En svo bar til um þessar mundir...

Hún er forvitnileg greinin eftir Illuga Jökulsson í nýjasta hefti Ísafoldar. Ég freistaðist til að kaupa blaðið á föstudaginn en hefði getað látið það ógert, það er lítið annað en auglýsingar. En þetta litla sem var í því las ég allt. Illugi fer mörgum orðum um “það sem ekki bar til um þessar mundir” sem sagt það sem jólaguðspjallið hefst á: En svo bar til um þessar mundir...

Orðrétt segir hann: "Laust eftir klukkan sex að kvöldi næsta aðfangadags munu því sem næst allir prestar landsins stíga í ræðustól í kirkjum sínum, klæddir sínu fínasta pússi: þvegnir, stroknir og vonandi með nýburstaðar tennur og þeir grípa báðum höndum um brún prédikunarstólsins og horfa yfir söfnuð sinn sem er líka í sparifötunum, og með hárið greitt og bros mun leika um varir prestanna þegar þeir teygja sig í nokkur útprentuð blöð með ræðu sinni og þeir munu draga djúpt að sér andann áður en þeir hefja mál sitt á þessari stærstu stund kirkjuársins. Og svo byrja þeir að ljúga.

Næstu tíu til fimmtán mínúturnar meðan ræðan stendur munu þeir ljúga alveg látlaust. Vissulega kann að vera einhverjir þeirra láti fylgja með svolítinn sannleika jafnvel svolitla visku og vonandi kærleika en útgangspunkturinn í prédikun þeirra allra verður ósannur með öllu. Öðru nafni lygi. Því gamlar goðsagnir úr Miðausturlöndum um fæðingu Jesú frá Nazaret – þær munu prestarnir lesa upp úr Lúkasarguðspjalli eins og um heilagan sannleika væri að ræða. Og þeir munu ætlast til að nýþveginn söfnuðurinn trúi og kinki kolli í andakt þegar þeir lesa upp lygina.

Þó vita allir að sem hafa kynnt sér málið að í jólaguðspjalli Lúkasar er ekki eitt satt orð.

Jú - Jesú fæddist. Það er nokkuð ljóst. Meira er það nú ekki. Allt hitt... ja, tilbúningur, ef maður vill vera kurteis. Þjóðsaga, hljómar líka blíðlega. En lygi ef maður talar hreint út".

 

Illugi rekur margar ástæður sem sýna mér að hann hefur margt til síns máls. Þjóðsögur, munnmælasögur og í jólaguðspjallinu segir hann; "stendur ekki steinn yfir steini". Ekki meira að sinni en greinin er forvitnilega alla vega finnst mér það.

 


Spurningaþættir

Hafa alltaf verið vinsælir meðal þjóðarinnar og vissulega hafa þeir færst nær fólki með sjónvarpinu en þegar þeir voru í útvarpinu. Nú eru útvarpsþættirnir að mestu liðnir undir lok nema spurningaþátturinn sem hefur verið milli fjölmiðla. Skemmtilegur og fróðlegur þáttur.

Ertu skarpari en skólakrakki er spurningaþáttur á Skjá 1, gæti sjálfsagt verið skemmtilegur ef það væri annar stjórnandi, sem segir ekki alltaf sömu setninguna við rétta svar; það er bara nákvæmlega rétt hjá þér. Alveg eins og biluð plata. Fyrir utan auglýsingafarganið sem er inn á milli.

Þessi þáttur á sér þýska fyrirmynd, sem er keyrður áfram á skemmtilegan hátt, með fólki sem veit eitthvað í sinn haus. Ekki á þeim nótum sem verið hefur á Skjá 1, menn verða að hafa lágmarks þekkingu til að komast að, ekki falla út á fyrstu spurningu, eins og gerist í íslenska þættinum.

Það er svo sem engin ástæða til að vera alltaf að finna upp hjólið og í besta lagi að gera þætti að erlendri fyrirmynd en drottinn minn, það er ekki hægt að bjóða manni allt. Það er verið að kjósa lag í Júróvísion á danska sjónvarpinu. Það kostar SMS – ið 5 kr. danskar en 99.90 hér. Alltaf sama símaokrið hér.

Útsvarið er fínt, góðir spyrlar og skemmtileg leiktilþrif hjá þátttakendum. Það verður gaman að fylgjast með Fjarðabyggð og Reykjavík eigast við næsta föstudag,


Vil ekki fyrirtækismerkta jólagjöf

Hérna er austan þræsingur hiti um 2 til 3 gráður og verðurspáin er svona fram í næstu viku. Þó hitinn sé yfir frostmarki vil ég frekar hafa frost og þurrt, en það góða við þetta veður er að svell taka upp. Ég er svo heppin að strákarnir í Þjónustumiðstöðinni sækja mig á morgnana þannig að ég þarf ekki að paufast þetta í hálku og myrkri. En það dynja áfram yfir landsmenn stormviðvarnanir á landinu.
Sagt er frá í fréttum að forráðamenn danskra fyrirtækja dæli út jólagjöfum til starfsmanna sinna sem aldrei fyrr. Samkvæmt könnun Danska vinnuveitendasambandsins nemur heildarupphæðin í ár 740 milljónum dkr. eða tæpum 8 milljörðum kr. Í samskonar könnun sem gerð var árið 2005 kom í ljós að 84% fyrirtækja gáfu starfsmönnum sínum jólagjöf. Í ár er þetta hlutfall komið í 96%. Og það er ekki bara að fleiri fái gjafir. Þær eru mun dýrari í ár en áður. Hver gjöf nú kostar að meðaltali 430 dkr. eða um 5.000 kr. á móti 350 dkr. áður.
Danskir vinnuveitendur reikna með að jólaverslun í landinu í ár muni slá öll fyrri met og nema um 10 milljörðum dkr. eða vel rúmlega 100 milljörðum kr. og má ekki búast við að sama þróunin sé hér á landi, alla vega bendir ”kauplausi” dagurinn til þess?
Mér finnst góður siður að gefa starfsfólki ekki jólagjafir heldur verja andvirði þeirra til þeirra sem virkilega þurfa á stuðningi að halda. Það má vera til góðgerðasamtaka eða íslenskra einstaklinga sem hafa þurft t.d. að leita sér kostnaðarsamra lækninga erlendis. Það væri góð regla að hvert sveitarfélag hugsi um sína í þessum efnum. Ef sveitarfélagið er svo heppið að enginn þegna þess stendur í slíkra lífsbaráttu má styrkja fjölmörg samtök sem vinna á landsvísu.
Nokkrir austfirskir einstaklingar hafa þurft að leita sér lækinga erlendis í ár. Forstjórar, sveitarstjórar og aðrir sem hafa mannaforráð, hugsið til þeirra áður en þið ákveðið að senda starfsfólki ykkar auglýsingavörur, þ.e. handklæði, bakpoka eða veski með nafni fyrirtækisins og merki.

Jólatré úr Hjallaskógi

Síðast liðin 25 ár eða svo hafa jólatré úr Hjallaskógi prýtt Neskaupstað um jólin. Fyrir framan kirkjuna, sjúkrahúsið og Egilsbúð, kannski víðar. Undanfarin áratug höfum við svo sent kærum vinum okkar í Sandavogi jólatré sem prýðir bæinn þeirra. Í ár eru 6 stór tré tekin úr Hjallaskógi, 4 verða hér í bæ, eitt fer í Mjóafjörð og eitt til Sandavogs.

Þegar við fermingarsystkinin hittumst í októrber var farið upp á snjóflóðavarnagarðinn og þar rifjuðum við upp þegar við fórum í okkar fyrstu gróðursetningarferð með Gunnari Ólafssyni skólastjóra og Eyþóri Þórðarsyndi kennara, í Hjallaskóg. Sem þá var að vísu nafnlaus. Ætli við höfum ekki verið 6 til 8 ára og gróðursettum þarna þúsundir græðlinga. Við þá upprifjun kom í ljós að margir höfðu snúið græðlingunum öfugt. Eitt er víst að engu okkar óraði fyrir því þá að við yrðum hluti af þessum fallega skógi, sem Hjallaskógur er í dag og kannski var það eitthvert okkar sem gróðursetti jólatréð sem stendur fyrir fram kirkjuna í ár. Hver veit?


Jólasnjór

Það var jólasnjókoma í gærkvöldi, stórar flygsur sem svifu letilega til jarðar, svona ekta jóla. Já Jóna Harpa vildi vera komin í snjóinn til mín, ég var um tíma að hugsa um að mynda þetta og senda þér og Úrsúlu, þetta gerist sennilega ekki í Baunaveldi, eða hvað? Og þetta var ótrúlega mikið sem snjóaði, svo mikið og það eru smá snjóruðningar meðfram götunum.

Ég er búin að ákveða að vera fyrir sunnan um jól og áramót. Keypti mér farseðil báðar leiðir á netinu í fyrradag. Fer suður 21. des. og heim 3. jan. Það á að skíra hjá Jóhanni Frey og Camillu 29. des. svo ég fæ allan pakkann, barnajól og skírn.

Horfði á kvennablak í sjónvarpinu í gær þegar ég kom heim. Sýndir voru leikir frá meistaradeild Evrópskra félagsliða. Flott blak. Þetta minnti mig á þegar ég bauð Blaksambandi Íslands að senda Þróttarliðið sem landslið á Smáþjóðaleikana, að ég held á Möltu já og fyrr. Er enn fullviss um að það lið hefði skilað mörgum sinnum betri árangri en landsliðin hafa gert hingað til. En það var ekki áhugi, það var um þetta leyti sem sú hugmynd kom fram hjá einum sem telur sig sjálfskipaðan í stjórn og ráð BLÍ að velja ekki leikmenn utan Stór-Reykjavíkur í landslið, það fylgdi því alltof mikill kostnaður!

Er boðið í móttöku hjá Svæðisútvarpinu á morgun. Tilefnið er 20 ára afmæli RAUST. Það eru um 10 ár síðan ég hætti sem fréttaritari hjá þeim, var í því í 5 eða 6 ár, og núna þegar ég var að flytja og henti og henti pappírum eins og óð manneskja, tímdi ég ekki að henda fréttunum mínum og pistlum sem fóru í útvarpið! Veit ekki hvort ég nenni að fara, sé til.

Þegar þetta er skrifað eru 25 dagar, 8 klukkustundir,22 Mínútur og 53 sekúndur til jóla!


Ísland best í heimi

Á sama tíma og við erum uppveðruð af því að “Ísland sé best í heimi” lesum við að tannlæknir á Suðurnesjum hafi skrifað reikinga, falsaða, upp á 200 milljónir. Ekki í gær eða fyrradag nei á nokkrum áratugum og hafa yfirvöld vitað af þessu um um 14 ára skeið. – ekkert gert.
Sveitastjórinn í Grímsey er sakaður um að hafa stolið 13 tonnum af olíu frá Olíudreifingu. Olíuna notaði hann til að kynda húsið sitt og rekstur. Við heyrum í fréttum að það er hægt að kaupa sér skammbyssur á Íslandi. Stykkið kostar eitthvað um 200 þúsund kall. Mansal er líka orðið staðreynd hér á landi. Eina áhyggjuefni eins þingmanns Vinstri grænna er að konur skuli vera kallaðar ráðherrar! Er nema von að við kyrjum; “Ísland best í heimi”

Kynlífsferðir til Kenya

Ég er svo andlaus að ég hef ekki haft mig í það að blogga. Er samt mjög ánægð í nýja húsnæðinu utan þess að eitthvað er ég rótlaus. En hlýt að finna ræturnar aftur. Var heima í gær með ógleði og hita en er fín í dag.

Fullorðnar hvítar konur streyma nú í kynlífsferðir til Kenya, þar sem þær finna sér stæðilega unga karlmenn til þess að deila fríinu með. Get ekki stillt mig um að blogga um þessa frétt sem ég las á Vísi en þar segir frá tveimur breskum konum sem blaðamaður hitti í Mombasa. Bethan sem er 56 ára og Allie sem er 64 ára gömul. Þær eru vinkonur og búa við sömu götu í Suður-Englandi. Þær voru í kynlífsferð til Kenya. Hvað er að því. Ég hef svo sem heyrt og lesið fréttir af hvítum karlmönnum bæði íslenskum og erlendum sem streyma til Asíulanda til að kaupa sér þessa þjónustu, en það þykir mikil frétt ef konur gera slíkt hið sama. Næstum eins og ef þær koma fram í Silfri Egils.Blaðamaðurinn hitti konurnar tvær á bar í Mombasa. Hann lýsir þessu þannig að “á bar í höfuðborginni hallaði Allie hvíthærðum kollinum að öxl fylgisveins síns. Sá var vel yfir sex fet á hæð, 23 ára gamall og tilheyrði Masai ættbálknum. Hann var með ný sólgleraugu sem hann sagði að hún hefði gefið honum. "Við fáum bæði það sem við viljum. Hvað er neikvætt við það," spurði Allie. Hin, Bethan fylgdist með sínum tvítuga pilti sem var að spila billiard. Hann kom til hennar og kyssti hana. Og fékk meiri smápeninga til þess að halda áfram að spila. Reuters segir að erfitt sé að nefna tölur í þessu sambandi. Innfæddir giska á að ein af hverjum fimm hvítum konum sem koma einar til landsins séu í leit að fylgdarsveinum.

En það eru áratugir síðan svona fylgdarþjónusta viðgekkst. Ég man eftir minni fyrstu ferð til Lundúna 1965. Þá sátum við vinkournar á flottum veitingastað, þær sem með mér voru voru nokkru eldri en ég, og við næsta borð sátu nokkrar “kellingar” svona eins og ég er núna, hver með sinn fylgdarsvein. Gullfallega og myndarlega pilta innan við þrítugt. Ég man hvað ég var hissa, en síðar í ferðinni var okkur vinkonunum boðin slík þjónusta.Ég held að við gætum aukið ferðamannaiðnaðinn með því að bjóða svona þjónustu. Eigum við ekki að hætta að “gera það” fyrir ekki neitt?

 


Bráðum koma...

Vá það er aftur að koma helgi og bráum jól. Ég man þá daga að allir stórviðburðir miðuðust við jólin, fyrir eða eftir. Þá fengum við ný föt, vorum samt alltaf í fallegum fötum sem mamma saumaði. en það var gert meira fyrir jólin. Í dag eru jól allt árið. Það eiga flest allir allt sem skiptir máli, þá á ég við það sem hægt er að kaupa. Sem sagt hver helgi er jól. En sem fyrr er auðæfum heimsins misskipt, það eru alltof margir á okkar litla landi sem hafa ekkert handa á milli. Mér finnst sjálfsagt að við, ein auðugasta þjóð í heimi og jafnframt hamingjusamasta samkvæmt könnunum, látum eitthvað af hendi rakna til þeirra sem minna mega sín – en ég vil að við lítum fyrst til þeirra sem búa á Íslandi og lifa undir fátækramörkum. Svo getum við horft til Afríku eða Asíu.
Var í mat hjá Nönnu og Hjörvari í gærkvöldi. Fékk yndislegan fiskrétt. Hjörvar forðaði sér eftir matinn svo við Nanna gætum farið í “trúnó”. Yndislegt að eiga svona vini. Auðvitað bulluðum við svolítið horfðum líka með öðru auganu á enn eitt tapið hjá íslenska landsliðinu í fótbolta og vorum báðar jafn ánægðar með að Birgir Leifur skyldi komast áfram á Evrópsku mótaröðinni í golfi! Heyrðum aðeins í Brynju sem var stödd í Noregi.
Settist aðeins við tölvuna eftir að ég kom heim og fór að útbúa jólabréf. ætla að senda það nokkrum vel völdum og fækka jólakortunum verulega, en sendi auðvitað slatta í netpósti.
Kristján pípari kom og bankaði aðeins í kranann að uppþvottavélinni og allt fór af stað, það þarf ekki alltaf mikið.
Það er rétt Mæja það er stutt að fara og jafn langt í báðar áttir!

Þar sem lognið hlær svo dátt

Það væri flott að vera ungur núna og vera á skautum, það er nefnilega flughált nánast um allan bæ. Á planinu fyrir ofan hjá mér er fyrirtaks skautasvell. Og talandi um skauta þá fórum við Olla vinkona á skauta inn á Leiru alveg fram yfir þrítugt. Ég og Olla og Binni á Bakka, jú svo má ekki gleyma Gunnari skólastjóra sem skautaði fram í andlátið. En veðrið er yndislegt, stafalogn, tunglið trónir þarna uppi í öllu sínu veldi en sólin stendur stutt við núna, rétt slefar sér yfir Múlann.Ég er ekki enn búin að fá nettenginguna, rafvirkinn og píparinn eru líka ókomnir, en það skiptir svo sem ekki miklu máli. Ég geri bara eins og systa, kveiki á kertum og svo vaska ég bara upp á gamla mátann.Þasð stefnir í húsfund í vikulokin og þá verður tekin ákvörðun um hvort eigi að mála stigahúsið og skipta um teppi. Nei, nei, þetta er ekki frá mér komið, þetta hefur verið lengi á döfinni það hefur bara þurft einhvern til að pressa á málið og núna erum við þrjár konurnar í stigahúsinu komnar á flug.Fékk fyrstu alvöru heimsóknina í nýja húsnæðið í gær en þá kom Smári Geirs og við fórum yfir myndir sem verða í bókinni sem hann er að ljúka við um 50 ára sögu SVN. Flottur karl hann Smári.

Er flutt

Ég er flutt!!! Hélt að ég myndi búa þarna á Mýrargötunni þar til ég kveddi þennan heim, en margt fer öðruvísi en ætlað er. Ég kann ljómandi vel við mig þó næturnar sem ég hef sofið þarna á Nesbakkanum séu bara þrjár. Hefði aldrei haft þetta af hefði Jóhann Freyr ekki komið og verið hjá mér í þrjá sólarhringa og hreinlega bjargað málunum. Mér finnst ég vera þreyttari en eftir 48 tíma síldarsöltun, já og svolítið eldri. Vonandi fæ ég símvirkja í dag til að ganga frá nettengingu, er að stelast í þetta hérna í vinnunni. Mér er minnisstætt sem fullorðinn maður sagði við mig á dögunum þegar ég var að segja honum frá öllu sem ég væri búin að henda og ég ætti örugglega eftir að henda öðru eins. Hann sagði; ég hef alltaf sagt að fólk ætti að flytja á fimm ára fresti, þá safnast ekki allt þetta drasl sem maður saknar einskis þegar búið er að henda því! Það er snjóföl yfir öllu og bjartara fyrir vikið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur

Höfundur

Hulda Elma Guðmundsdóttir
Hulda Elma Guðmundsdóttir
Róttæk vinstri kona. Er fædd og uppalin í Neskaupstað - ekta Nobbari og haldin átthagafjötrum. Er íþrótta- og félagsmálafrík og elska ferðalög.

Tónlistarspilari

Elvis Presley - Blue Christmas

Nýjustu myndir

  • goðanes
  • img471-copy

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband