Ekki er öll vitleysan eins

Hið íslenska töframannagildi var stofnað í febrúar síðast liðnum. Þetta eru alvöru samtök eins og Rotary, Lions, Oddfellow og fleiri og fleiri karlaklúbbar. Ég segi karlaklúbbar því að stærstum hluta eru þessir klúbbar skipaðir körlum. Alvörusamtök, jú þau halda fundi einu sinni í mánuði alla mánuði ársins nema júní, júlí og desember. Íslenski klúbburinn er í alþjóðahring slíkra klúbba sem telur um þrettán þúsund félaga um allan heim!  Og hver er tilgangur félagsins, jú hann er að standa vörð um hagsmuni töframanna og er öllum sem hafa einlægan áhuga á töfrabrögðum velkomið að fræðast um starfsemina.

Ég segi nú ekki annað að ekki er öll vitleysan eins og það er gagn að þetta er á 21. öldinni því hefði þetta verið fyrir nokkrum öldum hefðu meðlimir slíkra samtaka verið brenndir á báli. Getur verið að þetta séu áhrif frá bókunum um Harry Potter? Spyr sá sem ekki veit.


Ayaan Hirsi Ali

Sómalska baráttukonan Ayaan Hirsi Ali er gestur alþjóðlegu bókmennta¬hátíðarinnar sem hófst í Reykjavík á sunnudaginn. Hún hefur verið ófeimin að láta í ljós þá skoðun sína að vestræn siðmenning stæði öðrum framar. Tiltók hún fyrst og fremst þá grundvallarhugmyndafræði vestrænna ríkja að leitast við að jafna sem mest réttindi karla og kvenna til menntunar og tækifæra á lífsleiðinni. Hirsi Ali var alin upp í strangri múhameðstrú en hefur helgað sig baráttu fyrir réttindum múslimakvenna eftir að hún flýði til Hollands fyrir fimmtán árum og hlaut þar ríkisborgararétt.

Bakgrunnur og reynsla Hirsi Ali gefa boðskap hennar aukna vigt. Orð hennar eru hugvekja sem á mikið erindi við okkur Íslendinga sem deilum nú landi með fjölda útlendinga. Nánast eins og hendi hafi verið veifað erum við Íslendingar komnir í svipuð spor og fjölmargar nágrannaþjóðir okkar voru í fyrir mörgum árum eða jafnvel áratugum. Seint verður það brýnt um of að íslensk stjórnvöld hafa öll tækifæri til að afstýra að sömu mistök verði gerð hér og urðu svo víða á Vesturlöndum í málefnum innflytjenda. Við erum í þeirri einstöku stöðu að geta horft um öxl og lært af því sem fór úrskeiðis annars staðar. – En gerum við það?

Þegar upp er staðið er hornsteinninn í boðskap Hirsi Ali að Vesturlönd, og þar með talið Ísland, eiga að hafa nógu mikla trú á eigin samfélagi til að gera þá kröfu til innflytjenda að þeir verði þar fullgildir þegnar með tilheyrandi lífsreglum. Það nægir ekki að þeir aðlagi sig samfélaginu, þeir verða að samlagast því og verða hluti af heildinni.
Vestræn siðmenning er langt í frá fullkomin en eins og Hirsi Ali bendir á er hún það skásta sem er í boði.


Það er nú það

Nú hefur komið í ljós að fríkortin í strætó Reykjavíkur eru sum hver fölsuð og aðrir en rétthafar nota kortin. Svo magnað er svindlið að sérstakir verðir hafa verið settir í vagnana til að reyna að koma í veg fyrir það. Af hverju í ósköpunum er bara ekki frítt í strætó? Í Þórshöfn í Færeyjum er frítt í strætó þetta árið. Og það kunna íbúar staðarins að meta því farþegum með vögnunum hefur fjölgað umtalsvert. Og talandi um fríar ferðir. Þær eru fríar innan Fjarðabyggðar. Á heimasíðu sveitarfélagsins er sagt frá þeim og bent á áætlunina en það hefur enginn sem ég hef talað við getað opnað skjalið.

Berglind Ásgeirsdóttir nýskipaður ráðuneytisstjóri er í spegli DV í gær. Þar kemur fram að hún sé meðal þeirra sem íslendingar vilja sjá sem næsta forseta landsins, samkvæmt könnun fyrr á þessu ári. Ég tek undir það af heilum hug, hún yrði fínn forseti.
Og meira úr DV. Tuttugu manns voru beðnir að nefna spilltustu stjórnmálamennina í landinu. Þeir sem þar voru nefndir komu mér ekki á óvart en það kom mér verulega á óvart að fyrrverandi bæjarstjórinn okkar hafi verið meðal þeirra sem kitluðu listann, eins og segir í blaðinu.

Ég er búin að búa til sönghefti fyrir kvennaferðina til Tenerife. Mikið rosalega held ég að verði gaman og ég hlakka verulega til. Í söngheftinu eru flest þau lög sem sungin eru á gleðistundum og fyrst skal þá telja Blíðasti blær og það er auðvitað á forsíðu.

Í pappírs tiltektinni hér á heimilinu í dag rakst ég á mörg gömul og þó ekki gömul blöð úr blakferðum okkar Gentanna. Það var auðvitað mikið gaman að lesa þau og rifja upp ferðirnar, á Akranes, Siglufjörð og Akureyri. Brandarar, vísur og sögur. Geymi þetta til elliáranna, ylja mér þá við minningarnar. Hoppum kátar upp í rútu...


Er Jón kominn heim?

Stafsetningarvilla á netinu varð til þess að norsk fjölskylda fór óvænt í sumarfrí til lítils bæjar í Suður-Frakklandi, að því er starfsmenn flugvallar þar greindu frá í dag. Fjölskyldan taldi sig hafa bókað flug til grísku eyjarinnar Rhodos, en þess í stað láð leiðin frá Ósló, um London og til Rodez, höfuðstaðar Aveyron-héraðs í Frakklandi. Að sögn flugvallarstarfsmanna í Rodez gera á ári hverju um tíu ferðamenn þessi mistök. Ég þekki einn sem keypti sér miða að hann hélt, til Þórshafnar í Færeyjum en lenti á Þórshöfn á Langanesi!

Sagt er að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. Gæti það verið hugsun fyrrverandi utanríkisráðherra sem fer hanförum yfir því að íslendingur sem starfað hefur sem friðargæsluliði í Írak, kallaður heim? Af máli Valgerðar má ráða að allt stríðið í Írak standi og falli með þessum eina íslendingi, við erum máttug það veit ég, en að láta sér detta þetta í hug.

Munið þið þegar Mjöll Hólm söng lagið Jón er kominn heim? Ég man það vel því ég hélt lengi vel að hún væri að syngja um Jón minn, nýkominn heim úr Norðursjónum, ennþá klístraður af síld og af kráarröltinu í Skagen! Núna held ég að hún sé að syngja um Jón Sigurðsson, ekki forseta, heldur skammtíma ráðherra framsóknarflokksins, sem er víst að gerast skólameistari í Fjarðabyggð. Lagið verður nefnilega alltaf til og hægt að stílfæra það á alla Jóna en þessir Jónar verða ekki alltaf til. Ekki veit ég hvort aðkoma þessa fyrrverandi ráðherra og formanns Framsóknarflokksins verður vatn á myllu frammara í Fjarðabyggð. Það held ég ekki, en það er þó aldrei að vita. Hvað sagði ekki vinur minn á Húsavík; að vera framsóknarmaður er fæðingargalli.


Um krydd, trú og auglýsingar

Þetta eru nú meiri bobbingarnir á kryddpíunni og horgrindinni, Victoriu Beckham, Það liggur við að hún slái Dolly Parton út og er þá mikið sagt. Þessum bobbingum flaggar hún svo ákaft að maður gæti haldið að trollið allt væri að fara út, hlerarnir og allt heila klabbið. Einhver gæti haldið að þetta væri öfund en svo er alls ekki. Stelpan er flott nema...

Þegar ég var í Færeyjum var ekki hjá því komist að trúmál bæru á góma. Það hefur verið sagt að þar sé trúboð í öðru hvoru húsi. Það er nú orðum aukið en vissulega fer mikið fyrir trúmálum í færeysku samfélagi. Biskupsval fer fram í Færeyjum í desember og í gær fór eins og ég hafði spáð, fimmti frambjóðandinn kom fram, kvenprestur að nafni Marjun Bæk, þannig að valið stendur nú á milli hennar og fjögurra karlpresta. Það er nú næsta víst að hún verður ekki kjörin, en mér finnst framkoma hennar bera vott um meira jafnrétti í Færeyjum.

Og meira um trúmál. Jesús má ekki nota farsíma! Hann á sem sagt að vera ennþá á frumstigi. Hverslags skinheilagleiki er þetta? Við erum að tala um auglýsingu, bara flotta auglýsingu, en biskupinn segir hana smekklausa og undrast að síminn skuli leggjast svona lágt. Ekki heyrðist múkk frá biskupnum þegar skopmyndirnar af Múhameð spámanni birtust í dönsku blöðunum. Var það ekki líka trúar-last? En hvernig var það, var Jesús ekki skegglaus lengi fram eftir, jafnvel fram á 17. öld, en auðvitað er sjálfsagt að hann hafi látið sér vexa skegg, enda engar rafmagnsrakvélar eða Gillette 3 komnar þá!


Úr einu í annað

   Ég fékk strax viðbrögð við bloggi mínu um göturnar í Neskaupstað. Var sagt frá slösuðum manni sem þurfti að komast á sjúkrarúsið, honum sagðist svo frá að honum hefði liðið bærilega þangað til komið var að flugvallarafleggjaranum. Samkvæmt mínum heimildum er nú verið að vinna í þessu máli. En hvað skyldi vera að frétta af leikskólamálinu hér í bæ? Í fundagerðum bæjarstjórnarinnar er ekki stafur um málið og eykur það ekki trúverðuleika á nefndina sem er að vinna að því. Bæjarbúar eiga rétt á að fá að fylgjast með.

   “Stjórnarher Sri Lanka, sem alla jafna stendur í ströngu við að berja niður uppreisn Tamíla í landinu, vinnur nú að því að ferja fólk frá steinvirkinu Sigiría, eftir að vespur hafa ráðist á tugi ferðamanna þar. Virkið þekkt fyrir fjölda vespa, en þær eru óvenju árásargjarnar núna og rekja menn það til mikilla hita undanfarið og ónæðis frá ferðamönnum. Sumir heimamanna telja vespurnar holdgerving kóngsins Kaspía, sem byggði virkið árið 475 eftir krist”.

   Það var ekki hitanum fyrir að fara í Þórshöfn í Færeyjum en þar hafði fólk aldrei fyrr upplifað annan eins fjölda af vespum. Konan sem ég bjó hjá þorði ekki að opna glugga nema ég væri heima og að auki keypti hún sér einhverskonar rafmagnavespubana. Hún þorði ekki að nota hann!

   Ætlaði að skipta um útlit á síðunni hérna en breytti svo aftur ætli ég haldi mig ekki við Rembrant um sinn.


Haustlitir

Jæja þá loksins komin heim til að vera. Ók frá Reykjavík og hingað heim í gær, ágætis ferðalag í skikkanlegu veðri. Athygli mín var svo vakin á því þegar við ókum inn í bæinn að nú værum við að koma á verstu vegina alla leið frá Reykjavík, ef kaflinn upp úr Jökuldalnum er undanskilinn. Og mikið rétt, þetta er satt. Verður maður virkilega svo ómeðvitaður um umhverfi sitt að maður taki ekki eftir þessu fyrr en manni er bent á það? Á götunum í Fjarðabyggð er bót við bót, illa saumuð, og auðvitað til háborinnar skammar. Á sama tíma státum við okkur af því að eiga lengstu vatnsrennibraut landsins. En hún var auðvitað gjöf! Sé mér til mikillar ánægju að skrif á heimasíðu Fjarðabyggðar hafa stórlagast, það eru nýjar fréttir nánast alla virka daga.

Það er komið haust á því er enginn vafi. Skógarþrestirnir komnir á kendirí, ennþá er það bara kendirí, en fljótlega verða þeir fullir og fljúga á allt sem fyrir er. Það kom einn hérna á eldhúsgluggann í morgun og gerði mér sko verulega bilt við. Hann drapst ekki, mér til mikillar undrunar, því höggið var mikið. Laufin eru farin að falla og fjöllin farin að skipta um lit. Það var meira að segja grátt hérna á efstu tindum í morgun.

Ég hef ekki enn komið mér í gírinn til að skrifa um veru mína í Færeyjum. Þá á ég við hvernig mér fannst að vera í skólanum, mannlífið, samstúdentarnir og fleira. En það hlýtur að koma. ;Hon gjørdi okkum, og so nógv onnur fólk glað og tá hon var á lívi tóku vit fyri givið hennara kærleika til lívið, látur og stuttleika, sagði Harry prins um móður sína, Díönu. Það var reglulega gaman að sjá myndina um Díönu sem sýnd var í sjónvarpinu þegar 10 ár voru liðin frá dauða hennar. Enn seljast myndir af henni sem heitar lummur og verður svoleiðis örugglega lengi enn.

Hef verið að reyna að senda póst á Jóhönnu í Jóhannesar Paturssonar götu 42 í allan morgun en fæ hann alltaf endursendan. Jóhanna ef þú lest þetta sendu mér þá netfangið þitt, þú hefur mitt.


Vá – kúl – vá

Ég ók með Jónasi vini mínum Ness til Reykjavíkur á þriðjudaginn.  Það hefði verið gaman að telja hvað hann sagði oft vá og kúl og hvað mörgum hann heilsaði á leiðinni, en ferðin var frábær. Við stoppuðum á helstu stöðum ferðalanga, fengum veitingar á Akureyri hjá Elmu. Stoppuðum á Blönduósi og í stað þess að fara um Hvalfjarðargöngin, ókum við Hvalfjörðinn. Vorum komin í Kópavog um níu leitið um kvöldið og fengum auðvitað nóg að borða hjá Ríkey og Silla. Reglulega kúl ferð!Fór svo í gær að skoða nýja barnabarnið mitt hjá Camillu og Jóhanni Frey. Yndislega litla stúlku, en hvernig á annað að vera? Jóhann Nökkvi hefur stækkað ótrúlega mikið og þroskast, þó er bara mánuður síðan ég sá hann síðast. Maríu Mist hitti ég svo á föstudaginn.Við systurnar fórum á flakk í dag, í Smáralindina og Kringluna, á þessa staði sem okkur leiðist báðum. Það sem bjargaði deginum var súpa og brauð í Kaffihúsinu hjá Söndru og Magga.Er ekki búin að panta mér far austur, á erfitt með að ákveða það vegna þess hvað netfargjöldin passa illa við áætlunarferðirnar frá Egilsstöðum og heim.

Fáfræði

Er þetta ekki eitt besta dæmið sem hægt er að sjá um fáfræði eða bara heimsku?  Þetta er á Vísir.is “Sex hinna slösuðu voru sendir á sjúkrahúsið á Akureyri, Norðfirði og Neskaupstað”. Eitt er víst að þetta er ekki í fyrsta skipti sem fréttamenn staðsetja fjórðungssjúkrahús Austurlands bæði í Neskaupstað og á Norðfirði, það gerði fréttamaður útvarps fyrir nokkrum árum þegar hann fjallaði um fjölda fæðinga á landinu, þá var sjúkrahús bæði á Norðfirði og í Neskaupstað

Ég er LATTE!

Ég held að ég hafi bloggað yfir mig í Færeyjum nema þörfin fyrir að tjá mig hafi verið svona rík. Allavega er ég löt við það þessar stundirnar. Var í golfmóti í dag og spilaði bara vel, ætti sennilega að æfa sem minnst því þá er ég best. Eins og á vorin þá spila ég eins og engill en þegar líður á sumarið þá fer allt spiliríið til and... Spilaði með Nönnu, Kötu og Pim og vorum við góður kvartett. Það var kaffihlaðborð í skálanum og þvílíkar kræsingar, það verður ekki á þær logið eldhúsmellurnar okkar.Las bloggið hennar Jónu Hörpu í dag og sá þá að hún hafði tekið þátt í einhverri könnun sem nefnist kaffiprófið. Það sem hún fékk út úr því var að hún er TE. Ég mátti auðvitað til með að prófa þetta og þetta var útkoman: 

Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur

Höfundur

Hulda Elma Guðmundsdóttir
Hulda Elma Guðmundsdóttir
Róttæk vinstri kona. Er fædd og uppalin í Neskaupstað - ekta Nobbari og haldin átthagafjötrum. Er íþrótta- og félagsmálafrík og elska ferðalög.

Tónlistarspilari

Elvis Presley - Blue Christmas

Nýjustu myndir

  • goðanes
  • img471-copy

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband