Mér fannst

    Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar bera blak af þeim veitingahúsaeigendum sem ekki höfðu lækkað verð á mat sínum. Hún marg sagði að það væru flestir búnir að lækka þrátt fyrir að könnun sama dag sýndi annað. Árni fjármálaráðherra var á annarri skoðun og sagði þetta valda sér vonbrigðum. Fram kom hjá Helga Seljan að nokkrir veitingastaðir hefðu hækkað verð í febrúar svo þær gætu lækkað eitthvað 1. mars. Það kom mér samt mest á óvart að mesta lækkunin var hjá veitingahúsum á Akureyr,i en eins og allir vita þá situr landsbyggðin ekki við sama borð hvað verðlagningu varðar. Það eru engin flutningsgjöld frá höfninni í Reykjavík til birgja.    

   Og þegar ég minnist á þetta því í ósköpunum hefur enginn komið upp vörugeymslu á Austfjarðahöfnum? Hingað er styst frá meginlandinu og þetta gæti skapað neytendum á Austurlandi lægra vöruverð. Jafnvel fyrir norðan líka. 

    Nú kasta ég sprengjunni. Ég vil að það verði reist álver á Húsavík. Það stendur auðvitað og fellur með ákvörðun Alcoa en mér er sama hvað sagt er. Það þarf róttækar aðgerðir til að reisa við atvinnulífið þar. Útgerð hefur stórminnkað og kýsilmálmverksmiðjunni við Mývatn hefur verið lokað. Ýmis þjónustufyrirtæki eiga undir högg að sækja og það þarf að gera eitthvað róttækt. Þó Samfylkingin sem ég ætla að kjósa í vor vilji að hlé verði gert á álversframkvæmdum þá vil ég álver á Bakka. Hafa frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norð-Austurkjördæmi sagt sitt álit á þessu?


Drottinn minn dýri

haldið þið að ég verði ekki að setjast og blogga eftir að hafa séð kynninguna á Júróvíson laginu okkar. Eitt orð yfir þetta myndband; ömurlegt. Malbik, vegrið og gamlar rústir og Eiríkur orðinn brúnhærður. Illskiljanlegur enskur texti um að ég held týndann Valentínusar strák. Til að segja eitthvað jákvætt þá má geta þess að lagið sjálft skilaði sér vel. En datt engum í hug að gefa Eiríki hárnæringu?


Grein Ásu Hjálmarsdóttur

í Morgunblaðinu um daginn sagði mér það sem ég vissi áður að margir sem barnaverndarnefndir höfðu afskipti af hér áður fyrr voru látin gjalda þess að þeir voru af fátæku fólki komin, á meðan synir betur stæðra bæjarbúa fengu mildari meðferð. Hér í bæ er til átakanleg saga af svona meðferð. Þó drengir hafi ekki verið sendir á Breiðamýri eða aðrar uppeldisstofnanir voru börn, bara drengir að ég held, sendir í sveit til vandalausra. Meðferð þess máls sem ég vitna til hefur ekki verið gerð opinber. Sjálf á ég þó frásögn manns sem lenti í þessu ásamt fleiri strákum. Og tilefnið var hnupl á nokkrum gosdrykkjarflöskum. Þetta gerðist fyrir 60 til 70 árum. Það er líka hægt að lesa málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar í gögnum sveitarfélagsins. Sá sem sagði mér söguna hefur aldrei viljað birta þetta opinberlega af tillitsemi við aðstandendur þeirra, sem voru þá í barnaverndarnefnd.

Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar-grænt framboð og Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram sameiginlega bókun úr starfi Evrópunefndar þar sem kemur fram skýr afstaða gegn aðild að Evrópusambandinu. Hægt er að álykta sem svo að þetta sé fyrsti liðurinn í komandi stjórnarsamstarfi. Steingrímur Joð sagði líka á ónefndri útvarpsstöð á dögunum að Vinstri Græn væri orðinn breyttur og breiður flokkur. Lýsti sig reiðubúinn til samninga um öll málefni og taldi fáa flokka stjórnhæfari en VG. Hann lauk máli sínu með því að hnýta í Samfylkinguna.

Vinstri Græn eiga aðild að einu stjórnarsamstarfi í sveitarstjórn. Það er í Mosfellsbæ þar sem VG lét umhverfisstefnuna fljúka fyrir embætti formanns bæjarráðs. Og ekki gleyma framgöngu VG þegar kosið var til formanns Sambands íslendkra sveitarfélaga. Þar fengu VG sæti varaformanns í skiptum fyrir atkvæðin sín.


Konur eruð þið að daðra við Steingrím?

   Mér finnst bráðskemmtilegt viðtalið við Ingva Hrafn í Blaðinu í gær. Hann er alltaf samur við sig, skefur ekki utan af hlutunum en mér þykir vænt um að hann hefði viljað sjá Samfylkinguna í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hann segir líka, og ég hef áður sagt að það verða konur sem ráða úrslitum kosninganna í vor. Svo ég haldi nú áfram að vitna í IH þá vill hann meina að þær konur sem hafi yfirgefið aðra flokka og gengið til liðs við VG séu að daðra. Ef karl sýnir konu sinni afskiptaleysi verður konan óánægð og þegar hún fer í næsta boð þá málar hún varirnar aðeins rauðari, setur meiri farða á sig, lyftir pilsinu upp um tvo sentimetra og fer að daðra um leið og hún lítur um öxl til að athuga hvort karlinn sé ennþá jafn sofandi. Jæja konur hvað segið þið við þessu? Ef þið eruð að daðra við Steingrím hættið því þá snarlega og snúið ykkur að því að gera Ingibjörgu Sólrúnu að forsætisráðherra. Konur um konur! 


Sum ferðalög eru

   minnisstæðari en önnur hvort sem þau eru stutt eða löng. Af öllum mínum flugferðum er mér ein minnisstæðari en aðrar en það var þegar ég var ein þriggja farþega í lítilli vél og það var einn flugmaður. Það er þó kannski ekki flugferðin sjálf sem er mjög svo minnisstæð heldur það sem á eftir kom.

  

   Þetta var í byrjun júlí 1965. Ég hafði farið í mína fyrstu utanlandsferð – fljúgandi, til Englands, hafði komið þar einu sinni áður, með skipi. Það var ekki eins auðvelt þá og nú að komast á milli landshluta og ég hálfgerður strandglópur í Reykjavík. En þegar ég heyri auglýst í útvarpinu að Gunnar og Bessi yrðu á skemmtun hjá Agli Rauða í Kirkjubólsteigi hringdi ég í annan hvorn þeirra og spurði hvernig þeir færu austur. Svör voru greið og leyfi fyrir að fljóta með þeim góðfúslega veitt. Við flugum sjónflug austur í því albesta veðri sem ég hef flogið í. Landsmót UMFÍ var haldið á Laugarvatni þessa helgi og þar yfir flugum við hring. Þarna var haldið eitt stærsta landsmót UMFÍ sem haldið hefur verið. Ekki hvarflaði að mér að ég ætti tveimur árum seinna eftir að sitja fyrst kvenna í landsmótsnefnd en það fór þó svo, og ég og skemmtikraftarnir tveir áttum eftir að hittast á vettvangi sem að því móti laut.

  

   Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands hélt til margra ára útiskemmtun í Atlavík. Innkoman af þessum skemmtunum stóð undir rekstri sambandsins um árabil. Það gerist svo 1966 eða 67, að ég er ásamt fleirum að undirbúa hátíðina í Atlavík. Meðal skemmtikrafta voru Gunnar og Bessi. Við hittumst þarna í gamla húsmæðraskólanum í morgunmat að morgni sunnudags og heilsumst. Svo líður fram að skemmtun og í Rjóðrinu þar sem skemmtidagskráin fór fram eru 3 – 4000 manns, stærsta skemmtunin til þessa. Ræðumaður dagsins var Elma Guðmundsdóttir og að skammlausri ræðu hennar lokinni, sem er tilefni til annarar sögu, koma aðalhetjurnar fram, Gunnar og Bessi. Þeir fóru auðvitað á kostum eins og alltaf en minnisstæðastur er mér endirinn. Bessi er við hljóðnemann. Hann lítur yfir mannfjöldann, eins og hann sé að leita að einhverjum og segir svo: Elma, skimar aftur í kringum sig og bætir við: Elma mín, hvar sagðurðu að tjaldið þitt væri?

  

   Enn get ég upplifað hreiminn í rödd hans, áleitinn og syngjandi og ég man hvað ég roðnaði.


Mér finnst afskaplega

 skrítnar fréttaskýringar, ef skýringar skal kalla, á fylgi vinstri grænna bláa. Það er eins og þessir aðilar líti svo á að vinstri hægri grænir taki aðeins fylgi frá Samfylkingunni. Liggur þá það fylgi stjórnarflokkanna sem þeir hafa tapað frá síðustu könnun, í lausu lofti?

   Það er rétt að konur sem hafa verið í Samfylkingunni hafa farið til vinsti grænna hægri, en ég er viss um að þær eiga eftir að skila sér til baka. Það kemur að því að konur spyrja sjálfa sig hvort þær vilji þá stjórnarhætti sem tíðkuðust austan tjalds allt fram á þessa öld. Eilíf boð og bönn, en það er það sem vinstri grænir hægri  boða. Éttu það sem úti frýs ef þú vilt ekki það sem við bjóðum upp á. Og hvað er það? Kúvending í umhverfismálum af því að það eru að koma kosningar. Hvað sagði formaður vinstri grænna hægri fyrir um tíu árum um virkjun Þjórsár? Kynnið ykkur tvískinnunginn í manninum sem vill koma á netlöggu. Eitt skref til vinstri og annað til hægri styðja, styðja tja tja tja.

   Lára Stefáns frambjóðandi Samfylkingarinnar í NA kjördæmi er fimmtug í dag. Í tilefni tímamótanna kemur út bók með ljósmyndum Láru við ljóð Gísla mannsins hennar. Eða öfugt. Til hamingju með daginn Lára.


Einhver púki hefur

   verið í tölvunni í gær því ég sá í dag að sama bloggið hafði komið tvisvar. Eins og það var nú ómerkilegt. Stjórnarherrarnir náðu saman um ákvæði sem fella skal inn í stjórnarskrána. Ekki aðeins um auðlindir sjávar eins og Framsóknarmenn vildu, nei gott betur um breytingu sem tryggja á að allar náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign. Í fyrstu var ég afskapleg glöð. Núna skyldi enginn einn eiga vatnið sem rennur í ám og lækjum, eða endurnar og rjúpurnar og meira og meira. En Adam var ekki lengi í Paradís. Ég mundi allt í einu eftir fyrstu málsgrein í lögum um fiskveiðar. Kemur þar ekki einmitt fram að auðæfin umhverfis landið skuli vera þjóðareign? Hvar er þá kvótinn minn? Og af hverju eru fjölmörg smærri sveitarfélög á heljarþröm? Jú af því að Halldór Ásgrímsson og hans nótar sáu til þess að kvótinn fór á fárra hendur. Því er ég ekkert svo ánægð með þessa tilraun Geirs og Jóns sem eingöngu var til þess gerð að koma í veg fyrir stjórnarslit.

   Siv heldur áfram að gefa út á kostnað ríkisins kosningarpésa. Núna heitir þetta stefna í lyfjamálum til ársins 2012, Ég segi það enn og aftur að þetta Framsóknarp.kann ekki að skammast sín. Sáuð þið Valgerði í Kastljósinu í kvöld? Þegar farin að leggja á ráðin um meiri völd. Er hún virkilega svo staurblind að hún sjái ekki að hún verður ekki ráðherra í næstu ríkisstjórn. Nema hún sé “næst besti kosturinn” hans Geirs!

   Sighvatur Björgvinsson sendiherra og framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sá ástæðu til að gagnrýna skýrslu um skipulag þróunarsamvinnu og hvað gerðist. Valgerður brást við með hroka og lét utanríkisráðuneytið senda frá sér ályktun.

   Og í dag 8. mars sem er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Um leið og ég óska lesendum mínum til hamingju með daginn sem nú er að kvöldi kominn vil ég vekja athygli ykkar á því að launamunur kynjanna er enn mikill og hefur ekki batnað í tíð núverandi ríkisstjórnar.


Það fer fátt meira

    í taugarnar á mér en þegar þessi eða hinn er blásinn út sem Íslandsvinur. Oftar en ekki er fólk tilnefnt vegna frægðar sinnar fyrir eitt eða annað. Elton John er Íslandsvinur eftir að hann lék í afmælisveislu Óslafs Samskipa gúrós, hann var það ekki þegar hann lék í grenjandi rigningu á Laugardalsvelli. Nýjasti Íslandsvinurinn er Helen Mirrer en ég hef ekki hugmynd um af hverju. Ég kann ekki tölu á öllum þeim Íslandsvinunum sem fréttamenn búa til, þeir skipta tugum.

 

   Ég vil að slippurinn á Neseyrinni verði fluttur inn á hafnarsvæðið. Þá rýmkast enn meira fyrir leikskólann sem ég vona að verði byggður þarna. Slippur í miðbænum er barn sína tíma hvar á landinu sem hann er. Nú á að flytja slippinn í Reykjavík upp á Skaga, ætli Skagamenn geti neitað því eftir að þeir gerðust aðilar að Hafnarsambandi Faxaflóahafna? Það á líka að ráðast í það að rífa Stjörnuna og skemmurnar sem standa við Eyrargötuna. Þetta svæði er alltof gott til að vera ekki betur nýtt en það er í dag.

 

   Loksins er lokið málaferlum og vafstri milli Fjarðabyggðar og eigenda Tandrastaða í Norðfirði, Málið snerist um töku neysluvatns í landi Tandrastaða. Hvernig svo sem staðið var að málinu í upphafi þá finnst mér algjörlega út í hött að nokkur maður eigi vatnið sem rennur í ám og lækjum landsins. Í landi Tandrastaða var að vísu borað eftir vatninu og reist dæluhús en eftir stendur að Fjarðabyggð er dæmd til að greiða landeigendum fyrir vatnið. Þetta er nú sú mesta Framsóknarmennska sem má hugsa sér. Og því spyr ég af hverju setur formaður Framsóknarflokksins það ekki á oddinn að ALLAR auðlindir þjóðarinnar sé sameign. Ekki bara fiskurinn í sjónum, líka vatnið, heita vatnið í iðrum jarðar, fuglar loftsins, jöklarnir og áfram mætti telja. Já, ég gleymdi því að tóftirnar sem eru í landi Tandrastaða voru metnar á einhverja tugi milljóna! Ja dýr yrði Hafliði allur.


Mjallhvít með punginn

   Vinkona mín eignaðist einu sinni kött. Mjallarhvítan, sem fékk auðvitað nafnið Mjallhvít. Kötturinn var auðvitað klappaður og kjassaður alla daga þangað til það kom í ljós að þetta var fress. Eftir það hætti klappið og kjassið og var hann aldrei kallaður annað en Mjallhvít með punginn. Af hverju í ósköpunum dettur mér þetta nú í hug? Jú vegna þess að hlutfall kvenna er orðið langhæst hjá Vinstri grænum og virðist sem konur hafi villst af leið. Í stað þess að fylkja sér um þá konu sem ein kvenna er formaður stjórnmálaflokks hér á landi, streyma þær til Steingríms Joð og hann er því í mínum huga Mjallhvít með punginn. Það skiptir engu hvort þú skilur samlíkinguna eða ekki, ég geri það.

   Ellert Schram átti frábæran pistil í laugardagsblaði Fréttablaðsins og hvet ég fólk til að lesa hann. Ellert segir þar í niðurlagi: “Skilaboðin eru þessi: Ríkidæmið, auðurinn og velmegunin eru góðra gjalda verð. En ekki glata eða gleyma þeirri undirstöðu lífshamingjunnar að hófsemi, auðmýkt og þakklæti gagnvart örlögum okkar og auðnu, er fólgið í þeirri einföldu staðreynd að vera góður við aðra. Að gefa af sér. Að láta gott af sér leiða. Við sækjum aldrei lífsgleðina í annað en okkur sjálf. Gerfiþarfir, ofgnótt eða sjálfumgleði eru blekking, áfengið og fíkniefnin og prjálið eru ekkert annað en flótti frá okkur sjálfum. Árangurslaus leit að hamingju sem í allri einfeldni sinni er hvergi nema í sjálfum þér. Hversu mikla peninga sem þú átt, hversu mikið sem þú neytir fíkniefna, hversu mikið sem þú reynir að vera öðruvísi en þú ert.

   Við verðum að rækta þá hugsun og þá staðreynd að verðmætin koma ekki utan frá. Ekki í peningunum, firringunni né innantómu glysinu. Þau eru í okkur sjálfum.


Utanríkisráðherrann dillaði

    sér við trumbuslátt innfæddra í Úganda. Hún virtist þó ekki alveg viss um taktinn enda er hann gjörólíkur country taktinn sem hann fílar svo vel. Forsætisráðherra talar varla við fjölmiðla án þess að klæmast. Fyrst var það næstbesta stelpan, næst kom ólétta stelpan og í dag sagði hann að það hafi ekki verið neitt skott á lofti og brosti lymskulegur á svipinn. Fréttamennirnir hlógu. Þetta með skottið kom til vegna ummæla fréttamanns sem spurði landbúnaðarráðherra hvort framsóknarmenn hefði lagt niður skottið.

   Svo mikið er stjórnarherrunum í mun að núverandi stjórnarsamband haldi eftir kosningar, fái flokkarnir fylgi til þess, að þeir keppast um að mæra hvern annan.

   Samtökin 78 fengu í gær bjartsýnisverðlaun Framsóknarflokksins á landsþingi sem stendur yfir á Hótel Sögu í Reykjavík. Jafnréttisverðlaunin gengu til framsóknarmanna sjálfra, það er að segja til þingflokksins og tók Dagný Jónsdóttir, varaformaður þingflokksins, við þeim af formanni Framsóknar. Er Dagný samkynhneigð?

   Samkeppnisstofnun réðst inn í ferðaskrifstofur landsmanna vegna gruns um verðsamráð. Mér dettur nú helst í huga að verið sé að finna lögfræðingum verkefni. Kom Samkeppnisráð ekki við sögu þegar ráðist var inn til Baugs Það mál hefur kostað landsmenn hundruð milljóna króna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vangaveltur

Höfundur

Hulda Elma Guðmundsdóttir
Hulda Elma Guðmundsdóttir
Róttæk vinstri kona. Er fædd og uppalin í Neskaupstað - ekta Nobbari og haldin átthagafjötrum. Er íþrótta- og félagsmálafrík og elska ferðalög.

Tónlistarspilari

Elvis Presley - Blue Christmas

Nýjustu myndir

  • goðanes
  • img471-copy

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 160886

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband