28.3.2007 | 10:45
VG - Mosakommar
Hef verið alveg agalega löt við bloggið, finnst sem ég hafi ekkert sérstakt að segja er bara alveg flöt ein og staðinn bjór.Ég man að ég vildi aldrei bjór í könnu eða glasi þá fannst mér hann vera flatur. Ég man eftir að hafa notað þetta orð fyrst úti í Þýskalandi fyrir rúmlega 30 árum og ég man alltaf hvað Sveini á Dalatanga fannst þetta flott lýsing á stöðnum bjór, flatur.
Ég las alveg yndislegt orð um VG Mosakommarnir. Þetta er bara tær snilld og ekkert annað. Það er Spámaðurinn á horninum sem skrifar þetta í Viðskiptablaðið. Mosakommar, þetta er alveg yndislegt orð. Og það fékk mig til að blogga smávegis.
Hassi vinur minn í Sandavogi er búinn að selja Tóru. Nei, ekki konuna sína, skipið sem hann hefur stýrt síðan 1988. Skipið var selt til Nígeríu og þykir mér ótrúlegt annað en Hassi sigli því þangað sjálfur. Og meira frá Færeyjum. Í litlum bæ á Vogey sem heitir Bö bjuggu 1. febrúar s.l. rúmlega 70 manns. Það sem er merkilegt við íbútöluna er að 40% af íbúunum er undir 20 ára aldri. Ég man þegar ég kom í fyrsta skipti til Bö fyrir tæplega 40 árum bjuggu þar að mig minnir rúmlega tugur manna og vegurinn var malbikaður alla leið. Hér á landi fengum við malbik á vegi tugum ára á eftir Færeyingum og enn eru ekki allir vegir með bundnu slitlagi.
Það er sem ég segi; við áttum aldrei að fara frá Dönum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.3.2007 | 10:07
Verksmiðjustelpurnar
Ég vann einu sinni á Álafossi. Það var undanfari þess að við vinkonurnar fórum á vertíð til Eyja. Ævintýraþráin leiddi okkur á veg og við tókum hverjum degi fagnandi, nýir staðir, nýtt fólk já og ný ævintýri.
Við komum að Álafossi með rútu sem stoppaði á planinu ofan við íbúðaskálann. Framundan var á eða lækur og tvö reisuleg steinsteypt hús hinu megin við lækinn, annað grátt og hitt hvítt. Það var enginn til að taka á móti okkur, nýju starfsstúlkunum, sem ætlaðu að fara að vinna í verksmiðjunni á staðnum, við hvað vissum við ekki.
Við vorum ekki með mikinn farangur og áttum auðvelt með að koma okkur að skálanum ekki nokkur lifandi hræða var sjáanleg. Loks bar þar að ungan fjallmyndarlegan mann sem forvitnaðist um hvað við værum að gera og að því loknu vísaði hann okkur til herbergis í lágreistu byggingunni. Herbergið okkar var það fjórða frá hægri þegar inn var komið. Tveir dívanar af mjóstu gerð voru sitt hvoru megin í herbergingu og fataskápur í horninu bak við hurðina. Kassi frá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni stóð á milli dívananna, þjónaði auðsjáanlega sem náttborð.
Það var áliðið dags og farið að rökkva. Ekkert ljós var í herberginu, engin ljósapera í ljósastæðinu. Við komum okkur fyrir og fórum svo að leita að einhverjum sem hefði með ljósperur að gera. Við römbuðum á mötuneytið og spurðumst fyrir, jú konan þar átti ljósaperu og með hana héldum við til herbergis á ný. Ég skrúfaði peruna í, ekkert ljós. Ég hristi peruna, ekkert glamur, peran var sennilega heil. Til að sannprófa það fór ég fram í ganginn og skrúfaði eina af þremur perum í löngum ganginum úr og setti okkar peru í. Það varð ljós.
Við leituðum uppi manninn sem hafði vísað okkur til herbergis, höfðum tekið eftir að á smíðasvuntunni sem hann hafði um sig miðjan voru tangir og ýmis smá verkfæri. Jú, sagði hann þegar við fundum hann, ég er rafvirki. Hann fór með okkur til herbergis og ég spurði á ég ekki að taka öryggið af? Nei, nei sagði hann, þetta er ekkert mál. Ég rafvirkjadóttirin varð hissa. Maðurinn stakk lítilli töng upp í perustæðið og þeyttist með það sama af náttborðinu okkar góða frá Ölgerðinni, sem hann hafði notað til að standa á. Hann kveinkaði sér og við vorum satt að segja ekki vissar um hvernig við áttu að taka þessu. Hann stóð loks upp og fór. Ég kem seinna sagði hann og gerði honnor.
Í mötuneytinu sögðum við farið okkar ekki sléttar og konan góðlega sem hafði látið okkur fá peruna sagði; æ, þið hafið hitt á hann Palla, hann er óttalegur kjáni og ekki eins og fólk er flest, en besta skinn. Þar höfðum við það, við höfðum vingast við að við héldum eina vitleysinginn á staðnum. En annað átti eftir að koma í ljós.
Við höfðum keypt okkur sælgæti áður en við fórum með rútunni og nú lögðum við það snyrtilega á náttborðið okkar. Komum okkur upp í rúm, mauluðum sælgætið og spurðum hvora aðra í hvað við hefðum komið okkur. Við gáum ekki lesið og fljótlega sagði ferðaþreytan til sín og svefnhöfgi sveif á. Ég var rétt í þann mund að svífa inn í draumalandið þegar Olla sagði hvassri röddu; láttu nammið mitt vera. Ég er ekki að taka nammið þitt svaraði ég og heyrði um leið skrjáfið í bréfinu utan um Döðlusúkkulaðið sem Olla hafði keypt sér. Þetta var hennar stykki því ég var búin með mitt. Ég stökk á fætur og Olla líka og saman mættumst við á þeim hálfa fermetra sem var á milli dívananna. Það var músa- eða rottugangur í herberginu.
Það fór ekki vel um okkur um nóttina á þessum sextíu sentímetrum sem dívaninn var og hvorug þorði að liggja upp við vegginn eða á kantinum sem sneri frá veggnum. Við kúrðum á miðjunni alveg eins og börn í móðurkviði eða eins og Litli og Stóri. Fyrsti sólarhringurinn okkar á Álafossi lofaði ekki góðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.3.2007 | 09:08
Austurland tækifæranna
Óli Palli var að tala um það í útvarpinu í gær að það væri merkilegt að Reykjavík, sem er orðin, að hans sögn, þekkt um allan heim sem tónlistarborg getur ekki verið með tvær skemmtanir í einu, það er að segja í sama húsinu. Tónlistaflutningur truflaði nefnilega beina útsendingu á Gettu betur. Talandi um Reykjavík sem tónlistarborg þá er það mín skoðun að það sé verið að flytja til landsins alltof mikið að nánast útdauðum tónlistarmönnum, gömlum stjörnum sem muna mega sinn fífil fegri. En þetta er nú bara tónlitarsmekkur minn. Stórsöngvarnir á Listahátíð eru ekki þarna með taldir.
Við á landsbyggðinni eigum þess sjaldnast kost að sjá og hlýða á marga stórviðburði nema kosta til ærnu fé. Nema þegar Eivör boðar komu sína á Austurlandið og kemur svo ekki. En þessu má auðveldlega breyta. Í hverju kjördæmi eru menningarráð og nefndir sem hafa handa á milli umtalsvert fé. Þessu fé er deilt út sem styrkur til ýmissa misgáfulegra umsækjenda og satt best að segja eru það eiginlega alltaf sömu aðilarnir sem fá styrkina. Nú veit ég að í mörgum tilfellum á þetta rétt á sér en alls ekki alltaf.
Áhugamál fólks eru sem betur fer margvísleg. Sumir safna frímerkjum, aðrir stunda íþróttir, já og sumir skrifa bækur, og enn aðrir eru í tónlistarbransanum. Það eru aðeins þeir síðasttöldu sem fá styrk. Hinir verða að greiða fyrir sitt hobby sjálfir. Þó er það viðurkennt að íþróttir er list, það hef ég staðfest frá Vísindavef Háskólans.
Mætti ekki hugsa sér að fá einhvern góðan listamann eða menn hingað austur til að skemmta okkur sveitavörgunum eina dag- eða kvöldstund eða svo? Ég bendi á Fjarðabyggðarhöllina sem góðan vettvang til slíks samkomuhalds. Það kæmust 450 manns í sæti og 1000 2000 í stæði og hljómburðurinn getur ekki verið verra en í öðrum sambærilegum húsum.
Breytum þessu hið snarast, hættum að deila út hundrað þúsund kall hér og þar, já eða hálfri eða einni milljón og fáum til okkar menningarviðburð sem tekið verður eftir. Er þetta ekki Austurland tækifæranna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.3.2007 | 12:02
Úr einu í annað
Bara eitthvað annað var hefðbundið svar vinstri hægri grænna þegar spurt var um hvað ætti að koma í stað Kárahnjúkavirkjunar. Framkvæmd sem hefur gjörsamlega bylt austfirsku samfélagi til hins betra. Allir hafa heyrt um fjallagrasatýnsluna og hreindýramosann og já nú síðast um bakarí! Ekkert af þessu og raunar fátt annað eða bara ekkert kemur í stað virkjunarinnar og álversins á Reyðarfirði. Og af hverju er ég að skrifa þetta núna. Jú vegna þess að allir flokkar að íhaldinu undanskildu keppast við að lýsa því yfir að nú verði virkjanastopp. En þeir sem halda þessu fram benda ekki á neitt í staðinn. Ómar Ragnarsson sem hefur verið eins og landafjandi í baráttu sinni geng virkjunum síðustu ár hefur nú tekið sæti á lista Margrétar Sverris og er komin með virkjanastoppið niður í fjögur ár. Hann talar líka um Eldfjallaþjóðgarð, hugmyndin er ekki hans, en allt er hey í harðindum. Steingrímur Joð vill nú bíða þar til að fyrir liggja niðurstöður úr jarðhitaborunum og minn flokkur ennþá vill virkjanastopp. Hvað lengi veit ég ekki. Stundum er það næsta kjörtímabil en það fer bara eftir því hver talar.
Höðrustu andstæðingar framfara á landinu, þar á meðan virkjana, verða að benda á annað í staðinn, að segja bara eitthvað en ekkert svar. Fara Finnsku leiðina sagði Ómar í gærkveldi. En er Finnska leiðina ekki öll komin til Indlands núna?
Það er löngu komið í ljós að það er fornminjar á Íslandi. Og í raun og veru veit enginn hvað jörðin geymir. En það hefur hvarflað að mér að við getum auðveldlega boðið ferðamönnum upp á fornleifagröft á Íslandi. Það mætti hugsa sér skóla og stofnanir innlendar sem erlendar koma að slíkum uppgreftri og það yrði tekið gjald fyrir. Þið vitið það er ekkert gott sem er ókeypis!
Ferðamenn borga fyrir að fá að taka þátt í slíku ævintýri sem fornleifauppgröftur er en þeir fá ekki að eiga það sem þeir finna, ef þeir þá finna eitthvað. Þátttakendur yrðu látnir vinna óþriflegustu verkin, bogra, grafa og sigta, en greiðslur þeirra eru notaðar til að standa straum af kostnaðinum við hreinsun forngripa og skráningu þeirra.
Boðið er upp á uppgraftarorlof víðar í heiminum, m.a. í fornum grafreit í Póllandi og plantekrutóftum í Karíbahafseyjum svo ekki sé minnst á Bet Guvrin-þjóðgarðinn í Ísrael.Við getum verið með uppgraftarorlof víða um land. Í höfuðborginni, í Skálholt, á Skriðuklaustri og fleiri og fleiri stöðum. Ferðafrömuðir takið við ykkur, mér finnst hugmyndin góð, þó hún sé alls ekki mín.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.3.2007 | 08:33
Feitar fá ekki vinnu
Það er uggvænleg staðreynd að talið er að 6.000 til 7.000 manns að minnsta kosti þjáist af átröskun hér á landi. Talið er að um 10% sjúklinga deyi innan tíu ára. Tvær vikur er síðan ung kona dó úr þessum sjúkdómi. Átröskun er alvarlegt sálrænt vandamál sem getur valdið heilsutjóni og jafnvel dauða. Sjúkdómurinn birtist í ýmsum myndum en algengast sé að honum sé skipt í lystarstol og lotugræðgi. Þeir sem eru haldnir lystarstoli neita að borða en þeir sem eru haldnir lotugræðgi fá átköst að minnsta kosti tvisvar í viku og kasta síðan matnum upp. Oft er fólk með báða þessa sjúkdóma.
Ég tek ofan fyrir Norðmönnum að viðurkenna, fyrst ríkisstjórna á vesturlöndum, hina nýju samstjórn Hamas og hinnar hófsamari Fatah-hreyfingar. Í framhaldi af því heimsótti aðstoðarutanríkisráðherra Norðmanna ráðherra úr röðum Hamas. Látum vera hvaða skoðun fólk hefur almennt á stríðinu á milli ísraelskra stjórnvalda og Hamas-samtakanna, þá er það ljóst að með því að neita að hitta norska ráðherrann slóu ísraelsk stjórnvöld á útrétta sáttarhönd. Þeir halda enn að þeir séu Guðs útvalda þjóð og það halda bandaríkjamenn líka að þeir séu. Ég segi nú bara hvaða Guðs?Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2007 | 09:10
Miskunarsami Samverjinn!
Jón Steinar segist hafa tekið mál Jóns Geralds að sér vegna þess að hann var einstaklingur búsettur erlendis sem þurfti að fá lögmann til að fara með bótamál gegn mesta viðskiptaveldi á Íslandi. Hann hefði átt í erfiðleikum með að finna lögmann sem ekki væri tengdur þeim sem hann átti sökótt við eða óttaðist þá. Jón Steinar segir það hafa höfðað til sín við þessar aðstæður að hjálpa honum við að ná fram rétti sínum væri sá réttur til staðar.
Þannig hljóðaði fréttin í fjölmiðli allra landsmanna. Eru einhverjir sem trúa þessu, að Jón Steinar sé orðinn miskunarsami Samverjinn? Ekki ég. En þess ber að gæta að ég þekki manninn ákkúrat ekkert. Þannig að undir íhaldsskinninu getur leynst miskunarsami Samverjinn. En hefur sá hinn sami legið í dvala um árabil eða var hann að vakna núna. Hvað með alla dómana gegn þeim sem brotið hafa gegn börnum og Jón Steinar á aðild að? Kannski miskunsemi hans hafi þá legið í því að hafa dómana sem vægasta svo veslings maðurinn þyrfti nú ekki að gjalda þess að hafa verið að fikta við einhverjar stelpur eða stráka. Svei attann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2007 | 11:46
Dagurin eitur Jósef
19. mars. Jósef. Dagurin hildin til minnis um festarmannin hjá Mariu Moy. Hann gjørdist, sum vera man, halgimenni hjá húsasmiðum og handverksmonnum. Bíbilska navnið merkir Guð lati meg fjølgast. portal.fo
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.3.2007 | 08:47
Vetrarríki í dag og næstu daga
Klukkutímaflug og við tók rúmlega tveggja stunda akstur heim. Leið sem að öllu jöfnu er farin á 40 50 mínútum. Það var svo blint alla leið að ökumaðurinn þurfti að stoppa margsinnis til að bíða af sér bylinn. En heim komumst við heil á húfi eftir að hafa beðið eftir fleiri Norðfirðingum á Eskifirði og tekið tvo þeirra með í bílinn. Annar bíll var skilinn eftir á Egilsstöðum þar sem fyrirsjáanlegt var að hann var vanbúinn til þessarar ferðar. En nóg um það, komin heim og á leið í vinnu, eftir að hafa nánast mokað mig út!
Þegar maður heyrir fréttir af því, já nánast daglega, daglega hvernig Siv Friðleifsdóttir misnotar sjóði aldraðra, já og félagsmálaráðherrann líka, leyfi ég mér að taka heilshugar undir blogg Björgvins Vals Guðmundssonar frá því í gær og birta það hér orðrétt:
Eftir Silfur Egils í dag, hef ég m.a. komist að eftirfarandi niðurstöðu: Ég myndi ekki treysta Siv Friðleifsdóttur fyrir peningum til að fara með út í búð til Einars K. Guðfinnssonar að kaupa fuglakjöt, og ég myndi ekki treysta honum til að gefa henni rétt til baka.Siv vælir ámáttlega um óheilindi stjórnarandstöðunnar í auðlindaþvælunni þegar um algjört klúður af hálfu hennar og Jóns Sigurðssonar er að ræða. Össur Skarphéðinsson hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði þau hafa framið pólitískt hara-kiri fyrir hönd Framsóknarflokksins.
Fallegasta orðið sem ég á yfir framsókn og íhald er kjánar.
Það fór aldrei svo að klámið kæmist ekki að á Hótel Sögu. Öllu alvarlegra þó en þegar þessar hræður sem ætluðu að gista þar og horfa á klámrásina á hótelinu. Konu var nauðgað þar en í morgun var talið að nauðgarinn hafi náðst. Útlendingur auðvitað! Framsóknarflokkurinn hélt ársþing sitt þar, man ekki hvort það var sömu helgina og klámunnendurnir ætluðu að gista þar eða helgina á eftir, ætli hótelstjórinn hafi lokað klámrásinni á meðan?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2007 | 15:51
Gott afmæli og vonbrigði í blakinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2007 | 08:29
Eiríkur verður rauðhærður aftur
Þetta kom fram í morgunútvarpinu og því morgunljóst að það eru fleiri en ég sem höfðu út á hárið að setja. Þulurinn minntist ekkert á hárnæringu. Samkvæmt fréttinni hafði Eiríkur farið á hársnyrtistofu til að fá skol í hárið en einhver mistök urðu. Ætlið þið að segja mér að hann hafi komið fram í myndbandinu með þetta brúna hár ef það voru bara mistök. Ó nei.
Færeyingar voru í sviðljósinu í Baugsmálinu á dögunum. Í skýrslunni sem var lögð fram kemur fram að yfirheyrslur fór ýmist fram á ensku eða skandinavísku" en skýrslan var rituð á íslensku og færeyskur lögreglumaður þýddi innihald hennar fyrir Niels áður en hann skrifaði undir. Fyrir rétti í gær kannaðist Niels ekki við að hafa sagt ýmislegt sem í skýrslunni stendur og í ljós kom að lögreglumaðurinn skildi ekki heldur allt sem þar kom fram. Er þetta íslenskt réttarkerfi?
Skýrslur Færeyinginna sem báru vitni vegna málsins voru túlkaðar á íslensku af hæstaréttarlögmanni. Hann er reyndar ekki löggiltur dómtúlkur en þar sem enginn slíkur fannst á landinu var færeyskan hans látin duga en móðir hans er færeysk og hann hefur mikið dvalið í eyjunum og er þar komin skýring á tungumálakunnáttunni. Er þetta ekki dæmalaust að það skuli ekki vera til löggiltur dómtúlkur í færeysku hér á landi. Það var látið duga að mamma hæstaréttarlögmannsins er færeysk. Mætti ég þá heldur biðja um Karl Jóhann eða Jóa Tryggva.
Úr Beijing til Havnar
Maðurin, sum íslendska uttanríkisráðið hevus sett sum sendimann í Føroyum, hevur drúgvar royndir sum diplomatur. Seinast hevur hann verið sendiharri í heimsins fólkaríkastu tjóð, Kina, við 1,3 mia. íbúgvum. Nú flytir hann til ein av heimsins minstu tjóðum. Sosialurin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Vangaveltur
Tónlistarspilari
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.9.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 160885
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar