25.7.2007 | 08:59
Sveitó í Færeyjum og á landsbyggðinni á Íslandi
Jæja þá er ég komin aftur. Fríið frá blogginu var ansi gott en stundum átti ég erfitt með að hemja mig. Langaði að skrifa um ýmis mál sem hafa komið upp í sveitarfélaginu mínu, Fjarðabyggð. Ég tel að það sé aðeins af hinu góða að hafa áhuga á málefnum þess, ég er því miður oftar en ekki á annarri skoðun en þeir sem ráða för. Oft hef ég rétt fyrir mér en ekki alltaf. Málefni nýs leikskóla kom fyrir á fundi bæjarráðs í gær. Í umsögn stendur þetta: Umsögn arkitektur.is og minnisblað bæjarstjóra vegna staðarvals leikskóla á Norðfirði. Bæjarráð sammála um að fá lögfræðilegt álit á þeim kostum sem fyrir hendi eru. Mér er spurn hvað hefur lögfræðilegt álit með þetta að gera? Svona eru flestar bókanir sveitarfélagsins, ekki bara míns sveitarfélags, flestra þeirra. Annað hvort þarf maður að vera haldinn spádómsgáfu eða miðilshæfileikum til að skilja þær.
Eftir viku sest ég á skólabekk í Fróðskapasetrinu í Þórshöfn í Færeyjum. Ég er búin að hlakka lengi til en nú hefur smá kvíðahnútur sest að í mallakút. Ég veit samt að þetta fer allt vel og ég verð margs fróðari um land og þjóð eftir þessa mánaðardvöl. Allar ferðir mínar til Færeyja til þessa hafa verið vikuferðir út og heim aftur. Farið frá Seyðisfirði, fyrst með Smyrli og síðar með Norrænu. Ætla örugglega að blogga frá Þórshöfn. Núna er fréttamaður RUV að tala frá Færeyjum og hún segir ekki rétt frá, að öðru leyti en því að það er rigning og kalt. Hún segir að það sé sveitó í Færeyjum svona eins og út á landi á Íslandi. Athugið að það erum við skattborgarnir sem greiðum þessum fréttamanni laun.Þó ég sé byrjuð aftur þá efast ég um að ég nenni að blogga daglega, en við sjáum til.Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.7.2007 | 17:43
Byrja aftur á þriðjudaginn
Vegna fjölda áskoranna - alltaf frá sömu manneskjunni - ætla ég að bryrja að blogga aftur á þriðjudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.4.2007 | 12:53
Ég vil konur til valda
Ég held að ég sé jafn spennt fyrir forsetakosningunum í Frakklandi og Alþingiskosningunum hér á landi. Þetta leiðir hugann að því að það er farið að meta konur betur sem hæfa leiðtoga, samanber konurnar sem eru formenn jafnaðarmannaflokkanna í þremur Norðurlandanna. Og yrði það ekki frábært ef Ségoléne Royal yrði forseti, fyrst kvenna í Frakkalndi og Hillary Clinton í Bandaríkjunum. Það toppaði svo auðvitað allt ef Ingibjörg Sólrún yrði forsætisráðherra Íslands.
Hafið þið ekki heyrt drauminn hans Kristjáns Möller? Ekki. Krisjáni dreymdi að kosningarnar væru afstaðnar og á mánudagsmorgni hringdi hann í stjórnarráðið og spurði eftir Geir Haarde forsætisráðherra. Konan sem svaraði í símann svaraði á þessa leið: Geir er hættur, það hafa orðið forsætisráðherraskipti, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er nú forsætisráðherra. Næsta dag hringdi Kristján aftur og líka tvo næstu daga. Fimmta daginn sagði konan í símanum: Ég þekki þig orðið, skilurðu ekki hvað ég hef verið að segja? Jú sagði Kristján Möller, ég skil það vel en mér þykir bara svo ofboðslega gaman að heyra þig segja það!
Það er verið að jarðsetja Jeltsín í dag. Hann verður jarðsettur í Novodevitsjí kirkjugarðinum í Moskvu, þar sem margir þekktir leikarar og rithöfundar hvíla, en ekki á á Rauða torginu líkt og ýmsir fyrrverandi leiðtogar Sovétríkjanna. Ég fór í þennan kirkjugarð fyrir nokkrum árum. Það kostaði nokkrar rúblur að fara inn en það var fyllilega krónanna virði. Þarna eru þeir stórfenglegustu minnisvarðar sem ég hef séð og ótrúlegt úrval höggmynda. Þarna er t.d. Krjúsjeff jarðsettur en legsteinninn er í anda byggingarlistar sem Krúsi hafnaði. Leiðsögumaður okkar sagði að legsteinninn væri svona í hefndarskyni því hann hefði hafnað tillögu arkitekts um ákveðna byggingu. Sá hinn sami var svo fenginn til að gera legstein Krúsa. Rasia Gorbatsjov er þarna í frekar stærri útgáfu en hún var í lifanda lífi og einn frægasti flækingur Moskvuborgar er þarna ansi myndarlegur með hund sé við fætur. Flottasti legsteinn var þó á leiði flugvélaframleiðandans Aeroflot, auðvitað flugvél sem var að hefja sig til flugs. Þarna voru líka geymdur fjöldinn allur af öskukerjum. Þar voru bara miðar á framhliðinni, svona eins og merkingar á einhverju drasli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.4.2007 | 06:23
Örlítið meira af pólitík
Ég var að vinna á skrifstofu míns gamla blaðs í gær og rosalega fannst mér gaman þó svo að ég hafi verið í öðru hlutverki en áður. Ég gaf mér tíma til að skoða gamlar myndir og rifja eitt og annað upp. Ég fyllist alltaf stolti þegar ég hugsa til þess að það var ég sem stóð fyrir því að þetta skrifstofuhúsnæði yrði keypt handa gamla blaðinu okkar. Þegar hætt var útgáfu Austurlands eftir 50 ár þá hætti útgáfa eina yfirlýsta pólitíska landsmálablaðsins.
Það verður kátt í höllinni þegar öll kosningarloforðin verða uppfyllt. Allt eintóm sæla sama hverjir komast að. Loforðin eru ekki spöruð og kannski engin ástæða til, það er alsendist óvíst að þau þurfi að uppfylla. Mér finnst Bakþankar Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu í gær frábærir. Þar líkir hann stjórnmálamönnum við alkóhólista sem þarf að fara á 90 fundi á 90 dögum til að ná bata.
Sagt er að fyrir alkóhólista sem langar að snúa frá villu síns vegar og ná góðum bata sé hollt að fara á 90 AA-fundi á 90 dögum. Í aðdraganda kosninga hegða flestir stjórnmálamenn sér samkvæmt þessari forskrift; þeir duglegustu ná allt upp í 180 fundum á 90 dögum. Eins og alkóhólistar eru þeir fullir með góðan ásetning og sjá framtíðina í rósrauðum hillingum og lofa bót og betrun á öllum sviðum. Það heitir í AA-fræðum "að vera á bleiku skýi". Allir alkóhólistar sem hafa náð árangri í baráttunni við breyskleika holdsins vita þó að góður vilji gerir enga stoð og allt hálfkák er einskis virði.
TÓLF SPORA KERFIÐ nota alkóhólistar með góðum árangri til þess að snúa lífi sínu til betri vegar. En hvorki meira né minna en 6 spor eða helmingur þessara 12 spora fjalla um þá iðrun og yfirbót sem raunverulegur bati byggist á.
FJÓRÐA SPORIÐ hljóðar svo: "Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar." Sem þýðir að maður verður að viðurkenna mistök sín án þess að reyna að réttlæta þau eða draga úr alvöru þeirra. Sá maður er ekki á batavegi sem kallar þjófnað "tæknileg mistök" eða talar um að "rangar upplýsingar" hafi ráðið því að hann samþykkti að ráðast með vopnum á bláókunnugt fólk.
NÍUNDA SPORIÐ hljóðar svo: "Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust svo framarlega sem það særði engan." Hér breytist sú einlæga iðrun sem 4. sporið fjallar um í raunverulega yfirbót sem felst í því að alkinn reynir að bæta fyrir það sem hann hefur gert öðrum eða frá þeim tekið. Stjórnmálamaður í raunverulegum bata mundi til dæmis flýta sér að skila aftur þeim eftirlaunakjörum sem hann sjálfur skammtaði sér úr vasa grandalausra kjósenda sem treystu honum í blindni. Hann mundi fjarlægja stjórnmálaflokkinn sinn frá gulljötunni sem hann leiddi hann að í ríkisfjárhirslunni og halda honum til beitar á hinum sameiginlega afrétti landsmanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2007 | 11:00
Örlítið af pólitík
Efsti maður á lista Frjálslynda flokksins var á kaffistofunni þegar ég kom við þar í gær. Þegar ég birtist sagði sá sem fyrir var fyrir utan frambjóðandann; þarna kemur Samfylkingarkonan. Frambjóðandinn sneri sér að mér og heilsaði og spurði af hverju ertu ekki með okkur? Af því að þið eruð svo ruglaðir svaraði ég um hæl. Lesturinn sem ég fékk um Ingibjörgu Sólrúnu og varaformanninn, kvótaerfingjann, eins og hann kallaði hann, er ekki eftir hafandi.
Af hverju tala frambjóðendur F, D, VG og B svona illa um formann Samfylkingarinnar. Er það vegna þess að þeir óttast hana, eru hræddir við skarpskyggni hennar, mælsku, eða hvað er það? Óttast VG, Samfylkinguna vegna þess að þeir vildu ekki vera með á sínum tíma, sjá þeir eftir því?. Ég veit það satt að segja ekki og ætla ekki að velta mér uppúr því. Ég ætla að kjósa Samfylkinguna af því að hún kemst næst mínum skoðunum og þar er ekkert alræðisvald eins og hjá VG eða sjöllunum.
Ung vinkona mín er að lesa Stelpuna frá Stokkseyri. Hafi hvarflað að mér að kjósa VG sagði hún þá hvarf sú hugsun eins og dögg fyrir sólu þegar ég las um framkomu Steingríms J, Hjörleifs Gutt og Ólafs Ragnars gagnvart henni. Þvílíkt framkoma. Mér var eins farið þegar ég las bókina, ég hafði þó starfað í Alþýðubandalaginu með þessum mönnum en þekkti þá ekki betur en svo að framkoma þeirra gagnvart Margréti kom mér í opna skjöldu og þó!
Frjálslyndi frambjóðandinn í kaffistofunni í gær klykkti út með því að segja þegar ég sagði honum frá þessari vinkonu minni; Margrét, hvað er hún að gera núna, ferðast með Olíudrottningunni. Málefnalegt eða hvað?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2007 | 12:38
Meira frá Álafossi
Ég sagði ykkur um daginn frá fyrsta sólarhring okkar vinkvennanna á Álafossi. Best að ég haldi aðeins áfram. Við vöknuðum á tilsettum tíma næsta morgun. Fórum í morgunmat og síðan í verksmiðjuhúsið. Þegar inn kom lá við að það liði yfir okkur af lyktinni sem þar var. Lyktin í sveitinni á sunnudaginn var eins og Channel 5, miðað við það sem tók á móti okkur þarna.
Við gáfum okkur fram við verkstjórann sem setti okkur á sitt hvorn staðinn, okkur til mikilla vonbrigða. En síðan var mér kennd handtökin. Ég hafði ekki staðið mjög lengi við verk mitt þegar ég hentist af stað á snyrtinguna með æluna í hálsinum. Stuttu seinna kom Olla frá hinum enda hússins. Þetta hélt áfram fram eftir degi og þessu fylgdi mikill höfuðverkur. Mér hefur oft verið hugsað til þess að þarna virtust engar kröfur gerðar um hollustuhætti, því þetta var ekki mönnum bjóðandi.
Nú við þraukuðum þennan dag og nokkra þá næstu. Eftir hálfan mánuð vildum við fá eitthvað útborgað, enda staurblankar. Þá var sagt; nei þið fáið ekkert útborgað fyrr en eftir mánuðinn, en þið getið tekið út hérna í sjoppunni. Þetta fór nú alveg með okkur. Vissulega tókum við út í sjoppunni en okkur vantaði peninga til að fara í bíó, en við höfðum kynnst strák þarna sem átti bíl. Þá var okkur sagt af þeim sem kunnu á kerfið að við skyldum bara taka út sígarettur og selja þær með einhverjum afslætti, þannig gætum við fjármagnað bíóferð. Þetta gerðum við og gættum þess eftir þetta að taka reglulega út sígarettur og sælgæti, en þess var líka gætt af hálfu vinnuveitandans að við tækjum ekki of mikið út.
Það var stórbrotið fólk þarna. Júgóslavi sem gjarnan reikaði nakinn um ganginn í bragganum kvartandi yfir áhugaleysi kærustunnar á kyndlífi, færeysk blómarós sem gjarnan fór nakin í sundlaugina á staðnum. Þegar það gerðist var eins og hent hafi verið bráð fyrir hákarla svo mikill var æsingurinn í karlpeningnum þegar hún hoppaði út í. Við fórum bara einu sinni í sund.
Það gekk fjöllunum hærra í borðsalnum að við værum báðar óléttar. Það væri ekki eðlilegt hvað okkur var alltaf óglatt. Við lögðum á ráðin að komast burtu og þá heyrðum við auglýst eftir fólki í fiskvinnu í Vestmannaeyjum. Við strukum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2007 | 08:52
Komin aftur - allavega í dag
Það ætti að setja mig í útlegð þegar kosningar nálgast. Eitthvað þangað sem ég get ekki látið skoðanakannanir eða annað hafa áhrif á líðan mína. Fyrir austan sól og sunnan mána. Mér er ekki sjálfrátt en hef þó sloppið við að vera í eldlínunni, mér fellur betur að vera baksviðs. Með þessum skrifum er þá bloggbindindið rofið. En ég ætla ekki að blogga um pólitík og ekki nema þegar ég er í skapi til þess.
Í endaðan mars sótti ég um að komast á námskeið í færeysku hjá Fróðskaparsetrinu í Þórshöfn í Færeyjum, en Fróðskaparsetrið er háskóli Færeyinga. Þetta er sumarnámskeið og tekur aðeins 30 nemendur. Ég var á síðustu stundu með umsóknina en náði að senda hana í tölvupósti á síðasta snúningi. Fékk svo svar á föstudaginn um að ég hafi verið tekin á námskeiðið. Varð ofsalega ánægð en svo læddist að mér einhver kvíðatilfinning og hugsun sem þessi; í hvern andskotann ertu nú búin að koma þér?En þessi hugsun stóð stutt yfir. Ég er búin að kaupa mér flugfar til Færeyja þann þrítugasta og fyrsta júlí en námskeiðið byrjar 1. ágúst. Það var freistandi að fara með Norrænu fyrir Ólavsvökuna en ég nennti ekki að standa í því. Þannig að þarna kem ég beint í skólann. Fæ gistingu prívat með aðgangi að eldhúsi, baði og að ég held sjónvarpi. Nú orðið hlakka ég bara meira til en áður.
Ég veit auðvitað ekki hvað réði úrslitum um að ég komst að, ekki eru það prófgráðurnar mínar, kannski það að ég tiltók að ég hafi fyrst komið þangað 1969 og hvað oft síðan hef ég ekki tölu á. Það fólk sem ég þekki á Eyjunum átján er yndislegt. Ég verð þó að taka fram að allir vinir mínir þarna, eru á Vogey, en ég á ekki von á öðru en að allir færeyingar séu gott fólk. En ég veit þó að það er nákvæmlega eins og á Íslandi, misjafnt eftir búsetu. Ég er líka viss um að fólkið sem býr í Scarborough er einstakt, betra en aðrir íbúar Englands.
Það er kalt en stutt í að runnar fari að springa út. Fór tvo golfhringi á sunnudaginn og fann vel fyrir því. En það er ekki hægt að leika golf í Færeyjum. Það verður það eina sem ég á eftir að sakna úr sumarveðrinu hérna fyrir utan þig!. En ég á góðan regnfatnað!
Veistu að mykjulyktin í sveitinni nær alla leið hingað út í bæ og var nánast að kæfa mig á sunnudaginn. Hvað segja menn almennt við þessu er þessi mengun í lagi?Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.4.2007 | 20:01
Ég fer í fríið...
Að hætta að blogga svona skyndilega er eins og að fara án þess að kveðja. Mér líkar hvorugt og biðst afsökunar á að hafa ekki gefið skýringu á fjarveru minni. Satt að segja þá fékk ég bara svo skyndilega upp í kok á þessum skrifum að ég gat ekki meira. Las á bloggi vinar míns sem er líka kominn í frí að þetta væri íþrótta sem maður á að iðka á veturna. Ég er sammála og því ætlað ég að taka mér langt sumarfrí.
Komi hins vegar upp sú staða að ég verði að springa af frásagnargleði eða geðillsku þá auðvitað gríp ég til bloggsins, því eins og þið vitið er engin regla án undantekninga og þann rétt áskil ég mér.
Síðustu dagar hafa verið hreint út sagt yndislegir en stundum erfiðir. Hjá mér hefur verið margt í heimili og gestagangur mikill. Því er ég nú eins og Palli einn í heiminum og sakna fjörsins. Framundan er stutt vinnuvika og ýmis hliðarstörf bæði launuð og ólaunuð. En það er farið að vora ansi mikið þó svo að síðasti þriðjudagur með 22°hita hafi verið sýnd veiði en ekki gefin. Snjókarlarnir í garðinum hjá mé sem nú eru orðnir hauslausir bera þess vitni. Hlý kveðja alla leið frá Barbados yljaði mér líka um hjartarætur.
Gangið á Guðs vegum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.3.2007 | 11:01
Sumarhiti
Það er ótrúlegt að núna klukkan tíu að morgni skuli hitastigið vera komið upp í 12°. Það er jú síðasti dagur marsmánaðar. En Guð láti á gott vita fyrirgefið skíðiðkendur. Það styttist í páskana og veðurspáin er góð hér eystra hvar annars staðar þar sem lognið hlær svo dátt hlakka til að fá heimsókn um páskana og það er þéttskipuð dagskrá í Fjarðabyggð fyrir þá sem koma til annars en að heimsækja ættingja og vini.
Fór með Önnu og Gísla í Egilsstað í gær. Það var ágætisferð, alltaf gott aðskreppa út fyrir bæjarmörkin, þó það sé bara í Egilsstaði.Þeir fá til dæmis ókeypis auglýsingu í útvarpi allra landsmanna, fjórum sinnum á dag, það er þegar sagt er frá hitastigi á landinu. En þessi ferð vakti upp margar spurningar t.d. hvað Héraðsmenn eru góðir í að koma sé á framfæri. Svæðisútvarp Austurlands, sem gæti hæglega heitið Útvarp Egilsstaðir, af hverju í ósköpunum eru þessir endalausu pistlar frá Höfn. Tilheyrir Höfn ekki Suðurkjördæmi núna? Það var sagt hér í eina tíð að starfsmenn svæðisútvarpsins skryppu gjarnan út á Kaupfélagsplanið eð í menntaskólann ef þeim vantaði viðmælendur, kannski það sé svoleiðis ennþá. Ég hef fyrir nokkuð löngu hætt að hlusta á svæðisútvarpið, les frekar fréttir dagsins á netinu. Ég veit þó að það er ágætis mannaval þarna, en er það einhver lenska að ráða bara héraðsmenn til starfa. Fyrirgefðu Ásgrímur Ingi, þú verður víst að teljast með þeim!
Þegar upp er staðið þá er það ekki svæðisútvarpinu að kenna hvað Fjarðabyggð er léleg að koma sér á framfæri. Í fyrsta lagi þá höfðum við afspyrnu lélegan kynningarfulltrúa og því miður virðist sá sem við tók vera litlu betri. En sjáið þið þetta er mín skoðun. en ég veit og þess vegna kem ég þessu áframfæri, að ég á mörg skoðanasystkini.
Það er ýmislegt sem Egilsstaðir hefur fram yfir okkur hér í Fjarðabyggð og er það bara í besta lagi. En ég vil sem skattgreiðandi í Fjarðabyggð að okkar málefnum sé komið á framfæri, í það minnsta í miðli þeim sem á að heita Svæðisútvarp Austurlands. En það er náttúrulega undir talsmanni sveitarfélagsins komið. - Er að fara að horfa á leik ÍA og Fjarðabyggðar, vona auðvitað að mínir menn standi sig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.3.2007 | 12:54
Sérkennileg framboðsmál
Ný stjórnmálasamtök hafa líka komið sínum skoðunum á framfæri. Þau ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum. Helsta baráttumál þessara samtaka verður að koma flugvellinum burt úr borginni. Hvað skyldi þau fá mörg atkvæði frá landsbyggðinni en það er fólkið sem þar býr, sem notar flugvöllinn. Vonandi ekki neitt og það vilja ekki allir Reykvíkingar flugvöllinn burt úr borginni. Það er mjög sérstakt að ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum og gera flugvöllinn að aðalkosningarmálinu, vægast sagt.
Hvað er það sem gerir það að allt í einu er svo eftirsóknarvert að komast á þing? Er almenningur farinn að sjá að það gæti nú verið ansi þægilegt að sitja þar? Góð laun, góð frí og ýmis hlunnindi. Mosakommarnir virðast enn vinna á, nú í NV kjördæminu. Kannski hafa það verið mistök að bjóða ekki fram róttækann kvennalista. Því það virðist vera sem konur ætli að fylkja sér um Mosakommana. Ég elska þetta orð. Setti húsið mitt aftur á sölu í dag. Það verður núna auglýst hjá Hóli á Reyðarfirði. Hæ, hæ á Hóli.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Vangaveltur
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.9.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 160884
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar