
Einu sinni var sagt að það að velja sér kennslu sem aðalstarf væri vegna allra frídaganna sem kennarar fengju. Og upp var talið rúmlega þriggja mánaða sumarfrí, jóla- og páskafrí og fjölmargir aðrir frídagar. Nú hefur bæst við frí vegna kennarafunda, starfsdaga kennara og eflaust eitthvað fleira.
Nú er ljóst að þetta á líka við um þingmenn, nema þeir eru bara betur launaðir en kennarar. Hallgrímur Helgason skrifar á blogginu sínu að s.l. haust hafði einn þingbusinn haft á orði eftir tvo mánuði á nýja vinnustaðnum að sér kæmi á óvart hvað hann hefði lítið að gera. Annar þingmaður heyrðist dásama fjölda frídaga sem helsta kostinn við starfið. Síðasta fimmtudag var síðasti þingfundur fyrir páska. Spurning hvort takist að ná upp einum fundi eftir páska, áður en brestur á með sumarfríum.
Og áfram heldur Hallgrímur; Í silfri Egils síðastliðinn sunnudag fórnaði Guðfinna Bjarnadóttir, glæný þingkona Sjálfstæðisflokksins, höndum og viðurkenndi að hún hefði aldrei kynnst jafn skrýtnum vinnustað og Alþingi. Guðfinna er nútímakona, sem rifið hafði upp og stjórnað nútímafyrirtækjum eins og Háskólanum í Reykjavík, en líður nú greinilega eins og hún hefði óvart villst inn á vaxmyndadeild Þjóðminjasafnsins.
Þingmenn og þá sérstaklega ráðherrar spreða peningum í ákveðin gæluverkefni, eins og sérsveit lögreglunnar svo dæmi sé tekið og á borð eru borin málefni sem eru algjörlega á skjön við það sem áður hafði verið tilkynnt um.
Hvenær verður eftirlaunamál þingmanna tekið fyrir? Það bíða margir eftir því ekki síst vegna yfirlýsinga margra þingmanna að það mál þyrfti að ræða. En nota bene, það var jú fyrir síðustu kosningar. Nú eru tæplega fjögur ár í næstu kosningar og því engin þörf á að vera eltast við eitthvað sem kemur þingliðinu illa.
Er nema von að spurt sé; Er þörf á þingi? Er ekki bara nóg að hafa ríkisstjórn og Silfur Egils?Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.3.2008 | 17:55
Inn og út úr landi...
Hef gert mest lítið í dag annað en að setja í eina þvottavél, skreppa í búð, spila tónlist jú og taka á móti góðum gesti sem kom með gjöf. Frábær vinkona hún Nanna. Fékk ný heimilistæki í hús í dag en vantar smið. Reyndi sjálf að losa gamla helluborðið en það gekk ekki. Tek bara á æðruleysinu og bíð þar til úr rætist
Var að undrast hvar allir gömlu geisladiskarnir mínir væru og opnaði fyrir tilviljun einn skáp í stofunni og viti menn, skápurinn fullur af geisladiskum! Er búin að spila marga í dag en núna er á spilaranum diskurinn með Bræluböllunum! Já ekki halda að þetta sé stafsetningarvilla, diskurinn heitir Brælubellir og er með fjórum skipstjórum úr Eyjum, flott vel valin lög, en söngurinn svolítið neyslutengdur og ekki tiltakanlega vel raddaður en fínt framtak. Takk Bergvin.
Ég held að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sé að verða eins og Gylfi Þ þegar hann gegndi stöðu utanríkisráðherra. Um hann var sungið; inn og út úr landi alltaf sömu leið. Ingibjörg heldur til Afganistan á sunnudaginn og stendur heimsóknin fram á fimmtudag, skírdag en af öryggisástæðum er ekki gefið upp hvert verður farið eða á hvaða tíma. Mér er spurn hvað hefur hún að gera þangað? Það er ekki aðeins hún ein sem fer, það verða þrír embættismenn með í för og, takið eftir, fimm sérsveitarmenn!
Á sama tíma og allt er í uppnámi vegna fjársveltis löggæslunnar er bruðlað á þennan hátt. Svei attan.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2008 | 12:52
Ertu ekki að fara að ...
Ætli ég hafi ekki heyrt setningu á þessum nótum; ertu ekki að fara að flytja suður? oftast á liðnum tveimur eða þremur árum. Svar mitt er oftast það sama; nei það stendur ekki til, ég er haldin svokölluðu átthagafjötrum en hver veit nema það eigi eftir að breytast. Ættingjar og vinir, já og kunningjar spyrja slíkra spurninga og aftur og aftur þó ég hafi gefið fyrrgreint svar. En það er í góðu lagi.
Það er furðulegt að vera alltaf að dásama það að vera komin heim, en vera svo rokin í burtu fyrr en varir. En svona er það bara. Það er svo sem af nógu að taka hvað bloggið varðar og ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja og er ekki í neinu stuði til þess.
En til að byrja á einhverju þá ætla ég að fjalla aðeins um þá refsidóma og ekki refsidóma sem fallið hafa á undanförnum vikum. Það má kalla mig rasista og allt það, en er ekki mál að linni ofbeldi erlendra karlmanna, flestra frá Litháen, og einfaldlega senda þá til síns heima með því fororði að þeir komi aldrei til Íslands aftur. Hafa dómarar ekki ennþá séð að þeim líkar ágætlega í íslenskum fangelsum, hafa þar meira kaup en heima hjá sér, plús húsnæði og fæði? Það er fyrst í dag sem lögreglan rís upp gegn dómsvaldinu og af hverju? Jú tveir Litháar voru sýknaðir af ákæru um að hafa veist að lögreglumönnum. Það virðist vera algild regla að þetta kemur fólki ekki við nema það lendi á þess eigin skinni.
Í einu dagblaðanna í gær var á baksíðu fjallað um nokkra nýuppkveðna dóma. Þar spyr blaðamaðurinn sem skrifar; af hverju treystir fólk ekki dómstólum, og tekur nokkur dæmi:
Íslenskur dómari komst nýlega að þeirri niðurstöðu að karlmaður ætti að greiða konu 150.000 krónur og sæta 30 daga skilorðsbundnu fangelsi. Karlmaðurinn hafði barið konuna svo illa að hún var í marga mánuði að jafna sig bæði andlega, líkamlega og fjárhagslega.
Íslenskur dómari komst nýlega að þeirri niðurstöðu að karlmaður sem hafði barið konuna sína í klessu væri ósakhæfur þar sem konan hafði reitt karlmanninn til reiði.
Íslenskur dómari sýknaði nýlega karlmann sem ákærður var fyrir nauðgun á salerni í kjallara á hóteli í Reykjavík. Ástæðan var sú að maðurinn gat ekki vitað að konan vildi ekki láta þröngva sér niður við hliðina á klósettinu, læsa sig inni og nauðga sér á skelfilegan hátt. Í
Íslenskur dómari komst nýlega að þeirri niðurstöðu að karlmaður ætti að greiða öðrum karlmanni 300.000 kr. vegna þess að sá fyrrnefndi hafði skrifað ljóta hluti um hinn síðarnefnda á bloggsíðu.
Íslenskur dómari dæmdi mann í sex mánaða fangelsi fyrir annars vegar áfengisbrot og hins vegar kynferðisbrot gagnvart stúlku. Hvort ætli hafi verið refsiverðara?
Sem áður sagði rísa lögreglumenn nú upp þar sem þeim finnst að þeim vegið. Af hverju hafa þeir ekki tjáð sig um fleiri mál? Er það vegna þess að það hefir ekki bitnað á þeim fyrr en nú? Spyr sá sem ekki veit. Þess má geta að í nýlegri könnum Capacent kemur fram að trú almennings á dómskerfinu sé 39%.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.1.2008 | 00:32
Heima er best...
Það er gott að vera komin heim þrátt fyrir að hafa átt yndislegar stundir með stráknum mínum, Camillu og börnum þeirra á völlunum. Þau bæði yndisleg og börnin tvö ekki síðri. Ég hef það á tilfinningunni að ég hafi gert Hafdísi Helgu svolítið óþæga en Jóhann Nökkvi er eldri og mikill pabbastrákur. Sú stutta lét líka í sér heyra þegar mamma hennar var í sjónmáli. En það er gott að vera komin heim. Hver skyldi hafa fundið þessa setningu upp?
Við vitum að þessi setning gildir alls ekki um alla, og ekki heldur um marga. Gleggsta dæmið er kannski myndin um Breiðavíkur-heimilið, en ég bara spyr voru þau ekki mörg Breiðavíkurheimilin á þessum árum?
Það er svo sem margt að blogga um þegar ég hef verið stopult við að undanförnu. Efst í huga mér núna er skipan Össurs Skarp. stöðu orkumálastjóra. Það má vel vera að rétt hafi verið að öllu staðið, en einhvern veginn finnst mér Össur Skarphéðinsson vera í dag, næst hrokafyllstri stjórnmálamaðurinn, á eftir Steingrími J. Sigfússyni, æ nei ekki gleyma B.B. mér finnst hann á stundum klikkaður en skrítið, ég er stundum sammála honum kannski jafn kilikkuð!.
Þetta leiðir hugann að því að kvenprestar í Danmörku sæta einelti og hefur eftir því verið tekið hérlendis. En ég spyr af fávisku minni eða misminnir mig, var ekki eitthvað svoleiðis í gangi hér þegar við fengum fyrsta kvenprestinn? Hvað táknar prédikun biskups um jólin, ef rétt er efir haft, um að endurvekja eða reisa karlmennskuna? Ég vona svo sannarlega að eitthvað hafi tilskoðast i fréttunnum sem ég hlustaði á,eða hjá mér
Nú þegar von mín hefur ræst um íþróttamann ársins af hálfu íþróttamannia spyr ég hver er íþróttamaður .KFF, Þróttar, Austra og annarra félaga í Fjarðabyggð?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2008 | 10:34
2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.12.2007 | 23:41
Gleði og sorg á jólum
Komið þið sæl.Hérna féll sko regulegur jólasnjór í gær og jörð var enn alhvít í morgum. Var hérna heima hjá litlu fjölskyldunni á aðfangadagskvöld og var það alveg yndisleg. Á jóladag fór ég með heimilisfólkinu hérna til foreldra Calmillu. Þar belgdi ég mig auðvitað út af hangikjöti og tilbehör og gómsætum eftirrétti.
Þaðan fór ég til systur minnar og þar var margt unm manninn og mikið gaman. Það voru hinsvegar ekki skemmtilegar fréttirnar sem biðu mín þegar ég kom heim. Fyrrverandi mágur minn og sá sem alltaf var besti vinur minn lést í hörmulegu slysi út í Maracco á jóladag. Það er ekki allt orðið ljóst hvað gerðist. Auðvitað er þetta reiðarslag fyrir alla fjölskylduna og reynar fyrir alla sem hann þekktu. Mestur er auðvitað missir eiginkonu og barna já og barnabarna. Það er allt sem hjálpast að að gera þeta svo erfitt, fjarlægðin mikil, við erum jú í sitt hvorri heimsálfunni og það eru jólin.
Við vorum svo hjá Petru og Sólrúnu í kvöld. Atli Rúnar kom þangað með nýju kærustuna sína, yndislega falleg stúlka. Það er komin óregla á svefnvenjur barnanna - en hefur það ekki alltaf verið svoleiðis á jólum?
Bloggar | Breytt 27.12.2007 kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2007 | 11:18
Gleðileg jól
Jæja þá er komið að ferðinni suður, jóla-og áramótaferð. Tók þá ákvörðun rétt í þessu að hafa ekki tölvu með mér og mun því blogga stopult. Hérna er nú þungbúið, úrkoma í formi lítilla regndropa en ákaflega milt. Ína frænka kom í morgun og færði mér innflutningsgjöf, bók, sem ég tek með mér suður.
Það er svo sem um nóg að blogga en ég ætla sleppa því í dag. Sendi ykkur öllum hugheilar jóla- og nýárskveðjur og bið ykkur vel að lifa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2007 | 09:29
Íþróttamaður ársins
Í Mbl. bloggi í dag er fjallað aðeins um þetta val og þar kemur fram að að formaður samtaka íþróttafréttamanna og Heimir Karlsson telja að kjör íþróttamanns ársins verði mjög vandasamt, þar sem enginn íþróttamaður hafi virkilega skarað fram úr í ár. Að sjálfsögðu er þetta vegna þess enginn fótbolta- eða handboltastrákur hefur skarað fam úr.
Ég hef iðulega gagnrýnt valið á íþróttamanni ársins. Finnst íþróttamönnum gert mishátt undir höfði af hálfu íþróttafréttamanna. Ekki er tekið tillit til hvort viðkomandi er í einstaklingskeppni eða hópíþrótt en hópíþróttirnar hafa vinninginn. Frá því að þessi verðlaun voru fyrst veitt Vilhjálmi Einarssyni 1956 og þar til nú hafa aðeins þrjár konur fengið þessa viðurkenningu, Sigríður Sigurðardóttir fyrir handknattleik, Ragnheiður Runólfsdóttir fyrir sund og Vala Flosadóttir fyrir frjálsar íþróttir. Ég tel að nú sé komið að því fyrst á annað borð er verið að velja úr flokkaíþróttum að Margrét Lára Viðarsdóttir sé vel að þessum titli komin. Vonandi hafa íþróttafréttamennirnir sem að þessu vali standa tekið eftir árangri hennar með sínu félagsliði og íslenska landsliðinu í sumar. Nema þeir séu enn með kíkirinn fyrir blinda auganu. Nú Ásthildur Helgadóttir sem spilaði í Svíþjóð var máttarstólpi eins besta liðsins í sterkustu deildarkeppni kvenna í heiminum, þar sem hún var iðulega borin saman við Mörtu frá Brasilíu sem í vikunni var kjörin knattspyrnukona ársins 2007 af fyrirliðum og þjálfurum kvennalandsliða. Bæði Margrét Lára og Ásthildur hafa skarað fram úr í íþrótt sinni á árinu og hafa náð lengra en nokkur karlkyns boltastrákur" hefur náð, hugsanlega að Eiði Smára undanskyldum þegar Chelsea lék til undanúrslita í Meistaradeild Evrópu um árið.
Þá má ekki gleyma Rögnu Ingólfsdóttur var rétt í þessu að tryggja sér sæti í undanúrslitum alþjóðlega badmintonmótsins Hellas Victor International og er sennilega að tryggja sér keppnisrétt á Olympíuleikunum í Kína á næsta ári.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Vangaveltur
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar